Mynd vikunnar 2014

22. september 2014

Stjörnuslóðir yfir SEST

Hér sést hinn fimmtán metra breiði Swedish-ESO Submillimeter Telescope (SEST) sem smíðaður var árið 1987 og starfræktur í La Silla stjörnustöð ESO í Chile til ársins 2003.

Þegar sjónaukinn var smíðaður var SEST eini útvarpssjónaukinn á suðurhveli Jarðar sem hannaður var til að mæla hálfsmillímetra bylgjulengdir utan úr geimnum. Sjónaukinn ruddi brautina fyrir sjónauka á borð við Atacama Pathfinder Experiment sjónaukanum (APEX) og Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), sem báðir eru á Chajnantor.

Á myndinni sjáum við stjörnuslóðir á næturhimninum sem komnar eru til vegna langs lýsingartíma myndavélarinnar. Ljós stjarnanna endurspeglast af loftnetinu úr öllum áttum að myndavélinni. Í bakgrunni sést 3,6 metra sjónauki ESO.

José Joaquín Pérez, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa mynd af SEST sjónaukanum í La Silla.

Tenglar


15. september 2014

Morgunbirta yfir La Silla

Hér sést La Silla stjörnustöð ESO undir vetrarbrautarslæðunni. La Silla var fyrsta stjörnustöð ESO í Chile, stofnuð upp úr 1960.

Vinstra megin á hæðinni fyrir ofan miðja mynd sést ferningslaga byggingin sem hýsir New Technology Telescope (NTT) en hægra megin er hvolfið yfir 3,6 metra sjónauka ESO. Hinn 3,58 metra NTT sjónauki var tekinn í notkun árið 1989 og var sá fyrsti í heiminum sem var útbúinn tölvustýrðum safnspegil. Safnspegillinn er sveigjanlegur og lögun hans er breytt á meðan athuganir standa yfir til að tryggja bestu mögulegu myndgæði. Þessi tækni, kölluð virk sjóntæki, er nú notuð í öllum stærstu sjónaukum heims — þar á meðal Very Large Telescope í Cerro Paranal og í framtíðinni í European Extremely Large Telescope.

Á La Silla eru nokkrir aðrir sjónaukar, þar á meaðl Swedich-ESO Submillimeter Telescope (SEST) og fjarstýrði sjónaukinn TAROT sem notaður er ti lað fylgjast með skyndilegum atburðum eins og gammablossum.

José Joaquín Pérez, einn af ljósmyndurum ESO, tók myndina. Þegar José er ekki að taka glæsilegar myndir af næturhimninum vinnur hann sem landbúnaðarverkfræðingur og ver tíma sínum í uppskeruvarðveislu um miðbik Chile.


8. september 2014

VLT fylgist með halastjörnu Rosetta

Bjarti þokubletturinn á miðri mynd er halastjarnan 67P/Churyumov-Gersimenko eða 67P/C-G. Þetta er ekki hvaða halastjarna sem er, heldur viðfangsefni Rosetta geimfars ESO sem nú er djúpt innan í hjúpi halastjörnunnar í innan við 100 kílómetra frá kjarnanum [1]. Rosetta er nú svo nálægt halastjörnunni að eina leiðin til að sjá hana alla er að fylgjast með henni frá Jörðinni.

Myndin var tekin 11. ágúst með einum af 8 metra sjónaukum Very Large Telescope (VLT) ESO í Chile. Myndin er sett saman úr 40 stökum myndum sem hver var lýst í um 50 sekúndur. Búið er að fjarlægja stjörnur í bakgrunni til að halastjarnan verði sem skýrust. Rosetta geimfarið er í einum díl í miðjunni en alltof lítið til að koma fram á myndinni.

VLT samanstendur af fjórum stökum sjónaukum sem geta unnið saman eða hver í sínu lagi. Myndin sem hér sést var tekin með FORS2 (FOcal Reducer and low dispersion Spectrograph 2) mælitækinu á sjónauka 1, sem einnig er kallaður Antu sem þýðir sól í tungumáli Mapuche.

Hægt er að beita FORS2 á ýmsan máta en í Rosetta herferðinni nota stjörnufræðingar tækið til að ljósmynda halastjörnuna, mæla birtu hennar, stærð og lögun og greina samsetningu hjúpsins.

Þótt 67P/C-G sé dauf á myndinni er virknin greinilega þónokkur því rykhjúpur hennar nær um 19.000 kílómetra út frá kjarnanum. Hjúpurinn er ósamhverfur því sólin — sem er í átt að neðra hægra horninu — feykir rykinu burt svo hali myndast.

Þessi mynd VLT er hluti af samstarfi ESA og ESO um vöktun á 67P/C-G frá Jörðinni á meðan Rosetta rannsakar halastjörnuna. VLT tekur mynd af halastjörnunnu aðra hverja nótt að meðaltali. Myndirnar eru síðan notaðar til að fylgjast með virkni halastjörnunnar sem kemur fram sem birtubreytingar á henni. Niðurstöðurnar eru sendar til verkefnisstjórnar Rosetta og hjálpa þær mönnum að fljúga geimfarinu í kringum hana.

Skýringar

[1] Rosetta komst í innan við 100 km hæð yfir 67P/C-G hinn 6. ágúst 2014 og hefur verið að fikra sig nær halastjörnunni síðan.


25. ágúst 2014

Stjörnuregn í eyðimörkinni

Í Atacamaeyðimörkinni í Chile rignir sárasjaldan. Það er aðeins á nokkurra ára fresti sem rignir eða snjóar svo einhverju nemi í La Silla stjörnustöð ESO og þá sem fylgifiskur óvenju hlýs veðurfars á borð við El Niño. Eyðimörkin er einn þurrasti staður Jarðar og því framúrskarandi góður til að rannsaka næturhiminninn.

Þótt úrkoma sé sjaldgæf á þessum slóðum geta sumar ljósmyndið látið stjörnurnar líta út eins og regndropa sem falla á fjöllin, eins og hér sést á mynd sem Diana Jucher, doktorsnemi við Niels Bohr stofnunina í Danmörku, tók hinn 21. maí 2013.

Í maí 2013 dvaldi Diana í tvær vikur í La Silla við rannsóknir á fjarreikistjörnum í átt að miðju Vetrarbrautarinnar. Á meðan dvöl hennar stóð tók hún nokkrar myndir af stjörnuslóðum frá danska 1,54 metra sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO. Ljósmyndir af stjörnuslóðum eins og þessi eru teknar með því að hafa ljósop myndavélarinnar opið í langan tíma til þess að fanga sýndarhreyfingu stjarnanna þegar Jörðin snýst.

Snjór þekur fjarlæga fjallstinda og ský sjást fyrir neðan La Silla við sjóndeildarhringinn vinstra megin. Dökk- og rauðleita svæðið hægra megin er opin koparnáma. Kopar er ein helsta auðlind Chile — landið er langstærsti koparframleiðandi heims.

Tenglar:


18. ágúst 2014

Ský yfir La Silla

Á þessari mynd, sem stjörnufræðingurinn Alan Fitzsimmons tók hinn 11. júní 2012, sjást sjaldséð ský á himninum yfir La Silla stjörnustöð ESO í Chile.

Þetta þurra, eyðilega og stundum vindasama umhverfi virðist ef til vill ekki heppilegasti staðurinn fyrir mannabyggð en það er kjörið fyrir stjörnusjónauka. Þurra loftið hjálpar stjörnufræðingum að losna við algeng vandamál sem trufla mælingar, til dæmis ókyrrð í lofthjúpnum, ljósmengun, raka og (oftast) ský, sem gerir þeim kleift að fá skýrari mynd af alheiminum fyrir ofan. Þennan sjaldséða skýjadag hafði meira að segja létt til þegar kvöldaði og athuganir hófust eins og venjulega.

Sjónaukarnir á La Silla — þeirra á meðal tveir stórir sjónaukar ESO: 3,6 metra ESO sjónaukinn og New Technology Telescope (NTT) — eru búnir fyrsta flokks mælitækjum sem gera þeim kleift að fullnýta þær einstöku aðstæður sem ríkja í norðurhluta Chile.

Á 3,6 metra ESO sjónaukanum er nú High Accuracy Radial velocity Planet Searcher (HARPS), mælitæki sem helgað er rannsóknum á fjarreikistjörnum. NTT var fyrsti sjónaukinn sem búinn var bæði virkum sjóntækjum og tölvustýrðum safnspegli.

La Silla var fyrsti staðurinn sem ESO notaði undir stjörnustöðvar sínar í Chile á sjötta áratug tuttugustu aldar og hefur verið unnið þar æ síðan.


11. ágúst 2014

Vegur lagður upp á Armazones

Í dag rekur ESO þrjár stjörnustöðvar í Atacamaeyðimörkinni í Chile: La Silla, Paranal og Chajnantor. Í bakgrunni þessarar myndar sést Paranal, flaggskip ESO og heimili Very Large Telescope (VLT).

Á næstu árum mun fjórða stjörnustöðin bætast við: Cerro Armazones, framtíðarstaður European Extremely Large Telescope (E-ELT). E-ELT verður stærsta auga jarðar þegar smíði hans lýkur í kringum 2024 með 39 metra breiðan spegil.

Nú um stundir er Cerro Armazones aðeins tengt við Paranal með malarvegi — en eins og sést á myndinni er lagning nýs vegar hafin. Chileska fyrirtækið ICAFAL Ingeniería y Construcción S.A. (ICAFAL) hóf vegavinnuna í mars (ann14019) og er búist við að það taki um 16 mánuði að ljúka við lagningu 7 metra breiðs malbikaðs vegar. Fyrir utan að leggja veginn í gegnum landslagið í Chile mun ICAFAL jafna toppinn á Cerro Armazones svo hægt sé að útbúa nothæfan pall undir E-ELT.


4. ágúst 2014

Starað út í geiminn

Í 5000 metra hæð yfir sjávarmáli, hátt á Chajnantor hásléttunni í Chile, stara loftnet ALMA stjörnustöðvarinnar út í alheiminn í leit að vísbendingum um uppruna okkar í alheiminum. Sléttan er einn hæsti stjörnuskoðunarstaður á Jörðinni.

Innan um stjörnuskarann á myndinni sjást Litla og Stóra Magellansskýið hægra megin sem bjartir ljósblettir á himninum. Bæði skýin eru vetrarbrautir — tveir af næstu nágrönnum okkar Vetrarbrautar.

Meginmarkmið ALMA er að rannsaka köldustu og elstu fyrirbærin í alheiminum — hinn kalda alheim sem svo er kallaður. Sjónaukaröðin mælir geislun með millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdir, milli innrauðs ljóss og útvarpsbylgna á rafsegulrófinu. Röðin samanstendur af 66 loftnetum sem hægt er að færa til til þess að mæta þörfum og kröfum vísindamanna og er því stærsta stjarnvísindaverkefni heims.

Þessa glæsilegu mynd af landslaginu í kringum ALMA tók Stéphane Guisard, einn af ljósmyndurum ESO, en hann vinnur sem sjóntækjafræðingur við Very Large Telescope Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli í Atacamaeyðimörkinni í Chile.

Tenglar


28. júlí 2014

Framandi Atacama

Skammt frá ALMA stjörnustöð ESO feykir rúta upp ryki þegar hún ekur yfir eyðimörkina í Chile. Í rútunni eru starfsmenn á leið í níu daga vakt í stjórnstöð ALMA. Í bakgrunni sjáum við tvö eldfjöll með snæviþakta tinda sem stinga sér upp í gegnum skýin.

Eldfjöllin tvö eru á landamærum Bólivíu og Chile. Þrátt fyrir að örstutt sé á milli þeirra urðu fjöllin tvö til á mjög mismunandi tímum — Licancabur, eldfjallið vinstra megin, er mun yngra en minni nágranni þess Juriques.

Licancabur er þekkt fyrir keilulögun sína og fyrir að geyma hæsta stöðuvatn í heimi. Stöðuvatnið er í 5916 metra hæð yfir sjávarmáli í toppgíg Licancabur en í því finnst fjölbreytt flóra og fána sem menn hafa rannsakað til að sjá hvernig lífi reiðir af í svo harðneskjulegu umhverfi. Sagt er að Licancabur svæðið sé ein besta hliðstæða Mars á Jörðinni og með því að rannsaka lífið sem þar þrífst, gætum við áttað okkur betur á því hvernig líf gæti þrifist á öðrum reikistjörnum.

Armin Silber, starfsmaður ESO, tók myndina.


21. júlí 2014

Risar að störfum

Þessi víðmynd af flaggskipi ESO í norðurhluta Chile tók Gabriel Brammer, einn af ljósmyndurum ESO. Very Large Telescope (VLT) sést hér hefja störf í Paranal stjörnustöð ESO en í bakgrunni er Vetrarbrautin okkar.

Til að útbúa þessa mynd varð Brammer að skeyta saman nokkrum myndum sem teknar voru á tíma til fanga daufa birtu Vetrarbrautarinnar fyrir ofan byggingarnar sem hýsa VLT sjónaukana. Hver bygging er 25 metra há en sjónaukarnir eru nefndir eftir áberandi fyrirbærum næturhimninum á tungumáli Mapuch ættbálksins: Sólin, tunglið, stjörnumerkið Suðurkrossinn og Venus — Antu, Keuyen, Melipal og Yepun. Til vinstri glittir í smærri hjálparsjónauka með hvítu hvolfþaki og Stóra og Litla Magellansskýið þar fyrir ofan.

Þegar myndunum er skeytt saman sést hvernig sjónaukabyggingarnar hafa snúist þegar þeir fylgjast með fyrirbærum sem verið er að rannsaka á himninum. Eins og sjá má hefur líka liðið töluverður tími milli mynda þar sem kvöldbirtan er að hverfa fyrir næturhimninum vinstra megin.

Til að útbúa þessa mynd setti Brammer upp myndavélina sína á sama stað í tvígang, við sólsetur og aftur síðar um nóttain. Hann setti síðan saman tvær heilar víðmyndir teknar á mismunandi tímum og útbjó þessa úr þeim báðum.


14. júlí 2014

Horft djúpt í dimman himinn

Getur þú talið hve ljósdeplarnir á myndinni eru margir? Þetta er djúpmynd sem tekin var með Wide Field Imager (WFI), myndavél á sjónauka af fremur hógværri stærð, 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile.

Myndin er af einu svæði af fimm í COMBO-17 kortlagningarverkefninu (Classifying Objects by Medium-Band Observation með 17 síum), djúpri leit að stjarnfræðilegum fyrirbærum á tiltölulega mjóu svæði á suðurhveli himins. Teknar voru myndir af öllum svæðunum fimm í gegnum sautján mismunandi litsíum. Hver hinna fimm COMBO-17 mynda nær yfir svæði sem er á stærð við fullt tungl.

Kortlagningin hefur þegar leitt í ljós mörg þúsund áður óþekkt fyrirbæri — yfir 25 000 vetrarbrautir, tug þúsundir fjarlægra stjarna og dulstirna sem áður voru hulin sjónum okkar og sýna hve margt við eigum enn eftir ólært um alheiminn.

Ljós frá fjarlægustu deplunum á myndinni, sem eru vetrarbrautir, hefur verið að ferðast til okkar í níu eða tíu milljarða ára. Með því að rannsaka vetrarbrautir á mismunandi aldri geta stjörnufræðingar dregið upp þróunarsögu þeirra, allt frá þroskuðum vetrarbrautum í nágrenni okkar, svipuðum Vetrarbrautinni okkar, til ungra vetrarbrauta í hinum fjarlæga alheimi sem sýna hvernig alheimurinn var í æsku.

Tenglar:


7. júlí 2014

Loftmynd af ESO

Á þessari loftmynd sjást höfuðstöðvar Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli (ESO) í Garching bei München í Þýskalandi. Þótt ESO starfræki sjónauka víða í Chile á suðurhveli jarðar, hýsir Garching skrifstofu-, vísinda- og tæknibyggingar ESO, þar sem þróunarvinna fer fram svo stjörnstöðvarnar njóti háþróuðustu tækni sem völ er á.

Sveigðu byggingarnar tvær á miðri mynd eru aðalbyggingar höfuðstöðva ESO. Efri byggingin hægra megin var um árabil aðalbygging ESO, en nýlega var hún tengd saman við viðbygginguna með rauða þakinu sem tekin var í notkun í desember 2013. Svarta kringlótta byggingin er tæknibyggingin, þar sem þróun á nýjum mælitækjum fer fram. Báðar aðalbyggingarnar eru tengdar saman með svörtu þríarma byggingunni á miðri mynd.

Nýja viðbyggingin, hönnuð af arkitektunum Auer+Weber, hýsir nú vaxandi fjölda starfsfólks ESO og hönnunar- og þróunarstarfið fyrir European Extremely Large Telescope (E-ELT), stærsta auga jarðar. Áður en byggingin var tekin í notkun dreifðist starfsfólkið víða um vísindagarða Garching í svipuðum húsum og hvítu byggingarnar vinstra megin á myndinni.

Myndina tók ljósmyndarinn Ernst Graf (graf-flugplatz.de) hinn 9. júní 2014.

Tenglar


30. júní 2014

Hughrif, sólsetur

Þegar sólin sest undir Paranal stjörnustöðina verður til glæsileg litadýrð og alls kyns blæbrigði sem minna um margt á listaverk eftir Monet. Skýin virðast glóandi fyrir framan síðustu sólargeislunum. Loftið er augljóslega tært og undirstrikar hvers vegna ESO kaus að reisa stjörnustöðvar sínar hér í Chile. Sólstafir og rökkurskuggar frá skýjunum liggja frá sólinni og virðast sameinast í gagnstæðum punkti á himninum.

Vinstra megin sjást tveir af fjórum hjálparsjónaukum Very Large Telescope, þar sem þeir bíða þolinmóðir eftir að myrkrið skelli á svo þeir geti hafið störf.

Þegar sólin er sest beina 1,8 metra hjálparsjónaukarnir ljósi frá stjörnunum í Very Large Telescope Interferometer (VLTI) sem sameinar það og býr til kristaltærar myndir af alheiminum. Hjálparsjónaukarnir eru á brautum svo hægt sé að færa þá til. Þannig er hægt að skoða himinninn frá mismunandi sjónarhornum.

Roger Wesson, vísindamaður hjá ESO í Paranal stjörnustöðinni, tók þessa mynd hinn 8. mars 2013 og sendi hana inn í Your ESO Pictures Flickr hópinn.


23. júní 2014

Gervistjarna VLT

Gianluca Lombardi, einn af ljósmyndurum ESO, tók þessa nýju, litríku og fallegu mynd af bláhvítri vetrarbrautarslæðunni undir bleikleitri þokumóðu fyrir aftan byggingarnar sem hýsa sjónauka Very Large Telescope (VLT) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile.<(p>

Gul lína skerst í gegnum litadýrðina. Þessi áberandi rák er leysigeislastjarna VLT, sem er hluti af aðlögunarsjóntækjakerfi sjónaukans sem vinnur upp á móti þeim áhrifum sem lofthjúpurinn hefur á mælingarnar. Ljós frá fjarlægum stjörnum er á reiðiskjálfi þegar það ferðast í gegnum lofthjúpinn vegna ókyrrðar. Þegar hægt er leita stjörnufræðingar að bjartri stjörnu til að stilla mælingar sínar, en þegar engin björt stjarna er í nágrenni þess sem verið er að rannsaka, þurfa þeir að reiða sig á gervistjörnu — sem búin er til með því að beina björtum leysigeisla upp í næturhiminnin, eins og myndin sýnir.


16. júní 2014

Vegurinn til framtíðar

Á þessari mynd sést hvar unnið er við lagningu vegsins, pallsins og þjónustuskurðar á Cerro Armazones, þar sem European Extremely Large Telescope (E-ELT) mun rísa. Niðri hægra megin sjást vinnubúðirnar og hvernig vegurinn bugðast í kringum fjallið.

Chileska fyrirtækið ICAFAL Ingeniería y Construncción S.A. hófst handa við vegalagninguna upp á fjallstindinn fyrir E-ELT í mars 2014 en sú vinna stendur yfir í um 16 mánuði. Vegurinn gerir mönnum kleift að reisa þennan risasjónauka í framtíðinni en hann verður 11 metra breiður og með 7 metra breiðri malbikaðri heimkeyrslu.

Sebastián Rivera Aguila, starfsmaður fyrirtækisins, tók þessa mynd fimmtudaginn 12. júní 2014 úr flugvél á leið yfir fjallið. „Það er virkilega krefjandi að vinna í eyðimörkinni, en ég er virkilega stoltur og glaður að fá að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni. ICAFAL og ESO fá mínar bestu þakkir fyrir að leyfa okkur að vera hluti af þessu sögulega verkefni,“ sagði hann.

Fimmtudaginn 19. júní mun ICAFAL sprengja toppinn af Cerro Armazones og losa um leið 5000 tonn af bergi. Sprengingin er liður í því að undirbúa jarðveginn á fjallinu svo hæt sé að koma hinum 39 metra sjónauka og öðrum tengdum byggingum stjörnustöðvarinnar fyrir. Sama dag, um 20 km í burtu í Paranal stjörnustöðinni, fer fram athöfn í tilefni sprengingarinnar til að fagna upphafi E-ELT verkefnisins. Atburðurinn verður sýndur í beinni vefútsendingu á Livestream frá klukkan 16:30 til 18:30 að íslenskum tíma (með fyrirvara um breytingar). Þátttakendur geta einnig fylgst með á Twitter hjá @ESO með auðkenninu #EELTblast og sent þar inn spurningar á ensku sem við munum reyna að svara eftir bestu getu.


9. júní 2014

Sólarupprás yfir VLT

Hér sést sólarupprás yfir Very Large Telescope (VLT) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Hægra megin á myndinni sést einn af VLT sjónaukunum, lýstur upp af tunglskininu. Fjær sjást tveir hjálparsjónaukar sem stara upp í himinninn.

VLT samanstendur af fjórum 8,2 metra breiðum sjónaukum og fjórum 1,8 metra hjálparsjónaukum. Saman geta sjónaukarnir myndað stóran víxlmæli: Very Large Telescope Interferometer (VLTI). VLTI blandar saman ljósinu sem hver sjónauki safnar með hjálp flókins speglakerfis neðanjarðar, sem gerir stjörnufræðingum kleift að sjá allt að 16 sinnum fínni smáatriði en sjónaukarnir stakir.

Myndina tók Nicolas Blind, stjörnufræðingar sem heimsótti Paranal stjörnustöðina í fáeina daga í desember 2012. Þótt Blind hafi aðeins dvalið á staðnum í stuttan tíma var heimsóknin eftirminnileg. „Þögnin á staðnum er svo friðsæl og afslappandi,“ sagði hann. „Maður heyrir aðeins gnauð í vindinum eða jafnvel leiðurblöku á þessu afskekkta svæði. Tæri himinninn á Paranal minnir mig alltaf á hve lítil við erum og hvers vegna ég lagði fyrir mig stjörnufræði.“

Í Paranal stjörnustöðinni eru 330 heiðskírar nætur á ári. Þökk sé tæknimönnum, öðru fagfólki og aðstæðunum er VLT afkastamesta jarðbundna stjörnustöð heims.

Nicolas Blind sendi þessa mynd inn í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til að birtast sem mynd vikunnar eða í myndasafni okkar.

Tenglar


2. júní 2014

Sveipaður stjörnum

Fjórði sjónaukinn sem myndar Very Large Telescope (VLT) ESO í Paranal stjörnustöðinni sést hér rammaður inn í himinninn sem hann rannsakar á hverri nóttu, fyrir framan bjarmann frá tunglinu sem er að setjast.

Þessi tignarlegi sjónauki situr í 2635 metra hæð yfir sjávarmáli á Cerro Paranal. Á Paranal er öflugasta stjörnustöð heims fyrir rannsóknir á sýnilegu ljósi. Þetta flaggskip ESO inniheldur nokkra sjónauka.

Sjónauki 4, einnig þekktur sem Yepun (Venus), er einn fjögurra sjónauka sem mynda VLT ásamt fjórum öðrum hjálparsjónaukum sem saman mynda hinn ofurnæma Very Large Telescope Interferometer (VLTI). Sjónauki 4 er undir hitastýrðri byggingu og býr yfir ótrúlega nákvæmum 8,2 metra spegli sem gerir honum kleift að skanna himinninn og varpa ljósi á ráðgátur alheimsins.

Hinir sjónaukarnir þrír kallast Antu (Sólin), Kueyen (tunglið) og Melipal (Suðurkrossinn). Nöfnin eru úr tungumáli Mapuche fólksins sem býr um 500 km suður af Santiago.

Ljósmyndarinn John Colosimo tók myndina og náði hann að fanga fegurð þessa einstaka sjónauka og umhverfi hans vel.

Tenglar


26. maí 2014

Stjörnustraumur yfir Paranal

Himinninn yfir Paranal stjörnustöðinni í norðurhluta Chile hefur upp á margt að bjóða fyrir ljósmyndara ESO sem eru sífellt að prófa nýja hluti til að ná enn betri myndum af þurra landslaginu og stjörnustöðvunum.

Hér hefur Gianluca Lombardi staflað saman nokkrum myndum, sem teknar voru á tíma, í eina glæsilega mynd. Á henni sjást Very Large Telescope (VLT) og hjálparsjónaukar hans, móðukenndir vegna þess að þeir snúast undir straumi stjarna. Stjörnurnar hafa skilið eftir sig rákir vegna sýndarhreyfingar þeirra yfir himinninn sem komin er til af snúningi Jarðar á meðan myndin var tekin.

VLT er flaggskip ESO. Hann er bæði afkastamesti heims og öflugasti sjónauki veraldar fyrir sýnilegt ljós.


12. maí 2014

Stjörnurákir yfir kaktusum í Atacamaeyðimörkinni

Á þessari glæsilegu mynd sjást stjörnurákir í kringum suðurpól himins yfir kaktusum í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Rákirnar eru sýndarslóðir stjarnanna á himninum sem rekja má til snúnings jarðar og koma fram á myndum sem teknar eru á löngum tíma.

Önnur mynd, tekin á enn lengri tíma, hefur verið lögð ofan á rákirnar. Á henni sjást mun fleiri daufari stjörnur ásamt vetrarbrautarslæðinni vinstra megin með sínum dökku ryksvæðum og bleikum bjarma Kjalarþokunnar. Hægra meginn sjást líka Magellansskýin tvö, Stóra (ofarlega fyrir miðju) og Litla (neðarlega til hægri).


5. maí 2014

Reikistjörnur raðast upp yfir La Silla

Þegar sólin sest yfir La Silla, eina af stjörnustöðvum ESO í Chile, verður til áberandi appelsínugulur bjarmi við sjóndeildarhringinn.

Á myndinni, sem David Jones tók í júní 2013, sést uppröðun þriggja reikistjarna yfir sjónaukum ESO. Þríeykið samanstendur af Júpíter (neðst til vinstri, næstum ósýnilegur í sólsetrinu), Venusi (miðju) og Merkúríusi (efst til hægri) — sjá einnig merkta mynd.

Uppröðun sem þessi verður á nokkurra ára fresti og er því töluvert sjónarspil fyrir ljósmyndara og stjörnuáhugafók. Þegar þrjú eða fleiri stjarnfræðileg fyrirbæri raðast saman á þennan hátt er það kallað „okstaða“ eða raðstaða. Á annarri okstöðumynd sést svo til sama uppröðun (líka í maí 2013).

„Myndin var tekin þegar ég var við mælingar með 3,6 metra New Technology Telescope á La Silla í fimm nætur, svo ég var mjög heppinn að fá mælingatíma á réttu augnabliki til að ná þessari mynd,“ sagði ljósmyndarinn Dave Jones. „Uppröðunin stóð aðeins yfir í viku eða svo en næst verður eitthvað þessu líkt árið 2026, svo ég var mjög heppinn að ná myndinni!“

Hér í útjaðri Atacameyðimerkurinn í Chile, einum þurrasta stað veraldar, eru aðstæður í lofthjúpnum framúrskarandi. Myndin sett saman úr tveimur myndum sem teknar voru á mislöngum tíma. Þannig var hægt að ná smáatriðunum þegar sólin var að setjast, án þess að myndin væri undir- eða yfirlýst.

Tenglar


28. apríl 2014

Lamadýr við La Silla

Hér sést sviðnaður hnullungur við La Silla stjörnustöð ESO í Chile, í útjaðri eyðimerkurinnar í um 2 400 metra hæð yfir sjávarmáli.

Á hnullungnum eru nokkrar áletranir — bergrúnir — sem sýna menn og lamadýr. Lamadýr hafa skipað stóran sess í menningu Suður Ameríkumanna, þar sem þau voru bæði uppspretta matar og ullar en líka notuð til að flytja vörur milli staða. Mikilvægi lamadýra endurspeglaðist í trúarbrögðum fólksins sem bjó á svæðinu fyrir tíma Evrópumanna — Inkar tilbáðu marglitt guðlegt lamadýr sem þeir kölluðu Urcuchillay og var sagt vaka yfir dýrunum. Stjörnufræðingar Inka gáfu einnig stjörnumerkinu sem við köllum Hörpuna nafnið Urcuchillay.

Lamadýrið er heiðrað enn og aftur stjörnumerkjum Inka. Þeirra stjörnumerki voru mynduð úr dökku blettunum í bjartri vetrarbrautaslæðunni í stað áberandi stjarna eins og í vestrænni hefð. Eitt þessara dimmu stjörnumerkja var kallað Yacana (Lamadýrið), sem nær frá miðju vetrarbrautarinnar í átt að Suðurkrossinum, en nágrannastjarna okkar, Alfa Centauri, myndar auga þess.

Stjörnufræðingurinn Håkon Dahle tók þessa mynd. Hann sendi hana inn í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til að birtast sem mynd vikunnar eða í myndasafni okkar.

Tenglar


  1 | 2 Næsta »
Niðurstöður 1 til 20 af 30
Bookmark and Share

Sjá einnig