Mynd vikunnar 2013

1. júlí 2013

Evrópsk loftnet í starfsstöð ALMA

Á þessari mynd sjáum við loftnet sem verða hlutar af Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA). Loftnetin þrjú fremst á myndinni, sem og nokkur í bakgrunni, eru hluti af framlagi ESO til ALMA, samkvæmt samningi við evrópska AEM samstarfið [1]. Í heild útvegar ESO tuttugu og fimm af 12 metra loftnetunum. Norðurameríski þátttakandinn í ALMA leggur til önnur tuttugu fimm 12 metra loftnet en afgangurinn, tólf 7 metra og fjögur 12 metra loftnet sem mynda Atacama Compact Array, koma frá austur asíska þáttakandanum í ALMA.

Loftnetin sjást hér í þjónustumiðstöð ALMA sem er í 2.900 metra hæð í hlíðum Andesfjallanna í Chile. Loftnetin fremst á myndinni eru í uppsetningaraðstöðu AEM, þar sem þau eru sett saman og prófuð ítarlega áður þau eru afhent stjörnustöðinni. Loftnetin í bakgrunni hafa þegar verið afhent en annað hvort er verið að prófa þau frekari eða koma nemunum fyrir í þeim. Þegar loftnetin eru tilbúin eru þau flutt upp í starfsstöðina á Chajnantor hásléttunni í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar sameinast þau öðrum loftnetum og munu vinna saman að rannsóknum á sumum af dýpstu spurningum okkar um uppruna okkar í alheiminum. Þegar loftnetin verða öll tilbúin verður þjónustumiðstöðin áfram miðpunktur daglegrar starfsemi ALMA, bæði sem vinnustaður stjörnufræðinga og þeirra sem sjá um viðhald stjörnustöðvarinnar.

Við sjóndeildarhringinn er Andesfjallgarðurinn en eldkeilan Licancabur rís hæst. Licancabur er á landamærum Chile og Bólivíu og setur sterkan svip á landslag svæðisins.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Skýringar

[1] Í AEM samstarfinu eru Thales Alenia Space, European Industrial Engineering og MT-Mechatronics.

Tenglar


24. júní 2013

Tunglskin og sverðbjarmi yfir La Silla

Hátt fyrir ofan skýjaþykknið er La Silla, fyrsta stjörnustöð ESO í Chile. Frá þessu sjónarhorni minnir hún ef til vill á borg úr framtíðinni í einhverri vísindaskáldsögu. Stjörnufræðingurinn Alan Fitzsimmons tók myndina þegar hann stóð úti við 3,6 metra sjónauka ESO skömmu eftir sólsetur. Tunglið er fyrir utan myndina en lýsir upp stjörnustöðina og skýjabakkann fyrir neðan.

Daufi gulglóandi bjarminn sem rís upp úr skýjabakkanum, í roða sólsetursins, er sverðbjarminn. Sverðbjarmann má rekja til rykagna í sólkerfinu sem dreifir sólarljósinu. Bjarminn er aðeins sýnilegur skömmu eftir sólsetur eða skömmu fyrir sólarupprás á tilteknum árstímum við bestu aðstæður.

Á myndinni sjást nokkrir sjónaukar. Stóra átthyrnda byggingin við enda vegarins er New Technology Telescope (NTT). Hann ber nafn með rentu því þegar smíði hans lauk árið 1989 var tæknin á bak við hann byltingarkennd. Til dæmis voru virk sjóntæki notuð í fyrsta sinn sem og átthyrnda byggingin sem hýsir sjónaukann. Margar af tækninýjungum NTT lögðu grunninn að Very Large Telescope ESO.

Undir hvolfþakinu í forgrunni, hægra meginn, er svissneski 1,2 metra Leonhard Euler sjónaukinn, nefndur eftir svissneska stærðfræðingnum Leonhard Euler (1707-83).

Alan sendi þessa mynd í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til fyrir mynd vikunnar eða í myndasafn okkar.


17. júní 2013

Þrumur og eldingar

Þessi rafmagnaða mynd var tekin föstudaginn 7. júní 2013 þegar skrugguveður geysaði yfir Cerro Paranal. Stóru byggingarnar sem hýsa VLT sjónaukana fjóra, hver á stærð við átta hæða hús, eru dvergvaxnar undir öflugum storminum.

Vinstra megin á myndinni glittir í staka stjörnu sem virðist fylgjast með sýningunni — einn ljóspunktur á dimmum himninum. Þetta er Prókýon, bjart tvístirni í stjörnumerkinu Litlahundi.

Ský eru sjaldséð fyrirbæri yfir Paranal stjörnustöð ESO. Að meðaltali eru 330 dagar á ári heiðskírir á þessum stað. Þrumur og eldingar eru enn sjaldgæfari því stjörnustöðin er á einum þurrasta stað Jarðar: Atacamaeyðimörkinni í norðurhluta Chile í 2.600 metra hæð yfir sjávarmáli. Ef ský eru til staðar er stjörnustöðin oftast fyrir ofan þau.

Verkfræðingurinn Gerhard Hüdepohl, einn af ljósmyndurum ESO, hefur starfað sem verkfræðingur á Paranal í 16 ár og hafði aðeins séð eldingar þar einu sinni áður — hann greip því myndavélina og hljóp út til að festa þessa einstöku sýn á mynd.


10. júní 2013

Ris og fall sprengistjörnu

Á nýju og óvenjulegu myndskeiði sést ör birtuaukning og hægfara dofnun sprengistjörnu í vetrarbrautinni NGC 1365. Franski stjörnufræðingurinn Alain Klotz fann sprengistjörnuna, sem var nefnd SN 2012fr, þann 27. október 2012 á myndum sem teknar voru með fjarstýrða sjónaukanum TAROT í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Myndirnar voru settar saman í þetta einstaka myndskeið.

Sprengistjörnur marka ævilok ákveðinna tegunda stjarna. Þær skína óhemju skært í nokkrar vikur, skærar en vetrarbrautirnar sem þær tilheyra, áður en þær dofna hægt og rólega.

Alain Klotz fann sprengstjörnuna 2012fr [1] þann 27. október 2012. Hann vann að birtumælingum á daufum breytistjörnum með TAROT (Télescope á Action Rapide pour les Transitoires), fjarstýrðum sjónauka í La Silla stjörnustöð ESO, þegar hann tók eftir fyrirbæri sem ekki hafði sést á myndum sem teknar voru þremur dögum áður. Eftir að hafa beint öðrum sjónaukum og leitað ráða hjá öðrum stjörnufræðingum um allan heim, var loks staðfest að um sprengistjörnu af gerð Ia var að ræða.

Sumar stjörnur eiga sér sambýling, aðra stjörnu sem snúast báðar um sameiginlega massamiðju. Í sumum tilvikum getur önnur stjarnanna verið mjög gamall hvítur dvergur sem stelur efni frá sambýlingnum. Á einhverjum tímapunkti hefur hvíti dvergurinn sankað svo miklu efni að sér frá förunautnum, að hann verður óstöðugur og springur. Þá verður til sprengistjarna af gerð Ia.

Þetta er mjög mikilvæg tegund sprengistjarna því þær veita okkur áreiðanlegustu aðferðina til að mæla fjarlægðir til mjög fjarlægra vetrabrauta snemma í sögu alheims. Þegar vetrarbrautir utan grenndarhópsins eru rannsakaðar verða stjörnufræðingar að finna mjög björt fyrirbæri með þekkta eiginleika sem geta virkað eins og staðalkerti sem hjálpa þeim að kortleggja útþenslu alheimsins. Sprengistjörnur af gerð Ia henta einkar vel til þess, því birta þeirra toppar og dofnar á samskonar hátt í öllum tilvikum. Mælingar á fjarlægðum sprengistjarna af gerð Ia leiddi til uppgötvunar á auknum útþensluhraða alheimsins en fyrir hana voru veitt Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 2011.

Hýsilvetrarbraut þessarar sprengistjörnu er NGC 1365 (sjá einnig potw1037a), falleg bjálkaþyrilvetrarbraut í um 60 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Ofninum. Hún er um 200.000 ljósár að þvermáli og því áberandi innan um allar hinar vetrarbrautirnar í Ofnþyrpingunni. Í gegnum miðja vetrarbrautina liggur stærðarinnar bjálki og er kjarninn í miðju hans. Sprengistjarnan sést auðveldlega rétt fyrir ofan kjarnann á miðri myndinni.

Árið 2012 fundu stjörnufræðingar yfir 200 nýjar sprengistjörnur og var SN 2012fr ein sú bjartasta. Sprengistjarnan var mjög dauf þegar hún sást fyrst þann 27. október 2012 en náði hámarksbirtu 11. nóvember sama ár [2]. Hún sást þá leikandi sem dauf stjarna í gegnum meðalstóra áhugamannasjónauka. Myndskeiðið var sett saman úr nokkrum myndum sem teknar voru yfir þriggja mánaða tímabil frá uppgötvuninni fram í miðjan janúar 2013.

TAROT er 25 sentímetra fjarstýrður stjörnusjónauki sem hægt er að færa til mjög hratt og hefja mælingar á innan við sekúndu. Honum var komið fyrir í La Silla stjörnustöðinni árið 2006 í þeim tilgangi að greina glæður gammablossa. Myndirnar sem sýndu SN 2012fr voru teknar í gegnum bláa, græna og rauða síu.

Skýringar

[1] Sprengistjörnur eru skrásettar eftir árinu sem þeir fundust og með bókstöfum samkvæmt þeirri röð sem þær fundust í á því ári. Það er tilviljun að franskur hópur fann sprengistjörnuna og að hún hafi fengið bókstafina „fr“.

[2] Á þessum tíma var birtustigið 11,9. Hún var því 200 sinnum of dauf til að sjást með berum augum við kjöraðstæður. Ed sprengistjarnan við hámark birtu sinnar og sólin verið í sömu fjarlægð frá athuganda, hefði sprengistjarna verið um það bil 3000 milljón sinnum bjartari en sólin.

Tenglar

Tengiliðir

Alain Klotz
Institut de Recherche en Astrophysique et Planetologie
Toulouse, France
Tel: +33 05 61 55 66 66
Email: alain.klotz@irap.omp.eu

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: rhook@eso.org

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org


3. júní 2013

Þrjár plánetur stíga dans yfir La Silla

Á himinhvolfinu þessa dagana er sýning sem glatt hefur bæði stjörnufræðinga og stjörnuljósmyndara. Á himninum er nefnilega okstaða eða raðstaða — það er þegar þrír hnettir eða fleiri raða sér upp í röð á himnum. Himinhnettirnir eru allir á svipaðri breiddargráðu miðað við sólbauginn í því sem kallast líka þreföld samstaða. Vitaskuld er hér aðeins um að ræða uppröðun frá sjónarhóli okkar á Jörðinni en það dregur ekki neitt úr tignarleikanum. Í þessu tilviki eru hnettirnir þrjár reikistjörnur og það eina sem þarf til að njóta sýningarinnar er heiðskír himinn við sólsetur.

Því miður sést þessi samstaða ekki frá Íslandi en Yuri Beletsky, einn af ljósmyndurum ESO, var á góðum stað til að virða fyrir sér þetta fallega sjónarspil frá La Silla stjörnustöð ESO í norðurhluta Chile sunnudaginn 26. maí. Eftir sólsetur birtust þrjár af reikistjörnum sólkerfisins — Júpíter (efst), Venus (niðri til vinstri) og Merkúríus (niðri til hægri) — yfir hvolfþökum sjónaukanna og stigu himneskan dans.

Uppröðun á borð við þessa gerist á nokkurra ára fresti; seinast í maí 2011 en næst í október 2015. Þessi himneski þríhyrningur sást best síðustu viku maímánaðar en fólk á suðlægari slóðum en Íslandi getur haldið áfram að fylgjast með reikistjörnunum þremur reika um himininn næstu daga og vikur.

Tenglar


27. maí 2013

Gárur á stjörnuhimninum yfir Chile

Við fyrstu sýn gæti þessi dáleiðandi mynd minnt á gárur eftir stein sem hefur verið varpað ofan í vatn. Þetta mynstur er engu að síður komið til vegna sýndarhreyfingar stjarna á suðurhveli himins og brellum ljósmyndarans. Myndin var tekin á tindi Cerro Armazones, 3.060 metra háu fjalli í miðri Atacamaeyðimörkinni í Andesfjöllum Chile.

Löngu ljósrákirnar eru slóðir stjarna og hver slóð eftir eina stjörnu á næturhimninum. Þessar rákir, sem augað nemur ekki, koma fram ef ljósop myndavélar er haft opið í langan tíma. Lýsingartími niður í allt að 15 mínútur dugir til að kalla rákirnar fram. Í þessu tilviki skeytti ljósmyndarinn saman mörgum ljósmyndum sem teknar voru á styttri tíma og bjó þannig til þessa mynd. Gleiðlinsan sem notuð var fyrir þessa röð sýnir himinpólinn til hægri og miðbaug himins rétt fyrir ofan litla turninn.

Hinn mikli fjöldi ráka á myndinni sýnir líka vel þær frábæru aðstæður sem ríkja á Aramazones: Lofthjúpurinn er kristaltær og ljósmengun engin vegna þess hve fjallið er á afskekktum stað. Þetta er ein af ástæðum þess að fjallið var valið sem framtíðarheimili stærsta auga Jarðar; hins fyrirhugaða European Extremely Large Telescope (E-ELT).


20. maí 2013

Dáðst að Vetrarbrautinni

Það er erfitt fyrir jafnvel reyndustu stjörnufræðinga að standast freistinguna til að staldra við í miðjum klíðum og virða fyrir sér fegurð næturhiminsins á suðurhveli. Þetta er sjálfsmynd sem stjörnufræðingurinn Alan Fitzsimmons tók milli stjörnuathugana í La Silla stjörnustöð ESO.

Á myndinni stendur stjörnufræðingurinn grafkyrr og dökkur ásýndum á Jörðinni undir stjörnubjörtum himninum. Vetrarbrautarslæðan með allan sinn stjörnuskara og sín dökku rykský liggur þvert yfir myndina.

Stjörnustöðvar ESO eru staðsettar í Atacamaeyðimörkinni í norðurhluta Chile, mjög strjálbýlu svæði, sem býr við tæran og dimman himinn sem liggur til grundvallar stjarnvísindarannsókna í hæsta gæðaflokki.

La Silla er fyrsta stjörnustöð ESO, stofnuð árið 1969 og hýsir fjölda sjónauka með allt að 3,6 metra safnspegil. Í La Silla eru meira en 300 nætur heiðskírar á ári og staðurinn því kjörinn undir framúrskarandi sjónauka en hentar líka frábærlega til að gefa sér tíma og góna upp í stjörnuhiminninn.

Alan sendi þessa mynd í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til fyrir mynd vikunnar eða í myndasafn okkar.


13. maí 2013

Vetrarbrautin skín yfir snæviþöktu La Silla

Í útjaðri Atacamaeyðimerkurinn, fjarri ljósmenguðum borgum í norðurhluta Chile, er himinninn kolsvartur eftir sólsetur. Undir svo dimmum himni geta menn lagt stund á bestu stjörnuathuganir í heiminum í 2.400 metra hæð yfir sjávarmáli. Næturhiminninn yfir La Silla stjörnustöð ESO er ótrúlega tær. En jafnvel á þessum afskekkta, hálæga og þurra stað er veðrið sem fylgir vetrarmánuðunum ekki umflúið. Stundum leggst snjór yfir fjallstindinn og sjónaukana.

Á þessari mynd er heldur vetrarlegt á La Silla undir stjörnum Vetrarbrautarinnar, slæðunni sem liggur yfir myndina. Frá vinstri til hægri eru 3,6 metra sjónauki ESO, 3,58 metra New Technology Telescope (NTT), 1 metra Schmidt sjónauki ESO og 2,2 metra MPG/ESO sjónaukinn sem er með snjó á þakinu. Gegnt 3,6 metra sjónauka og ESO sést litla hvolfþakið yfir Coudé Auxiliary Telescope, sem ekki er lengur í notkun, og milli hans og NTT eru vatnstankar stjörnustöðvarinnar.

Þótt snjórinn á La Silla komi mörgum spánskt fyrir sjónir er bæði mjög hlýtt og mjög kalt yfir árið og stundum verður veðrið slæmt.

Myndina tók José Francisco Salgado, einn af ljósmyndurum ESO.


6. maí 2013

Lore á ferðinni

Á þessari mynd sést annar af tveimur flutningabílum ALMA, Lore, að flytja eitt af 7 metra loftnetum ALMA, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array. Lore og tvíburabíllinn Ottó, eru tveir skærgulir, 28 hjóla, sérsmíðaðir bílar sem flytja loftnet ALMA um Chajnantor hásléttuna í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þannig er hægt að breyta uppröðun sjónaukaraðarinnar til að gera sem bestar mælingar á tilteknu viðfangsefni. Þeir flytja líka loftnetin milli Chajnantor og sjórnstöðvarinnar, sem er neðar, til viðhalds.

ALMA samanstendur af meginröð fimmtíu 12 metra breiðra loftneta og aukaröð tólf 7 metra breiðra og fjögurra 12 metra breiðra loftneta sem kallast Atacama Compact Array (ACA). Lore er að flytja eitt af smærri 7 metra loftnetum ACA. Minnsta mögulega bil á milli 12 metra loftnetanna er 15 metrar; ella myndu þau rekast á. Þetta lágmarksbil á milli loftnetanna setur mörk á hámarksstærð þeirra fyrirbæra sem greina má á himninum. Það þýðir að meginröðin getur ekki séð útjaðra víðfeðmustu fyrirbæranna, eins og risavaxin sameindaský í Vetrarbrautinni okkar eða nálægar vetrarbrautir. ACA er sérstaklega hugsuð til að hjálpa ALMA að gera betri mælingar á þessum víðfeðmu fyrirbærum. Hægt er að koma þeim þéttar fyrir sem gerir þau betur í stakk búin fyrir mælingar á víðfeðmari fyrirbærum.

Í forgrunni myndarinnar sést þyrping hvítra ísstrýta. Ísstrýturnar eru áhugaverð náttúrufyrirbæri sem finnast á hálendum svæðum, venjulega í meira en 4.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Stýrturnar eru úr þunnum, hörðnuðum snjó eða ís og snúa blöðin í átt að sólinni. Þær eru stundum nokkrir sentímetrar á hæð upp í nokkra metra.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


29. apríl 2013

Vængir vísinda fljúga yfir ALMA

Þessi fallega mynd var tekin í desember 2012 og sýnir loftnet Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), stærsta stjörnusjónauka heims, á Chajnantor hásléttunni í Andesfjöllum Chile. Stóru loftnetin eru 12 metrar á breidd en þau smærri, sem eru fyrir miðri mynd, mynda ALMA Compact Array (ACA) sem stamanstendur af tólf 7 metra breiðum loftnetum. Að lokum mun röðin samanstanda af 66 loftnetum.

ESO hefur hafið samstarf við ORA Wings of Science verkefni, samtök sem ekki eru rekin í gróðaskyni og bjóða upp á stuðning við rannsóknir úr lofti á sama tíma og flogið er umhverfis Jörðina á einu ári. Áhöfn Wings for Science verkefnisins, Clémentine Bacri og Adrien Normier, fljúga sérstakri umhverfisvænni og fisléttri flugvél til að aðstoða vísindamenn, til dæmis við sýnasöfnun úr lofti, fornleifarannsóknir, athuganir á líffræðilegri fjölbreytni og útbúa landslagslíkön í þrívídd.

Þær stuttmyndir og glæsilegu ljósmyndir sem teknar eru í leiðangrinum eru notaðar í menntalegum tilgangi og til að kynna staðbundnar rannsóknir. Hringflugið hófst í júní 2012 og lýkur í júní 2013 með lendingu á flugsýningunni í París.

Skýringar

[1] ALMA er samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. Í Evrópu er verkefnið fjármagnað af ESO, í Norður Ameríku af National Science Foundation (NSF) í samstarfi við National Research Council of Canada (NRC) og National Science Council of Taiwan (NSC) og í Austur Asíu af National Insitutes of Natural Sciences (NINS) í Japan í samstarfi við Academia Sinica (AS) í Taívan. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO), sem lýtur stjórn Associated Universities, Inc. (AUI), fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

[2] Fisvélin er verðlaunuð vél frá NASA, Pipistrel Virus SW 80, sem eyðir aðeins 7 lítrum af eldsneyti á 100 kílómetra — minnan en flestar bifreiðar.

Tenglar


22. apríl 2013

Silfrað og blátt á Paranal

Nánast hvar sem er á jörðinni væri þetta fallegur, léttskýjaður dagur. En í Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni er hann óvenju skýjaður. Eyðimörkin sú er einn þurrasti staður jarðar og mjög sjaldan sjást ský á himni. Margir stjörnufræðingar og verkfræðingar sem starfa á staðnum, telja enda heiðskíran himininn eitt það besta við að vinna í Atacamaeyðimörkinni. Þessa glæsilegu 360 gráðu víðmynd sem Dirk Essl saman úr fimmtán ljósmyndum sem hann tók fyrir ESO. Á henni sést sjaldséður skýjaður dagur í Paranal. Fáeinir þunnir og reytingslegir klósigar svífa fyrir ofan byggingarnar sem hýsa Very Large Telescope. Skýin verða til hátt í lofthjúpnum og eru úr örlitlum ískristöllum.

Árleg úrkoma í Paranal stjörnustöðinni er innan við 10 millímetrar á ári, sem er ein ástæða þess að ESO kaus að byggja Very Large Telescope (VLT) á þessu 2.600 metra háa fjalli. Á myndinni sjást fjórir aðalsjónaukar VLT auk fjögurra smærri hjálparsjónauka undir hvolfþökum sínum, einn fremst og aðrir þrír lengra í burtu. Teinarnir á jörðinni eru til þess að hægt sé að færa hjálparsjónaukana til.

Dirk sendi þessa mynd í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til fyrir mynd vikunnar eða í myndasafn okkar.

Tenglar


15. apríl 2013

Undir álögum Magellansskýjanna

Christoph Malin, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa fallegu mynd af nokkrum loftnetum Atacama Large Millimeter/submillimeter Array sjónaukans undir glæsilegum stjörnubjörtum himni. Myndnin er úr einu af „time-lapse“ myndskeiðum Malins af ALMA, sem sjá má hér ann12099.

ALMA er staðsett á Chajnantor hásléttunni í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli og er öflugasti sjónauki heims til að rannsaka ljós með hálfsmillímetra og millímetra bylgjulengdir. Smíði ALMA lýkur árið 2013 en þá verða í heild 66 loftnet starfrækt á staðnum.

Magellansskýin tvö skína skært á himninum fyrir ofan loftnetin. Þessar nálægu dvergvetrarbrautir eru áberandi á suðurhveli himins og sjást leikandi með berum augum. Báðar vetrarbrautirnar eru á sveimi um Vetrarbrautina okkar en vísbendingar eru um að báðar hafi afmyndast vegna víxlverkunar við Vetrarbrautina.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


8. apríl 2013

Glitrandi stjörnuborði — Suðurvetrarbrautin yfir La Silla

Þessa víðmynd tók Alexandre Santerne af skífu Vetrarbrautarinnar á kaldri vetrarnóttu í glitrandi snjó í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Frá okkar sjónarhóli, innan í Vetrarbrautinni, birtist skífan okkur sem glitrandi stjörnuslæða þvert yfir himininn. Á myndinni er Vetrarbrautin okkar bogadregin vegna gleiðlinsunnar sem notuð var við myndatökuna.

Vinsta megin á myndinni stingur 3,6 metra sjónauki ESO upp kollinum yfir hæðina en á honum er HARPS (High Accuracy Radial velocity Planet Searcher) sem skilað hefur mestum árangri tækja á jörðinni í leit að fjarreikistjörnum. Lengst til hægri er svissneski 1,2 metra Leonhard Euler sjónaukinn sem stjörnustöðin í Genf smíðaði og starfrækir.

Ýmsar ástæður eru fyrir því, að La Silla er heppilegur staður til stjörnuathugana og almennt til rannsaka Vetrarbrautina okkar. Í fyrsta lagi er stjörnustöðin á suðurhveli jarðar sem gefur okkur betra útsýni á ríkulegri miðsvæði vetrarbrautarinnar og, í öðru lagi, er staðurinn langt frá ljósmengun og í 2.400 metra hæð yfir sjávarmáli, svo næturnar eru dimmar og lofthjúpurinn heiður.

Alexandre sendi þessa mynd í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til fyrir mynd vikunnar eða í myndasafn okkar. Frá því að Alexandre sendi sína mynd í hópinn, hefur hann einnig orðið að ljósmyndara ESO.

Tenglar


1. apríl 2013

Stjörnur á snúningi yfir Residencia á Cerro Paranal

Farid Char, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa fallegu mynd af stjörnum prýddum suðurhimninum yfir Residencia hótelinu í Paranal stjörnustöð ESO í Chile.

Farid tók 30 mínútna ljósmynd til þess að fanga hreyfingu stjarnanna sem er tilkomin vegna snúnings jarðar. Í miðjunni sést suðurpóll himins en vinstra megin, efst á myndinni, sjást þokublettir Litlu og Stóru Magellansskýjanna sem eru nágrannavetrarbrautir okkar.

Dökka glerhýsið undir stjörnuhimninum er þakið á Residencia byggingunni. Frá árinu 2002 hefur þessi einstaka bygging, sem er að hluta til neðanjarðar, verið griðarstaður þeirra vísindamanna og verkfræðinga sem starfa við stjörnustöðina. Á daginn hleypir 35 metra breiða hvolfið náttúrulegri birtu inn í bygginguna.

Þær frábæru aðstæður til stjörnuathugana sem ríkja í stjörnustöðinni — sem staðsett er í 2.600 metra hæð yfir sjávarmáli í þurra loftinu í Atacamaeyðimörkinni — eru dýru verði keyptar. Fólk upplyfir sterkt sólarljós á daginn, mjög lítið rakastig og mikla hæð sem gerir því erfitt fyrir að draga andann. Til að hjálpa fólki að slaka á og endurnæra sig eftir langar vaktir á fjallstindinum, er nokkurs konar heilsulind í Residencia með litlum garði, sundlaug sem eykur rakastig loftsins, setustofu, matsal og ýmsu öðru sem styttir fólki stundir. Byggingin rúmar meira en 100 manns.

Tenglar


25. mars 2013

Týnda vetrarbrautin

Á þessari mynd sést vetrarbrautin NGC 4535 í stjörnumerkinu Meyjunni fyrir framan fjölmargar enn fjarlægari og daufari vetrarbrautir. Við horfum nánast beint ofan á vetrarbrautina svo hún er næstum hringlaga. Í miðju hennar er áberandi bjálkamyndun með sveigðar rykslæður og arma sem skaga út frá sitt hvorum enda bjálkans. Blái litur þyrilarmanna bendir til þess að í þeim sé mikill fjöldi heitra ungra stjarna. Í miðjunni eru hins vegar eldri og kaldari stjörnur sem gefa bungu vetrarbrautarinnar gulleitt yfirbragð.

Myndin var tekin í sýnilegu ljósi með FORS1 mælitækinu á einum af hinum 8,2 metra breiðu Very Large Telescope ESO. Vetrarbrautin sést í gegnum litla áhugamannasjónauka en sá sem fyrstu barði hana augum var William Herschel árið 1785. Í gegnum litla sjónauka sést NGC 4535 sem draugaleg þokumóða og varð útlit hennar til þess að stjörnuáhugamaðurinn Leland S. Copeland nefndi hana „Týndu vetrarbrautina“ upp úr 1950.

NGC 4535 er ein stærsta vetrarbrautin í Meyjarþyrpingunni, stórri þyrpingu allt að 2000 vetrarbrauta í rúmlega 50 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þótt Meyjarþyrpingin sé ekki mikið stærri að þvermáli en Grenndarhópurinn — sá hópur sem Vetrarbrautin okkar tilheyrir — inniheldur hún næstum fimmtíu sinnum fleiri vetrarbrautir.


18. mars 2013

Ljóseindir fangaðar

Rannsóknarsjónaukar eru útbúnir fyrsta flokks myndavélum sem, með hjálp stórra safnspegla sjónaukanna, gera stjörnufræðingum kleift að fanga dauft ljósið sem djúpfyrirbæri gefa frá sér. Hins vegar er líka hægt að taka fallegar myndir án stórra sjónauka með öllu látlausari myndavélum.

Stjörnuljósmyndarar nota hefðbundnari myndavélar til að taka myndir af fyrirbærum á stjörnuhimninum, oftar en ekki á mun stærri skala en stórir sjónaukar í stjörnustöðvum gera. Stundum taka þeir mynd af landslagi í leiðinni og búa þannig til falleg póstkort af alheiminum eins og hann birtist okkur frá jörðinni.

Sem dæmi sýnir mynd þessarar viku hinn 3,58 metra breiða New Technology Telescope (NTT) í La Silla stjörnustöðinni undir stjörnubjörtum suðurhimninum. Á myndinni blasir Vetrarbrautin okkar við sem þokukennd slæða á himninum. Dökku svæðin í Vetrarbrautinni eru rykský sem byrgja sýn á stjörnur í bakgrunni. Hægra meginn við sjónaukann sést Stóra Magellansskýið sem móðublettur á himninum Þessi nálæga, óreglulega vetrarbraut er áberandi á suðurhimninum. Hún hringsólar um Vetrarbrautina okkar og ber þess merki að hafa afmyndast vegna víxlverkunar við hana.

Myndina tók Håkon Dahle sem er virtur stjörnufræðingur. Hann sendi myndina inn í Your ESO Pictures Flickr myndahópinn sem er yfirfarinn reglulega og bestu myndirnar valdar fyrir mynd vikunnar eða í myndasafn okkar.

Tenglar


11. mars 2013

Halastjörnur og stjörnuhröp yfir Paranal

Þessa fallegu mynd tók Gabriel Brammer, einn af ljósmyndurum ESO, en á henni sést sólsetur í Paranal stjörnustöðinni, prýtt tveimur halastjörnur sem skreytt hafa suðurhimininn að undanförnu. Við sjóndeildarhringinn hægra megin á myndinni er bjartari halastjarnan, halastjarnan C/2011 L4 (PANSTARRS), með áberandi hala sem rekja má til ryks sem endurvarpar sólarljósi. Á miðri mynd, rétt fyrir ofan Paranalfjall, sést grænleitur haddur — þokuhjúpurinn í kringum kjarnann — halastjörnunnar C/2012 F6 (Lemmon) og daufur halinn rétt fyrir aftan. Græna litinn má rekja til gastegunda í haddinum sem sólarljósið hefur jónað. Ætla mætti að þriðja halastjarnan sjáist á myndinni en bjarta fyrirbærið milli halastjarnanna Lemmon og PanSTARRS, er loftsteinn að brenna upp í lofthjúpnum á sama tíma og var tekin.


4. mars 2013

Snjórinn leggst yfir Atacama eyðimörkina

Atacamaeyðimörkin er einn þurrasti staður heims. Fyrir því liggja nokkrar ástæður. Andesfjallgarðurinn tignarlegi og strönd Chile koma í veg fyrir að ský berist frá austri til vesturs, auk þess sem kaldi Humboldt hafstraumurinn í Kyrrahafinu, sem myndar lag úr svölu lofti við ströndina, að regnský myndist. Þar fyrir utan myndast hæð í suðaustanverðu Kyrrahafi sem hjálpar líka til við að halda Atacamaeyðimörkinni þurri. Þessar þurru aðstæður réðu einna mestu um að ESO ákvað að koma Very Large Telescope (VLT) fyrir á Paranalfjalli í Atacamaeyðimörkinni. Í Paranal stjörnustöðinni á Cerro Paranal er úrkoma venjulega innan við tíu millímetrar á ári og raki oft undir 10%. Aðstæður til stjörnuathugana eru framúrskarandi og heiðskírt meira en 300 nætur á ári.

Örsjaldan kemur fyrir að veðrið trufli þær frábæru aðstæður til stjörnuathugana sem ríkja í Atacamaeyðimörkinni. Stöku sinnum á ári snjóar þó í eyðimörkinni eins og sést á þessari fallegu víðmynd af Cerro Paranal. Á tindinum vinstra megin er VLT en litlu neðar og örlítið til hægri er VISTA kortlagningarsjónaukinn. Himininn er heiðskír eins og venjulega en annað harla óvenjulegt: Þunnt lag af lausamjöll hefur umbreytt eyðimerkurlandslaginu og skapað þetta óvenjulega og fallega útsýni.

Myndina tók Stéphane Guisard, einn af ljósmyndurum ESO, þann 1. ágúst 2011.

Tenglar


25. febrúar 2013

Halastjarnan og leysigeislinn

Gerhard Hüdepohl, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa glæsilegu mynd af Very Large Telescope (VLT) ESO á meðan prófun fór fram á nýjum leysigeisla fyrir VLT þann 14. febrúar 2013. Leysigeislinn leikur lykilhlutverk í Laser Guide Star Facility (LGSF), sem gerir stjörnufræðingum kleift að leiðrétta stærstan hluta af ókyrrðinni í lofthjúpi jarðar svo hægt sé að ná miklu skarpari myndum. Engu að síður er ekki erfitt að ímynda sér geislann sem leysibyssu sem beint er að einhvers konar innrásarher utan úr geimnum. 

Fyrir ofan sjónaukann er glæsilegt útsýni til Vetrarbrautarinnar og eitt annað fyrirbæri sem gerir myndina enn sérstæðari. Hægra megin við miðja mynd, rétt fyrir neðan Litla Magellansskýið, innan um stjörnuskarann á Chilehimninum, er lítill grænn blettur með daufan hala sem liggur til vinstri. Þetta er halastjarnan Lemmon, sem fannst fyrir skömmu og varð bjartari en búist var við, á ferðalagi um himininn á suðurhveli jarðar.


18. febrúar 2013

Örþunnur spegill í prófun hjá ESO

Þessi örþunni og sveigjanlegi spegill hefur verið afhentur ESO í Garching í Þýskalandi þar sem hann er í prófun. Spegillinn er 1120 millímetrar á breidd en aðeins 2 millímetrar að þykkt, mun þynnri en flestir glerrúður. Spegillinn er þunnur því hann þarf að vera nógu sveigjanlegur til að segulkraftar geti breytt lögun hans. Í notkun verður yfirborði spegilsins breytt stöðugt til að leiðrétta bjögun sem hlýst af ókyrrð í lofthjúpi jarðar. Þannig er hægt að ná miklu skarpari myndum.

Nýi sveigjanlegi aukaspegillinn mun koma í stað þess sem nú er í einum af fjórum VLT sjónaukunum. Á aukaspegilkerfinu eru 1170 hreyfiliðir sem beita 1170 seglum, sem límdir eru á bakhlið spegilsins, krafti. Sérhannað rafkerfi stjórnar hegðun spegilsins örþunna. Hægt er að sveigja yfirborð hans allt að þúsund sinnum á sekúndu með hreyfiliðunum.

Aukaspeglakerfið var flutt í heild sinni til ESO frá ítölsku fyrirtækjunum Microgate og ADS í desember 2012 og markar þar með enda á átta ára þróunarvinnu. Þetta er stærsti aflaganlegi spegill sem til er fyrir stjörnuathuganir og sá nýjasti í röð margra. Sú mikla reynsla sem verktakarnir búa yfir kemur fram í gæðum og áreiðanleika kerfisins. Búist er við að uppsetning hans í VLT hefjist árið 2015.

Franska fyrirtækið REOSC smíðaði spegilinn þunna (ann12015). Hann er úr keramíki sem hefur verið slípað afar nákvæmlega. Framleiðsluferlið hófst á 70 millímetra þykkum Zerdour keramíkkubbi frá Schott Glass í Þýskalandi. Mestur hluti þessa efnis er slípaður burt. Spegillinn sjálfur er að lokum svo þunnur og því brothættur að styðja þarf vel við hann á öllum stundum.

Tenglar


Niðurstöður 21 til 40 af 46
Bookmark and Share

Sjá einnig