Mynd vikunnar 2013

11. febrúar 2013

Leysigeisli og ljóslistaverk

Eina heiðskíra nótt í Bæjaralandi kom starfsfólk ESO saman til að taka upp ESOcast þátt um nýja leysigeislastjörnukerfi ESO, sem sést hér í gangi í Allgäu stjörnustöðinni í Ottobeuren í Þýskalandi. Á löngum lýsingartíma myndarinnar kveikti starfsfólkið ljósið á símum sínum og skrifaði „ESO“ þar sem það stóð fyrir framan stjörnustöðina. Vinstra megin við lóðrétta leysigeislan sést Vetrarbrautin okkar. Rétt fyrir ofan sjóndeildarhringinn yfir stjörnustöðinni sjást slóðir flugvéla í fjarska. Leysigeislin er öflugur, 20 wött, og til að verja flugmenn og farþega skilgreinir þýska flugumferðarstjórnin flugbannssvæði í kringum stjörnustöðina á næturnar.

Leysigeislastjörnur eru gervistjörnur sem leysigeisli býr til í lofthjúpi jarðar. Leysigeislinn örvar natríumatóm í 90 kílómetra hæð svo þau glóa. Þannig verður til gervistjarna á himninum sem sjónaukar geta greint. Með því að fylgjast náið með gervistjörnunni geta aðlögunarsjóntæki í sjónaukanum leiðrétt bjagandi áhrif lofthjúpsins á mælingarnar.

Hönnun ESO byggir á litlum sjónauka sem skýtur öflugum leysigeisla upp í himininn og hægt er að festa á stærri sjónauka. ESO hefur einkaleyfi á þessari hönnun og verður hún notuð fyrir fjögur samskonar kerfi sem komið verður fyrir á Very Large Telescope. Sambærilegt kerfi mun einnig leika lykilhlutverk í European Extremely Large Telescope (E-ELT).

Tenglar


4. febrúar 2013

Sólsetur í Paranal stjörnustöðinni

Babak Tafreshi, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa fallegu mynd af Paranal stjörnustöð ESO við sólsetur. Himininn er fallega heiðríkur og gefur okkur hugmynd um þær framúrskarandi aðstæður sem þar ríkja; eina meginástæðu þess að ESO kaus að koma Very Large Telescope (VLT), flaggskipi sínu, fyrir á Paranal.

VLT — sem sést á Cerro Paranal, hæsta tindinum á myndinni sem rís 2.600 metra yfir sjávarmál — er öflugasta stjörnustöð heims fyrir sýnilegt ljós. VLT samanstendur af fjórum aðalsjónaukum, hver með 8,2 metra breiða safnspegla, og fjórum 1,8 metra hjálparsjónaukum. VLT sér sýnilegt og innrautt ljós en meðal þess sem sjónaukinn hefur áorkað er að taka fyrstu ljósmyndina af fjarreikistjörnu (sjá eso0515) og fylgjast með stjörnum á braut um svartholið í miðju Vetrarbrautarinnar (sjá eso0846 og eso1151).

Á Cerro Paranal er einnig VLT Survey Telescope (VST). Sjá má glitta í bygginguna sem hýsir hann á fjallstindinum, rétt fyrir framan eina af stærri byggingum VLT sjónaukanna. VST er nýjasta viðbótin í Paranal stjörnustöðina en fyrstu myndir hans voru birtar árið 2011 (sjá eso1119). Hann státar af 2,6 metra breiðum safnspegli sem gerir hann að stærsta kortlagningarsjónauka heims fyrir sýnilegt ljós.

VISTA, Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy, er annar kortlagningarsjónauki í Paranal stjörnustöðinni og sést hann rétt fyrir neðan VLT sjónaukana. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki heims með 4,1 metra breiðan safnspegil og nemur nær-innrautt ljós. Sjónaukinn var tekinn í notkun árið 2009 (sjá eso0949).

Tenglar


28. janúar 2013

Þyrping í þungavigt

Á þessari djúpmynd sést það sem kallast ofurþyrping vetrarbrauta — risahópur vetrarbrautaþyrpinga sem sjálfar þyrpast saman. Þessi tiltekna þyrping, sem kallast Abell 901/902, samanstendur af þremur meginþyrpingum og fjölda vetrarbrautaþráða sem er dæmigert þegar um ofurþyrpingar er að ræða. Ein þyrping, Abell 901a, sést fyrir ofan og hægra megin við áberand rauða stjörnu í forgrunni, nálægt miðri mynd. Önnur, Abell 901b, er lengra til hægri við Abell 901a en litlu neðar. Beint fyrir neðan rauðu stjörnuna, í átt að neðsta hluta myndarinnar, sést svo Abell 902.

Ofurþyrpingin Abell 901/902 er í rétt rúmlega tveggja milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni og geymir mkinn fjölda vetrarbrauta á svæði sem er um 16 milljónir ljósára á breidd. Til samanburðar er Grenndarhópurinn — sem inniheldur Vetrarbrautina okkar og meira en 50 aðrar vetrarbrautir — um tíu milljónir ljósára að þvermáli.

Þessi mynd var tekin með Wide Field Imager (WFI) myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Árið 2008 notuðu stjörnufræðingar gögn frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA til að kortleggja nákvæmlega dreifingu hulduefnis í ofurþyrpingunni og sýndu fram á að þyrpingin og stakar vetrarbrautir í henni eru innan í miklum hulduefniskekkjum. Til þess verks skoðuðu stjörnufræðingarnir hvernig ljós frá 60.000 fjarlægum vetrarbrautum á bak við ofurþyrpinguna, bjagaðist vegna þyngdaráhrifa frá hulduefninu í henni sem sagði síðan til um dreifingu þess. Talið er að massi hulduefniskekkjanna í Abell 901/902 sé um það bil tiu trilljón sinnum meiri en massi sólar.

Myndin sem hér sést er hluti af COMBO-17 kortlagningunni sem gerð er í gegnum 17 mismunandi ljóssíur með WFI myndavélinni. Hingað til hafa meira en 25.000 vetrarbrautir fundist í COMBO-17 verkefninu.

Tenglar


21. janúar 2013

APEX undir mánaskini

Önnur stjörnubjört nótt á Chajnantor hásléttunni í Andesfjöllum Chile. Vaxandi tungl skín skært á þessari mynd og yfirgnæfir önnur fyrirbæri á himinhvolfinu. Tunglskinið skiptir þó útvarpssjónauka eins og APEX (Atacama Pathfinder Experiment), sem hér sést, engu máli. Sólin sjálf er meira að segja ekki of björt á útvarpssviðinu, auk þess sem himininn er ekki sérlega bjartur á þessum bylgjulengdum svo hægt er að nota þennan sjónauka að degi til, svo framarlega að honum sé ekki beint að sólinni.

APEX er tólf metra breiður sjónauki sem nemur ljós með millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdir. Stjörnufræðingar sem nota APEX til sinna rannsókna, geta séð fyrirbæri sem eru ósýnileg á styttri bylgjulengdum innrauðs eða sýnilegs ljóss. Til dæmis getur APEX horft í gegnum þykk miðgeimsský úr gasi og ryki og greint hulin stjörnumyndunarsvæði, sem skína skært á þessum bylgjulengdum, en eru dimm í sýnilegu og innrauðu ljósi. Sumar af elstu og fjarlægustu vetrarbrautum alheims eru einnig kjörin viðfangsefni fyrir APEX. Vegna útþenslu alheimsins yfir marga milljarða ára hefur ljós þessara vetrarbrauta færst yfir á millímetra og hálfsmillímetra sviðið sem APEX nemur.

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans.

Babak Tafreshi, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa glæsilegu mynd. Hún er hluti af stórri víðmynd sem einnig er aðgengileg í annarri útfærslu.

Tenglar


14. janúar 2013

Fjöllin gera ALMA dvergvaxna

Við fyrstu sýn sýnir þessi víðmynd snæviþakið landslag og fjallstinda í kringum Chajnantor hásléttuna í Chile. Hæst rísa, frá hægri til vinstri, Cerro Chajnantor, Cerro Toco, Juriques og eldkeilan Licancabur (sjá potw1240) — ansi tignarlega! Stjörnurnar á myndinni eru hins vegar örsmáar og vart sjáanlegar fyrir miðju — rétt greinanlegar ef vel er að gáð.

Þessar byggingar, sem eru dvergvaxnar miðað við fjöllin í kring, eru loftnetin sem mynda Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), stóran útvarpssjónauka. Þótt þau virðist lítil á myndinni, samanstendur röðin í raun af stóru safni 12 og 7 metra loftneta sem, þegar smíði sjónaukans lýkur, verða í heild 66 talsins og dreifast yfir allt að 16 km breitt svæði á sléttunni. Búist er við að smíði ALMA ljúki árið 2013 en fyrstu mælingar eru hafnar með sjónaukanum og hefur hann þegar skilað framúrskarandi niðurstöðum (sjá t.d. eso1239). Frá því að þessi mynd var tekin hafa fjölmörg loftnet bæst við röðina á sléttunni.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Tenglar


7. janúar 2013

Stjörnur á snúningi yfir Yepun

Á þessari mynd sést einn af sjónaukum Very Large Telescope (VLT) ESO undir björtum slóðum stjarna á snúningi um suðurpól himins, punkti sem er í stjörnumerkinu Áttungnum. Slóðirnar eru ljósbogar sem stjörnurnar teikna á himininn þegar jörðin snýst hægt og rólega. Til að fanga þessar stjörnuslóðir á mynd voru teknar margar myndir á tíma og þeim síðan skeytt saman í þessa lokaútgáfu.

Sjónaukinn í forgrunni er lýstur upp af tunglskininu en hann er einn af risasjónaukunum fjórum sem mynda VLT í Paranal í Chile. Í kjölfar vígslu Paranal stjörnustöðvarinnar árið 1999 var hverjum sjónauka gefið nafn úr tungumáli Mapuche ættflokksins. Nöfnin — Antu, Keuyen, Melipal og Yepun — eru dregin af fjórum áberandi og fallegum fyrirbærum á himninum: Sólinni, tunglinu, stjörnumerkinu Suðurkrossinum og Venusi. Á myndinni sést Yepun sem einnig kallast sjónauki fjögur.

Myndina tók Farid Char, einn af ljósmyndurum ESO. Char starfar við La Silla-Paranal stjörnustöð ESO og er meðlimur í hópnum sem gerir athuganir á fyrirhugaðri staðsetningu European Extremely Large Telescope (E-ELT), nýjum sjónauka sem verður stærsti sjónauki heims fyrir sýnilegt og innrautt ljós þegar smíði hans lýkur upp úr 2020.

Tenglar


« Fyrri 1 | 2 | 3  
Niðurstöður 41 til 46 af 46
Bookmark and Share

Sjá einnig