Mynd vikunnar 2012

12. mars 2012

Ryksnævi í Atacamaeyðimörkinni

Hvolf Very Large Telescope baða sig í sólinni enn einn góðan veðurdag á tindi Cerro Paranal í Chile. En eitt er óvenjulegt við þessa mynd: Fína snjólagið sem lagst hefur yfir eyðimerkurlandslagið. Mjöllin er sjaldséð sjón í Atacamaeyðimörkinni þar sem ofankoma verður nánast aldrei.

Nokkrir náttúrulegir þættir leiða til þeirra þurru aðstæðna sem ríkja í Atacama. Í fyrsta lagi vetir Andesfjallgarðurinn skjól fyrir úrkomu úr austri og strandlengja Chile í vestri. Í öðru lagi ber kaldi Humboldt hafstraumurinn í Kyrrahafinu með sér kalt loft sem liggur við ströndina og kemur í veg fyrir að regndropar myndist og í þriðja lagi er háþrýstisvæði viðvarandi í suð-austur Kyrrahafi sem hjálpar til við að halda loftslagi Atacama þurru. Fyrir vikið er eyðimörkin einn þurrasti staður jarðar!

Í Paranal er dæmigerð ársúrkoma aðeins örfáir millímetrar á ári. Rakastigið fer oft á tíðum undir 10% og hitastigið er alla jafna milli –8 og 25 gráður á Celsíus. Þurrkurinn í Atacamaeyðimörkinni er ein helsta ástæða þess að ESO kaus hana og Cerro Paranal undir Very Large Telescope. Þótt stöku sinnum snjói og trufli tímabundið aðstæðurnar á staðnum er hann að minnsta kosti óvenjuleg og falleg sjón.

Þessa mynd tók Stéphan Guisard, ljósmyndari ESO, þann 1. ágúst 2011.

Tenglar


5. mars 2012

Gluggi inn í fortíðina — Breytingar á La Silla í gegnum tíðina

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching bei München í Þýskalandi.

Hér gefur að líta tvær ljósmyndir af La Silla. Sú eldri var tekin í júní árið 1968 en sú nýrri fyrir skömmu en báðar frá vatnsgeymi stjörnustöðvarinnar þar sem gott útsýni er yfir svæðið. Þú getur skoðað breytingarnar á gagnvirkan hátt með því að smella á línuna og færa bendilinn eftir myndinni.

Á eldri myndinni eru bráðabirgðabústaðir í forgrunni. Sjónaukarnir þrír í bakgrunni eru, frá vinstri til hægri, Grand Prism Objectif (GPO sem tekinn var í notkun árið 1968), eins metra sjónauki ESO (tekinn í notkun árið 1966) og 1,5 metra sjónauki ESO (tekinn í notkun 1968). Þetta voru fyrstu þrír sjónaukarnir á La Silla. Hvíta hvolfþakið næst okkur er yfir eins metra Schmidt sjónauka ESO sem hóf störf árið 1971.

Þessi fjögur hvolf eru enn til staðar á La Silla þótt fyrstu þrír sjónaukarnir hafi verið teknir úr notkun. Eins metra Schmidt sjónauki ESO er enn starfræktur en er nú helgaður LaSilla-QUEST Variability verkefninu (sjá potw1201a).

Á nýju myndinni eru líka tveir nýrri sjónaukar. Silfurlitaða hvolfið hýsir 2,2 metra MPG/ESO sjónaukann sem hefur verið í notkun frá því árinu 1984 og er á ótímabundnu láni til ESO frá Max-Planck-Geselleschaft. Lengst til vinstri er danski 1,54 metra sjónaukinn sem hefur verið starfræktur síðan 1979 og er einn nokkurra þjóðarsjónauka á La Silla.

Tenglar


27. febrúar 2012

Að snúa sér í gang

Á þesari óvenjulegu ljósmynd sést einn af fjórum sjónaukum Very Large Telescope ESO á því augnabliki sem hann tók til starfa. Lýsingartími myndarinnar var 26 sekúndur en á þeim tíma náði Gerhard Hüdepohl, ljósmyndari ESO, að fanga augnablikið þegar hvolfið var opnað og og byrjar að snúast. Út um opið á hvolfþakinu sést hluti Atacamaeyðimerkurinnar undir dimmbláum himninum, skömmu eftir sólsetur.

Sjónaukinn sjálfur sést kyrrstæður á miðri mynd. Hann hefur 8,2 metra safnspegil sem hannaður er til að fanga ljós frá fjarlægustu fyrirbærum alheimsins. Hvolfið sjálft er líka verkfræðilegt afrek því það færist með mikilli nákvæmni og hefur vandlega stjórn á heitum loftstraumum sem berast inn og geta truflað mælingarnar.

Tenglar


« Fyrri 1 | 2 | 3  
Niðurstöður 41 til 43 af 43
Bookmark and Share

Sjá einnig