Mynd vikunnar 2012

30. júlí 2012

Ungar stjörnur í rauðu hýði

Á jörðinni tengjast hýði nýju lífi. Í geimnum eru líka „hýði“ en í stað þess að verja púpur þegar þær umbreytast í mölflugur, eru þær fæðingarstaðir nýrra stjarna.

Rauða skýið sem sést á þessari mynd sem tekin var með EFOSC2 tækinu á New Technology Telescope ESO, er gott dæmi um stjörnumyndunarsvæði af þessu tagi. Skýið nefnið RCW 88 og er í um tíu þúsund ljósára fjarlægð frá jörðinni og um níu ljósár í þvermál. Það er ekki úr silki eins og hýði mölflugu, heldur glóandi vetnisgasi sem umlykur nýmyndaðar stjörnur. Nýju stjörnurnar urðu til þegar vetnisgasskýin féllu saman undan eigin þyngdarkrafti. Nú þegar skína sumar þróaðari stjörnurnar skært og sjást jafnvel í gegnum skýið.

Þessar heitu, ungu stjörnur eru mjög orkuríkar og gefa frá sér mikið magn útfjólublárrar geislunar sem hrifsa rafeindir af vetnisatómum í skýinu og skilja eftir jákvætt hlaðna kjarna — róteindir. Þegar róteindirnar fanga rafeindirnar aftur geta þær gefið frá sér vetnis-alfa ljós sem hefur einkennandi rauðan bjarma.

Einfaldasta leiðin fyrir stjörnufræðinga að finna þessi stjörnumyndunarsvæði er að rannsaka himininn í gegnum vetnis-alfa síu. Vetnis-alfa sía var ein fjögurra sía sem notaðar voru til að útbúa þessa mynd.


23. júlí 2012

Grunnbúðir Paranal úr lofti

Frá þessu sjónarhorni er horft yfir Very Large Telescope ESO á Cerro Paranal í Atacamaeyðimörkinni í Chile og grunnbúðir stjörnustöðvarinnar fyrir neðan. Nálægt miðju sést Paranal Residencia, griðarstaður þeirra sem starfa á fjallinu, með hvítu hvolfi á þaki sínu. Vinstra megin við Residencia, hinumegin vegarins, er íþróttahús staðarins en vinstra megin við það er viðhaldsbyggingin (Mirror Maintenance Building, MMB) þar sem risaspeglar VLT eru annað slagið hreinsaðir og endurhúðaðir. Á bak við þá byggingu er aflstöð stjörnustöðvarinnar og enn lengra til vinstri er tækjabyggingin. „Stjörnuslóðin“ vindur sig upp fjallshlíðina í forgrunni en það er gönguslóði frá Residencia upp á fjallstindinn.

Sólin settist um það bil kortéri áður en þessi mynd var tekin og baðaði grunnbúðirnar fallegu appelsínugulu ljósi. Í rökkrinu sjást fínir drættir landslagsins þar sem skuggarnir gefa hæðunum meiri dýpt. Slíkt sést aðeins á Paranal á „gullklukkutímanum“ fyrir sólarupprás eða eftir sólsetur, því sólskinið á daginn gefur ekki góð birtuskil.

Gerhard Hüdepohl, ljósmyndari ESO, tók þessa víðmynd.

Tenglar


16. júlí 2012

ALMA loftnet á ferðinni

Á þessari mynd sést eitt af evrópsku loftnetum Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) þar sem verið er að flytja það í þjónustumiðstöð verkefnisins. Frá því að þessi mynd var tekin hafa fleiri loftnet bæst við og verið tekin í notkun á Chajnantor þar sem ALMA hefur þegar hafið rannsóknir þótt röðin sé aðeins tilbúin að hluta (sjá eso1137). Fimmtudaginn 12. júlí var svo lokað fyrir umsóknir fyrir næsta rannsóknarfasa ALMA. Meira en 1100 umsóknir bárust frá stjörnufræðingum um allan heim.

ALMA gerir mælingar í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli frá Chajnantor sléttunni. Þegar smíði sjónaukans lýkur verður ALMA röð 66 hárnákvæmra 12 og 7 metra loftneta sem dreifast um allt að 16 km breitt svæði en vinna sem einn sjónauki sem greinir 0,32 til 3,6 millímetra bylgjulengdir. Meira en helmingi loftnetanna 66 hefur þegar verið komið fyrir á Chajnantor (sjá ann12035). >ESO leggur tuttugu og fimm evrópsk loftnet til verkefnisins í gegnum samninga við evrópska AEM samstarfið. ALMA mun einnig hafa 25 loftnet frá Norður Ameríku og 16 frá austur Asíu.

Loftnetin vega hvert um sig næstum 100 tonn og eru sett saman og prófuð í þjónustumiðstöðinni, sem er í næstum 2.900 metra hæð yfir sjávarmáli í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Þaðan eru þau síðan flutt upp á Chajnantor sléttuna sem er í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli með hjálp tveggja sérhannaðra flutningabíla — risatrukka sem aka um á 28 dekkjum, eru 10 metra breiðir, 20 metra langir og 6 metra háir; vega 130 tonn hvor og hafa jafnmikið afl og Formúlu 1 vélar. Annar flutningabílanna nefnist Ottó og er í notkun á þessari mynd sem tekin var þegar fyrsta evrópska loftnetið var afhent stjörnustöðinni í apríl 2011.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).


9. júlí 2012

Kattarloppan endurblönduð

Kattarloppuþokan sést hér á mynd sem var sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum og af stjörnuáhugamönnunum Robert Gendler og Ryan M. Hannahoe. Þokan dregur nafn sitt af löguninni sem er augljós í rauðglóandi gasskýjunum fyrir framan kolsvartan og stjörnum stráðann himingeiminn.

Myndin var búin til með því að skeyta saman athugunum sem gerðar voru með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile (sjá eso1003) og ljósmynd sem Gendler og Hannahoe tóku með 0,4 metra sjónauka á 60 klukkustundum.

Upplausn athugana 2,2 metra MPG/ESO sjónaukans var blandað saman (með því að nota birtu þeirra) við litaupplýsingar úr myndum Gendlers og Hannahoes og útkoman er þessi fallega blanda úr gögnum atvinnu- og áhugamannasjónauka. Litaupplýsingarnar draga fram daufa, bláa þokumóðu í miðjunni sem sést ekki á upprunalegu mynd ESO en gögn ESO sýna þó fínni smáatriði. Heildarniðurstaðan er mynd sem er miklu betri en hlutar hennar.

Kattarloppuþokan (einnig þekkt sem NGC 6334) er í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Þótt hún virðist nálægt miðju vetrarbrautarinnar á himninum, er hún tiltölulega nálægt jörðinni, eða í 5.500 ljósára fjarlægð. Hún er um 50 ljósára í þvermál og eitt virkasta stjörnumyndunarsvæðið í vetrarbrautinni okkar. Í henni eru ungar, bjartar og massamiklar stjörnur sem hafa orðið til undanfarnar milljónir ára. Líklega geymir hún tug þúsundir stjarna, sumar sýnilegar en aðrar faldar á bak við gas- og rykský.

Tenglar


2. júlí 2012

Vin í eyðimörkinni

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching við München í Þýskalandi.

Frá því í febrúar 2002 (eso0205) hefur Paranal Residencia verið dvalarstaður fólks sem vinnur vaktavinnu við aðalstjörnustöð ESO, Paranal í Atacamaeyðimörkinni í Chile þar sem Very Large Telescope (VLT) ESO er að finna. Gerhard Hüdepohl, ljósmyndari ESO, tók Fyrr og ný ljósmyndir þessa mánaðar, sem veita okkur einstaka sýn á smíði þessara vinar í eyðimörkinni.

Gamla myndin sýnir Residencia í smíðum í lok ársins 2000. Bygging, sem er L-laga og byggð neðanjarðar, var hönnuð af þýsku arkitektastofunni Auer+Weber. Hún er í svipuðum lit og eyðimörkin og fellur því vel inn í umhverfið. Þetta hálfkláraða miðsvæði í Residencia minnir um margt á hringleikahús með sætaröðum úr steinum undir opnum, heiðskírum himni.

Í dag lítur Residencia öðruvísi út! Þótt byggingin sé staðsett neðanjarðar hefur með frumlegri hönnun tekist að skapa pláss þar sem maður fær það á tilfinninguna að maður sé staddur í opnu rými. Yfir miðsalnum er 35 metra breitt glerhvolf sem hleypir náttúrulegri birtu inn í bygginguna. Í stað hringleikahússins frá árinu 2000 er nú komin garður og sundlaug sem sjá um að halda tilteknu rakastigi innandyra og skapa þægilegra andrúmsloft fyrir fólkið sem vinnur á einum þurrasta stað veraldar.

Þökk sé einstakri hönnun Residencia hefur frægð byggingarinnar borist víða út fyrir stjarnvísindasamfélagið. Sem dæmi voru lykilsenur í James Bond kvikmyndinni Quantum of Solace teknar upp hér árið 2008, þar sem Residencia var í hlutverki „Perla de las Dunas“ hótelsins [1]. Árið 2009 valdi breska dagblaðið Guardian Residencia sem eina af „topp tíu byggingum áratugarins“ (sjá ann0940) og árið 2012 var Paranal stjörnustöðin og Residencia hluti af „Perfect Places“ auglýsingaherferð Land Rover (sjá ann12008).

Skýringar

[1] Frekari upplýsingar um James Bond á Cerro Paranal má nálgast hér eso0807, eso0838 og http://www.eso.org/public/outreach/bond/BondatParanal.html

Tenglar


25. júní 2012

Mars árið 2099?

Á kaldri, dimmri nóttu á Mars, í miðri skraufþurri eyðimörk, lýsa manngerð ljós upp mjóan veg sem liggur upp að einmannalegri byggingu ofan á gömlu fjalli. Unnandi vísindaskáldsagna gæti að minnsta kosti lesið það út úr þessari næstum ójarðnesku mynd.

Myndin sýnir í raun Paranal stjörnustöð ESO, heimili Very Large Telescope (VLT). Engu að síður er auðvelt að ímynda sér þennan stað sem Mars í framtíðinni, hugsanlega í aldarlok. Einmitt þess vegna kallar ljósmyndarinn Julien Girard þessa mynd „Mars 2099“.

Paranal stjörnustöð ESO er í 2.600 metra hæð yfir sjávarmáli á einum þurrasta og afskekktasta stað jarðar, Atacamaeyðimörkinni í Chile. Landslagið minnir svo á Mars að Geimvísindastofnun Evrópu (ESA) og NASA prófuðu Marsjeppana sína á svæðinu. Til dæmis prófaði teymi frá ESA Seeker jeppan sjálfvirka á staðnum eins og lesa má um í ann12048.

Myndin var tekin skömmu eftir sólsetur. Horft er í suðvesturátt að VLT frá VISTA sjónaukanum sem er á gagnstæðum tindi. Vinstra megin er Kyrrahafið í aðeins 12 km fjarlægð frá Paranal. Upp frá tindi Paranal rís vetrarbrautarslæðan og óyggjandi merki um suðurhimininn — stjörnumerkið Suðurkrossinn.

Himininn yfir Paranal getur verið svo tær og dimmur á tunglskinslausri nóttu að ljósið frá vetrarbrautinni varpar skuggum. Einmitt þess vegna kaus ESO að byggja VLT á þessum stað en stjörnustöðin býr við einhverjar bestu aðstæður til stjörnuahugana sem til eru á jörðinni.

Julien Girard er stjörnufræðingur hjá ESO í Chile sem starfar við VLT. Hann sendi þessa mynd í Your ESO Pictures myndahópinn á Flickr. Farið er yfir þennan Flickr hóp reglulega og bestu myndirnar valdar fyrir mynd vikunnar eða fyrir myndasafnið okkar. Í tilefni af 50 ára afmæli ESO á árinu 2012, óskum við líka eftir sögulegum myndum sem tengjast ESO.

Tenglar


18. júní 2012

Leysigeisli Yepun og Magellansskýin

Lofthjúpur jarðar er einn versti óvinur stjörnufræðinga. Hann veldur því að fyrirbæri himins sýnast þokukennd í gegnum sjónauka á jörðu niðri. Til að vinna bug á þessu nta stjörnufræðingar aðlögunarsjóntæki sem leiðrétta bjögun lofthjúpsins í rauntíma með tölvustýrðum speglum. Speglarnir aflagast mörg hundruð sinnum á sekúndu og vega þannig upp á móti ókyrrðinni í lofthjúpnum.

Þessi fallega mynd sýnir Yepun [1], einn fjögurra 8,2 metra sjónauka Very Large Telescope (VLT) ESO, þar sem hann skýtur öflugum gulum leysigeisla hátt upp í himininn. Á hverri nóttu spillir þessi ljósgeisli frá VLT kristaltærum himninum yfir Paranal, en af góðri ástæðu.

Hlutverk leysigeislans er að útbúa gervistjörnu í um 90 km hæð yfir jörðinni. Þar rekst hann á natríumatóm sem taka að glóa svo úr verður gervistjarna. Þessi leysgeislastjarna (Laser Guide Star eða LGS) er hluti af aðlögunarsjóntækjum VLT. Ljósið sem gervistjarnan gefur frá sér er grannskoðað og notað til að vinna gegn bjagandi áhrifum lofthjúps jarðar. Þannig er hægt að taka hnífskarpar myndir, alveg eins og þær væru teknar í geimnum.

Á himninum vinstra og hægra megin við leysigeislan skína Magellansskýin tvö, Stóra og Litla, skært. Þessar nálægu, óreglulegu dvergvetrarbrautir eru áberandi á suðurhveli himins og sjást leikandi með berum augum. Þau eru á sveimi um vetrarbrautina okkar og telja stjörnufræðingar að bæði hafi aflagast mjög vegna þyngdartogs frá henni þegar þær gerast of nærgöngular.

Myndina tók Babak Tafreshi, ljósmyndari ESO.

Skýringar

[1] Allir fjórir sjónaukar VLT eru nefndir eftir fyrirbærum himins í Mapuche sem er fornt tungumál innfæddra í Chile og Argentínu. Frá vinstri til hægri eru Antu (sólin), Kueyen (tunglið), Melipal (Suðurkrossinn) og Yepun (Venus).

Tenglar


11. júní 2012

Fossandi vetrarbrautarslæða

Margar stjörnuljósmyndir fanga glæsilegt útsýni okkar á himininn og er þessi sem hér sést ekki undanskilin. Myndin er þó nokkuð óvenjuleg. Bak við Very Large Telescope (VLT) ESO virðist sem vetrarbrautarslæðan fossi niður eða rísi til himins eins og reykstólpar. Ástæðan er sú að myndin nær yfir himinhvolfið allt, frá hvirfilpunkti út á sjóndeildarhringinn, 360 gráður. Fossarnir tveir eru í raun ein slæða: Flötur Vetrarbrautarinnar sem liggur í boga yfir himininn milli sjóndeildarhringa. Vegna vörpunar á flata, rétthyrnda mynd hefur myndin bjagast svo slæðan flest út yfir alla efstu brún myndarinnar.

Til að átta þig betur á myndinni skaltu ímynda þér að vinstri hliðin sé föst við þá hægri þannig að þær liggi í kringum þig og að efsti hlutinn sé dreginn saman í einn punkt beint fyrir ofan haustamótin. Þannig nær hún öllu himinhvolfinu yfr okkur.

Vinstra megin á myndinni sést skuggamynd af vindpoka stjörnustöðvarinnar, þar sem hann er fastur á stöng sem rís yfir bygginguna. Til vinstri við vindsokkinn sést Litla Magellansskýið, nágrannavetrarbraut okkar, sem bjartur þokublettur. Til hægri, í fleti vetrarbrautarinnar, má sjá rauðleitan bjarma Kjalarþokunnar. Fyrir ofan hana er dökka skýið Kolapokinn og næst honum stjörnumerkið Suðurkrossinn en örlítið hærra á lofti eru tvær bjartar stjörnur, Alfa og Beta Centauri. Fjóru stóru byggingarnar á myndinni hýsa 8,2 metra sjónauka VLT. Milli tveggja þeirra sér í smærri byggingu er geymir VLT Survey Telescope. Hægra megin skín svo Venus skært rétt fyrir ofan sjóndeildarhringinn.

Þessa víðmynd, sem sýnir ekki aðeins VLT á toppi Cerro Paranal heldur líka fegurð himinsins sem er viðfangsefni sjónaukann, tók Serge Brunier, ljósmyndari ESO. Alveg eins og þessir háþróuðustu sjónaukar heims bæta mynd okkar af alheiminum notaði Serge háþróuðustu ljósmyndatækni til að fanga himinhvolfið allt á einni mynd sem á sést miklu meira en augu okkar greina í einu.

Tenglar


4. júní 2012

Tölvubúnaður ESO í gegnum tíðina — Miklar tækniframfarir

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching við München í Þýskalandi.

Ljósmyndir þessa mánaðar sýna okkur hve miklar breytingar hafa orðið á tölvubúnaði ESO í gegnum tíðina. Á báðum myndum sést austurríski stjörnufræðingurinn Rudi Albrecht fyrir framan tölvukerfi ESO með nokkurra áratuga millibili.

Eldri myndin var tekin árið 1974 í skrifstofum ESO í Santiago í Chile en á henni sést Albrecht með blýant í hönd að skoða kóða fyrir framan fjarrita. Hann er þarna að vinna við hugbúnað fyrir Spectrum Scanner mælitækið á eins metra sjónauka ESO [1] í La Silla stjörnustöðinni. Í Santiago voru gögnin unnin með Hewlett Packard 2116 mínítölvu sem sjá má á bakvið prentarann. Í þessari stóru tölvu var einn örgjörvi og hvorki meira né minna en 16 kílóbæta segulkjarnaminni (!) og voru niðurstöðurnar geymdar á segulbandi sem stjörnufræðingarnir unnu svo frekar í tölvubúnaði sinna stofnana. Til að ráða við skrár sem voru stærri en minni tölvunnar þróaði Albrecht sýndarminniskerfi sem hann lagði til hugbúnaðarmiðstöðvar Hewlett Packard.

Á nýju myndinni sést Albrecht í gagnaverinu í höfuðstöðvum ESO í Garching við München í Þýskalandi sem hýsir og dreifir gögnum frá sjónaukum ESO. Albrecht er fyrir framan rekka sem inniheldur kerfi 40 kjarna, 138 terabæta hörðum diskum og 83 gígabæta RAM — meira en 5 milljón sinnum meira en tækið sem hann notaði árið 1974! Meira að segja spjaldtölvan sem hann heldur á er miklu öflugri en gamla tölvan og kemur í stað blýants og pappírs.

Tölvukerfi ESO hefur þróast í gegnum árin samhliða auknu magni vísindagagna frá sjónaukum stjörnustöðvanna. Framfarir í sjónaukatækni, nemum og tölvubúnaði hafa það í för með sér að stjörnustöðvarnar geta nú framleitt feikilegt magn mynda, litrófa og skráa. Sem dæmi framleiða VST og VISTA kortlagningarsjónaukarnir í Paranal samanlegt meira en 100 terabæt af gögnum á ári. Býsna langt frá dögum segulspóla og 16 kílóbæta minni!

Skýringar

[1] Eins metra sjónauki ESO var tekinn úr notkun árið 1994.


28. maí 2012

Suðurhluti Vetrarbrautarinnar yfir ALMA

Babak Tafreshi, ljósmyndari ESO, tók þessa fallegu mynd af loftnetum Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) undir vetrarbrautarslæðunni. Himininn sem sést á myndinni er til marks um þær frábæru aðstæður til stjörnuathugana sem eru á hinni 5.000 metra háu Chajnantor sléttu í Atacamaeyðimörkinni í Chile.

Á myndinni sjást stjörnumerkin Kjölurinn og Seglið. Á miðri mynd, ofarlega til vinstri og niður til hægri, sjást dökk rykský í Vetrarbrautinni. Bjarta appelsínugula stjarnan uppi, vinstra megin er Suhail í Seglinu en hægra megin við hana, ofarlega á miðri mynd, er Avior í Kilinum, önnur álíka appelsínugul stjarna. Milli þeirra eru þrjár aðrar bjartar, bláar stjörnur sem mynda „L“. Þær tvær sem eru vinstra megin tilheyra Seglinu en sú til hægri Kilinum. Undir þessum stjörnum, á miðri mynd, sést bleikur bjarmi Kjalarþokunnar (eso1208).

ESO leggur til 25 af 66 loftnetum ALMA fyrir hönd Evrópu. Loftnetin tvö sem eru næst okkur á myndinni, sem sjá má með naumindum að eru merkt DA-43 og DA-41, eru dæmi um þessi evrópsku loftnet. Árið 2013 lýkur smíði ALMA sjónaukaraðarinnar en mælingar eru þegar hafnar þótt röðin sé hálfkláruð.

Babak Tafreshi er stofnandi The World at Night verkefnisins sem snýst um að skapa og sýna fallegar ljósmyndir og myndskeið af fallegum, söguleikum stöðum víða um heim undir stjörnubjörtum himni.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).


21. maí 2012

Ísstrýtur í tunglskininu á Chajnantor

Babak Tafreshi, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa mynd af forvitnilegu fyrirbæri á Chajnantorsléttunni þar sem Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) er að finna.

Þessar sérkennilegu ísmyndanir kallast penitentes eftir spænska orðinu yfir strýtur. Þær lýsast upp í tunglskininu sem sést hægra megin á myndinni. Vinstra megin, hærra á lofti, glittir í Litla og Stóra Magellansskýin en rétt fyrir ofan sjóndeildarhringinn, lengst til vinstri, sést daufur rauðleitur bjarmi Kjalarþokunnar.

Ísstrýtur eru náttúrulegar ísmyndanir sem finnast aðallega á mjög hálendum svæðum eins og í Andesfjöllum Chile, venjulega í yfir 4.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þær eru þunnir broddar eða blöð úr hörðnuðum snjó eða ís sem myndast gjarnan í þyrpingum og vísa blöðin í átt að sólinni. Þær eru oft fáeinir sentímetrar á hæð og minna þá á nýslegið gras upp í fimm metrar og líkjast þá ísskógi í miðri eyðimörkinni.

Ekki er vitað með vissu hvernig ísstrýturnar verða til. Í mörg ár töldu íbúar í Andesfjöllunum að myndun þeirra mætti rekja til sterkra vinda sem blása um fjöllin. Hins vegar hefur komið á daginn að sterkir vindar leika takmarkað hlutverk í mótun strýtanna. Í dag er talið að þær verði til fyrir tilverknað nokkurra þátta.

Ferlið hefst með sólarljósi sem lýsir upp snjóinn. Vegna þess hve þurrt er í þessari skraufþurru eyðimörk, þurrgufar ísinn í stað þess að bráðna — hann breytist með öðrum orðum úr klaka í gas án þess að bráðna í millitíðinni. Trog í snjónum eru sem gildrur fyrir sólarljósið sem leiðir til meiri þurrgufunar og dýpri troga. Í trogunum er hitinn örlítið hærri og rakinn meiri svo bráðnun getur átt sér stað. Þessi jákvæða svörun hraðar vexti strýtanna.

Ísstrýturnar eru nefndar eftir strýtuhöttum „Nazarenos“, nasaretanna, bræðralags sem tekur þáttí píslargöngum víða um heim um páska. Í eyðimörkinni er auðvelt að sjá fyrir sér hóp ísmunka sem hefur safnast saman í eyðimörkinni.

Myndin var tekin frá vegi sem liggur upp að ALMA. Fyrstu mælingar hófust ALMA þann 30. september 2011 en þegar yfir lýkur samanstendur hún af 66 loftnetum sem starfa saman sem ein heild.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


14. maí 2012

VLT gerður klár fyrir enn skarpari myndir

Hér sést fjórði sjónauki (UT4) Very Large Telescope (VLT) ESO þegar verkfræðingar ESO tóku hann í stutta yfirhalningu. Búið er að umvefja hann vinnupalli tímabundið svo hægt sé að koma nýju aðlögunarsjóntækjakerfi (Adaptive Optics Facility (AOF)) fyrir. Þar með verður UT4 breytt í sjónauka sem er fullbúinn aðlögunarsjóntækjum. AOF mun leiðrétta bjögun sem rekja má til lofthjúps jarðar og gera sjónaukanum kleift að taka miklu skarpari myndir en áður með HAWK-I og MUSE mælitækjunum.

Verið er að bæta ýmsum nýjum hlutum við UT4 sem tilheyra AOF. Þar á meðal er sveigjanlegur aukaspegill (deformable secondary mirror (DSM)): Þunn spegilsskel sem er 1,1 metri að þvermáli en aðeins 2 millímetrar að þykkt. Undir þessum næfurþunna spegli eru meira en þúsund hreyfiliðir sem breyta lögun spegilsins allt að þúsund sinnum á sekúndu og vega þannig upp á móti bjögun sem hlýst af ókyrrð í lofthjúpi jarðar. Sveigjanlegi aukaspegillinn er stærsti aðlögunarspegill sem smíðaður hefur verið til þessa (ann12015). Annar ómissandi hluti eru fjórir sérstakir sjónaukar, Laser Guide Star Facility (4LGSF) sem skjóta leysigeislum hátt upp í lofthjúpinn og búa þannig til gervistjörnu [1] (ann12012). Að lokum munu GRAAL og GALACSI einingarnar greina ljósið frá leysigeislastjörnunum.

Á myndinni sést verkfræðingur ESO stjórna vinnunni á UT4. Hlífin yfir safnspeglinum hefur verið fjarlægð tímabundið til að auðvelda aðgengi. Kaplar og leiðslur hafa líka verið fjarlægðar og nýjar settar upp í staðinn. Festingum hefur líka verið bætt við svo hægt sé að koma rafkerfi 4LGSF og leysigeislasjónaukunum sjálfum fyrir.

Skýringar

[1] Leysigeislarnir örva lag af natríumatómum í 90 km hæð í lofthjúpnum svo þau taka að glóa eins og gervistjörnur.


7. maí 2012

Þrír gerólíkir sjónaukar á La SIlla

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching bei München í Þýskalandi.

Myndirnar tvær, sem hér sjást, voru teknar frá hæsta tindi La Silla fjalls sem rís 2.400 metra yfir sjávarmál á jaðri Atacamaeyðimerkurinn í Chile. Á La Silla var fyrsta stjönustöð ESO komið upp. Gamla myndin var tekin árið 1975 og sýnir nokkra flutningabíla og annan búnað sem notaður var við smíði á hvolfþaki 3,6 metra sjónauka ESO, sem þá var í smíðum á bakvið ljósmyndarann. Vinstra megin sjást vatnstankar stöðvarinnar.

Á nýju myndinni hafa þrír nýir gerólíkir sjónaukar risið. Hægra megin við vatnstankinn er New Technology Telescope (NTT) ESO sem tekinn var´i notkun 23. mars 1989. Þessi 3,58 metra breiði sjónauki var sá fyrsti í heiminum sem útbúinn var tölvustýrðum safnspegli. Hægt var að breyta lögun hans á meðan mælingar stóðu yfir til að bæta myndgæðin. Önnur nýjung var átthyrnda byggingin yfir honum en á henni eru blöðkur sem sjá um loftræstingu og tryggja að loft blæs rólega yfir spegilinn. Þannig var hægt að draga úr ókyrrð og gera myndir skarpari.

Hægra megin við NTT er svissneski 1,2 metra Leonhard Euler sjónaukinn sem er undir öllu hefðbundnari byggingu. Hann lýtur stjórn Stjörnustöðvar Genfar í Genfarháskóla í Sviss og var tekinn í notkun 12. apríl 1998. Hann er einkum notaður í leit að fjarreikistjörnum á suðurhimni og fann sína fyrstu á braut um stjörnuna Gliese 86 (sjá es9855). Sjónaukinn fylgist líka með breytistjörnum, gammablossum og virkum vetrarbrautakjörnum.

Í forgrunni til hægri er bygging sem kölluð er sarcofago (steinkistan). Hún hýsir TAROT (Télescope à Action Rapide pour les Objets Transitoires, eða Rapid Action Telescope for Transient Objects) sem tekinn var í notkun 15. september 2006. Þessi hraðvirki en tiltölulega litli 25 cm fjarstýrði sjónauki bregst hratt við upplýsingum frá gervitunglum um gammablossa og miðar út staðsetningar þessara skammlífu en dramatísku sprenginga. Athuganir á blossunum gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka myndun svarthola og þróun stjarna í árdaga alheimsins. TAROT er starfræktur í samvinnu nokkur hópa undir forystu Michel Boer frá Observatoire de Haute Provence í Frakklandi.

ESO starfrækir NTT sjónaukann en Leonhard Euler og TAROT sjónaukarnir eru meðal nokkurra þjóðar- og sérverkefnissjónauka á La Silla. Í dag, meira en 40 árum eftir að La Silla stjörnustöðin var sett á laggirnar, er hún enn í fremstu röð í stjarnvísindarannsóknum.

Tenglar


30. apríl 2012

Sólin, tunglið og sjónaukar yfir eyðimörkinni

Ójarðnesk fegurð Atacamaeyðimerkurinn, heimili Very Large Telescope (VLT) ESO, teygir sig yfir sjóndeildarhringinn á þessari mynd. Á Cerro Paranal, hæsta tindinum á miðri mynd, eru VLT risasjónaukarnir fjórir, hver með 8,2 metra breiðan safnspegil. Á fjallstindinum vinstra megin við Cerro Paranal er kortlagningarsjónaukinn VISTA. Þessi 4,1 metra breiði sjónauki kortleggur stór svæði á himninum í leit að áhugaverðum fyrirbærum sem VLT og aðrir sjónaukar, bæði á jörðinni og í geimnum, kanna nánar.

Aðstæður til að skoða næturhimininn á þessu svæði eru meðal þess besta sem gerist í heiminum. Hægra megin á þessari 360 gráðu víðmynd gengur sólin til viðar yfir Kyrrahafinu og varpar löngum skuggum yfir fjallendið. Vinstra megin glitrar tunglið á himninum. Eftir skamma stund opna sjónaukarnir augun og rannsóknir hefjast.

Þessa fallegu mynd tók Serge Brunier, ljósmyndari ESO. Hún er ein fjölmargra ljósmynda sem til eru af sjónaukum ESO, fögru landslaginu í kring og himninum fyrir ofan þá.

Tenglar


23. apríl 2012

Tunglið og vetrarbrautarslæðan

Þessa fallegu víðmynd af ALMA, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array í Andesfjöllunum í Chile, tók Stéphane Guisard, ljósmyndari ESO. Hér sést Chajnantor sléttan sem er í yfir 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli og svo skraufþurr að hvergi í heiminum eru betri aðstæður fyrir þessa tegund stjörnusjónauka sem rannsakar millímetra og hálfsmillímetra geislun utan úr geimnum.

Á myndinni sjást fjölmörg stór loftnet. Fullbúin verður ALMA útbúin 54 svona loftnetum sem eru 12 metra breið. Yfir röðinni sést tignarleg, bogadregin vetrarbrautarslæðan. Þegar myndin var tekin var tunglið við miðju vetrarbrautarinnar á himninum og baðar loftnetin með birtu sinni. Vinstra megin á himninum má sjá Stóra og Litla Magellansskýið, stærstu dverg-fylgivetrarbrautir okkar, sem bjarta móðubletti. Nærri Litla Magellansskýinu glitrar björt loftsteinarák.

Hægra megin sjást nokkur minni 7 metra loftnet ALMA en tólf slík munu saman mynda Atacama Compact Array. Enn lengra til hægri sést bjarminn frá tæknibyggingu stjörnustöðvarinnar. Fyrir aftan hana rís tindur Cerro Chajnantor.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


16. apríl 2012

APEX stendur vörð á Chajnantor

Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukinn horfir til himins eina tunglbjarta nótt á Chajnantor, einum hæsta og þurrasta stjörnuathugunarstað í heiminum. Stjarnfræðilegar gersemar prýða himininn fyrir ofan sjónaukann og eru til vitnis um þær frábæru aðstæður til stjörnuathugana sem Atacama svæðið í Chile hefur upp á að bjóða.

Vinstra megin við sjónaukann skína stjörnurnar sem mynda hala Sporðdrekans. Oddinn mynda tvær stjörnur sem eru þétt saman. Þvert yfir himininn liggur svo ljósleit vetrarbrautaslæðan.

Milli Sporðdrekans og næsta stjörnumerkis til hægri, Bogmannsins, sem gnæfir yfir APEX, sést glitrandi stjörnuþyrping. Þetta er lausþyrpingin Messier 7 sem einnig er þekkt undir nafninu Ptólmæosarþyrpingin. Undir Messier 7 og örlítið til hægri er Fiðrildaþyrpingin, Messier 6. Lengra til hægri, rétt fyrir ofan brún APEX, er dauft ský sem lítur út eins og móðublettur. Það er Lónþokan fræga (sjá nærmynd í eso0936).

Loftnet APEX er 12 metra breitt svo hann er stærsti staki hálfsmillímetra sjónaukinn á suðurhveli jarðar. Líkt og nafnið gefur til kynna ryður hann brautina fyrir stærstu hálfsmillímetra stjörnustöð heims, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), sem verður fullbúin árið 2013 (eso1137). Þá deilir APEX hinni 5.000 metra háu Chajnantorsléttu í Chile með 66 loftnetum ALMA. APEX er frumgerð loftnetsins sem smíðað var fyrir ALMA. Hann á að finna fjölmörg fyrirbæri sem ALMA kemur til með að kanna nánar.

Þessa víðmynd tók einn af ljósmyndurum ESO, Babak Tafreshi, með aðdráttarlinsu. Babak er líka stofnandi The World at Night verkefnisins sem snýst um að skapa og sýna fallegar ljósmyndir og myndskeið af fallegum, söguleikum stöðum víða um heim undir stjörnubjörtum himni.

Frekari upplýsingar

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


9. apríl 2012

Umhverfis Chajnantor — 360 gráðu víðmynd

Þótt fjallið Cerro Chico rísi heila 5.300 metra yfir sjávarmál er það aðeins lítil hæð í tignarlegu landslagi Andesfjallanna. Nafnið merkir einmit „litlafjall“ á spænsku. Frá Cerro Chico er hins vegar glæsilegt útsýni yfir Chajnantor hásléttuna.

Á þessari 360 gráðu víðmynd er horft beint í norðaustur þar sem hæstu eldfjöllin — sem flest eru yfir 5.000 metra há — stinga upp kollinum. Á miðri myndinni er sjálft Cerro Chajnantor. Hægra megin á sléttunni glittir í Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukann og Cerro Chascon þar fyrir aftan. Enn lengra til hægri, í suðausturátt, sést Chajnantorsléttan næstum í heild sinni. Auk APEX sjónaukans má sjá þrjú loftnet Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) hægra megin. Fjölmörg önnur loftnet hafa bæst við frá því að myndin var tekin.

Vinstra megin við Cerro Chajnantor sést Cerro Toco. Enn lengra til vinstri, í norðvestri, rís eldkeilanLicancabur.

Á Chajnantorsléttunni, sem er í 5.000 metra hæð, er loftið svo þunnt og þurrt að erfitt er að ná andanum. En þökk sé þessum fjandsamlegu aðstæðum kemst millímetra og hálfsmillímetra geislun utan úr geimnum í gegnum þann lofthjúp sem eftir er og því mælanleg með næmum sjónaukum á borð við ALMA og APEX.

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


2. apríl 2012

La Silla, fyrsta stjörnustöð ESO — Fyrsta stjörnustöð ESO fyrr og nú

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching bei München í Þýskalandi.

Sögulega myndin var tekin í kringum 1970 frá gistiaðstöðunni á La Silla sem staðsett er lægra á fjallinu en sjónaukarnir. Á myndinni er horft í átt að hæsta tindi fjallsins sem er vinstra megin. Málmbyggingin á tindinum er ekki sjónauki heldur vatnstankur. Hvíta hvolfið á miðri mynd er 1 metra Schmidt sjónauki ESO sem tekinn var í notkun í febrúar 1972. Lengst til hægri, rétt fyrir ofan hrygginn, er 1 metra sjónauki ESO og vinstra megin við hann glittir í Grand Prisme Objectif sjónaukann.

Á nýju myndinni sést að gistiaðstaðan er enn til staðar og að fleiri byggingar hafa risið undanfarna áratugi. Augljósustu breytingarnar hafa orðið á tindi La Silla vinstra megin. Hæst rís 3,6 metra sjónauki ESO sem tekinn var í notkun í nóvember 1976 og er enn starfandi í dag. Á honum er HARPS litrófsritinn sem skilað hefur mestum árangri í leit að reikistjörnum utan sólkerfisins (sjá til dæmis eso1134 og eso1214). 3,6 metra sjónaukinn, sem var fyrirhugaður frá stofnun ESO, var stærsti sjónaukinn í La Silla stjörnustöðinni og kóróna hennar þar af leiðandi og þótti mikið verkfræðilegt afrek á sínum tíma. Fyrir framan hann er smærra hvolf sem geymir 1,4 metra Coudé Auxiliary sjónaukann sem bætti upp stóra nágrannann sinn.

Hægra megin við 3,6 metra sjónaukann er 3,58 metra New Technology Telescope (NTT), sem þekkist af hyrndu málmbyggingunni sem hýsir hann. NTT var tekinn í notkun í mars árið 1989 og var fyrsti sjónauki heims sem hafði tölvustýrðan safnspegil. Hann ruddi brautina fyrir Very Large Telescope en í honum voru margar tækninýjungar prófaðar sem síðar rötuðu í aðra sjónauka.

Af öðrum nýjungum á myndinni má nefna verkstæðið undir vatnstönkunum og Differential Image Motion Monitor (DIMM) sem mælir stjörnuskyggni í lofthjúpnum og stendur á stólpum milli verkstæðisins og 1 metra Schmidt sjónauka ESO.

Enn í dag eru mikilvægar uppgötvanir gerðar á La Silla. Þannig öfluðu bæði NTT og 3,6 metra sjónaukinn mikilvægra gagna sem leiddu til uppgötvunar á sívaxandi útþenslu alheimsins. Fyrir þá uppgötvun voru Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 2011 veitt.

Tenglar


26. mars 2012

Lofnet í miðri auðninni

Franski ljósmyndarinn Serge Brunier — einn af ljósmyndurum ESO — útbjó þessa 360 gráðu víðmynd af Chajnantorsléttunni í Atacamaeyðimörkinni þar sem Atacama Large Millimeter/submillimeter Telescope (ALMA) er í smíðum.

Á myndinni eru loftnet ALMA örlítið bjöguð en engu að síður fær maður tilfinningu fyrir hvernig það væri að standa í miðju þessarar nýju og mögnuðu stjörnustöðvar. Myndin sýnir líka vel hve einangruð Chajnantorsléttan er. Í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli er fátt um fína drætti í bakgrunninum að stöku fjallstindum og hæðum undanskildum.

Mjög krefjandi er að koma svo metnaðarfullum sjónauka upp í jafn afskekktu og harðneskjulegu umhverfi en hæðin yfir sjávarmáli hentar fullkomlega fyrir hálfsmillímetra stjörnufræði. Ástæðan er sú að vatnsgufa í lofthjúpi jarðar gleypir þessa tegund geislunar. Chajnantor er hins vegar svo hátt yfir sjávarmáli að loftið er mjög þurrt.

Fyrstu mælingar með ALMA hófust þann 30. september árið 2011 þegar röðin var aðeins að hluta tilbúin. Fullbúin verður stjörnustöðin sjón að sjá, mynduð af röð fimmtíu 12 metra loftneta og smærri röð fjögurra 12 metra og tólf 7 metra loftneta, þekkt sem Atacama Compact Array (ACA), sem setja mun mikinn svip á eyðilegt landslagið. Á meðan skrásetja ljósmyndarar framgang nýju stjörnustöðvarinnar með myndum á borð við þessa.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


19. mars 2012

VLT á ljónaveiðum

Þessa mynd tók Very Large Telescope af vetrarbraut í Leo 1 hópnum í stjörnumerkinu Ljóninu. Vetrarbrautin nefnist Messier 95 og stendur hún andspænis okkur þannig að við fáum góða yfirsýn yfir þyrilarma hennar. Armarnir mynda næstum fullkominn hring um miðju vetrarbrautarinnar þar til þeir breiða úr sér og minna þá um margt á ljónsmakka sem konungur dýranna yrði stoltur af.

Bjarti gulllitaði kjarninn er annað, jafnvel enn áhugaverðara einkenni Messier 95. Þar er næstum 2.000 ljósára breiður stjörnumyndunarhringur þar sem mestur hluti af myndun nýrra stjarna í vetrarbrautinni fer fram. Fyrirbæri af þessu tagi eru algengust í bjálkaþyrilþokum eins og Messier 95 og vetrarbrautinni okkar eru dæmi um.

Messier 95 er næst stærsta og næst bjartasta vetrarbrautin í Leo 1 hópnum. Aðeins Messier 96 er bjartari (sjá potw1143) svo hópurinn stundum nefndur M96 hópurinn eftir henni. Þrátt fyrir það er Messier 95 líka ósköp myndræn.

Nýtt! Fyrir tilviljun er líklegt að sprengistjarna hafi sést í í Messier 95 þann 17. mars 2012. Upplýsingar um hana eru hér. Fyrir aðra tilviljun er bæði sprengistjarnan og vetrarbrautin mjög nálægt reikistjörnunni Mars í Ljónsmerkinu.


Niðurstöður 21 til 40 af 43
Bookmark and Share

Sjá einnig