Mynd vikunnar

7. október 2013

Vin eða felustaður?

Á þessari mynd sjást rákir stjarna á dimmum himninum yfir Chile. Rekja má rákirnar til snúnings Jarðar á þeim tíma þegar myndin var tekin. Fyrir neðan rákirnar er Paranal Residencia sem er sannkölluð vin í chilesku eyðimörkinni fyrir starfsmenn og gesti Very Large Telescope ESO hátt á Cerro Paranal.

Smíði Residencia hófst árið 1998 og lauk árið 2002. Síðan hefur það verið vísindamönnum og verkfræðingum sem starfa í Paranal stjörnustöðinni kærkominn griðarstaður í harðneskjulega og þurra eyðimerkurloftinu.

Meginhluti þessarar fjögurra hæða byggingar er neðanjarðar. Þýsku arkitektarnir Auer+Weber hönnuðu aðstöðuna þannig að hún félli inn í landslagið. Frá ákveðnum sjónarhornum minnir þessi nýstárlega en lítt áberandi bygging á felustað illmennis. Það kom því ekki á óvart að Residencia var einmitt sögusvið lokabardagans í James Bond myndinni Quantum of Solace frá árinu 2008.

Flickr notandinn John Colosimo sendi þessa mynd inn í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til að birtast sem mynd vikunnar eða í myndasafni okkar.

Tenglar


30. september 2013

Hulunni svipt af fjarlægum stjörnum og vetrarbrautum

Á þessari djúpmynd, sem tekin var með Wide Field Imager (WFI) myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile, sjást fjarlægar stjörnur og vetrarbrautir.

Myndin er hluti af COMBO-17 verkefninu (Classifying Objects by Medium-Band Observations in 17 filters) en í því hafa myndir verið teknar af litlum svæðum á himninum í gegnum 17 mismunandi ljóssíur. Heildarflatarmál þess svæðis sem hver COMBO-17 mynd þekur er álíka stórt og fullt tungl en á myndunum hafa fundist ótal fjarlæg fyrirbæri. Það sýnir glöggt hve margt á enn eftir að uppgötvast á himinhvolfinu.

Myndin er af svæði sem einnig var til skoðunar í FORS Deep Field (FDF) verkefninu en í því voru ýmis svæði á himninum könnuð í smáatriðum með FORS2 litrófsritanum á Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile. Mun fleiri ljóssíur voru notaðar í myndir WFI en mælingar FDF, auk þess sem stærri svæði á himninum voru rannsökuð, svo útkoman er mynd eins og sú sem hér sést.

Þessar litlu svipmyndir af alheiminum hafa leitt í ljós tugþúsundir stjarna, vetrarbrauta og dulstirna sem áður voru okkur hulin. Myndirnar hafa verið notuð til að rannsaka þyngdarlinsuhrif og dreifingu hulduefnis í vetrarbrautum og þyrpingum.

Tenglar


23. september 2013

Ný, köld og lítil stjarna í nágrenni okkar

Á þessari nýju mynd VISTA sjónauka ESO sést nýfundinn brúnn dvergur, VVV BD001, sem er að finna í átt að miðju Vetrarbrautarinnar. Hann er fyrsti brúni dvergurinn sem finnst í nágrenni okkar í geimnum í VVV verkefninu. VVV BD001 er í rétt 55 ljósára fjarlægð frá okkur og sést í miðju þessarar þysjanlegu myndar.

Brúnir dvergar eru stjörnur sem urðu aldrei að stjörnum eins og sólin okkar. Þeir eru oft kallaðir „misheppnaðar stjörnur“ en eru stærri en reikistjarnan Júpíter en minni en venjulegar stjörnur.

Tvennt er óvenjulegt við þennan brúna dverg. Í fyrsta lagi er hann sá fyrsti sem finnst í átt að miðju Vetrarbrautarinnar, á einu þéttasta svæði himinsins. Í öðru lagi tilheyrir hann óvenjulegum hópi stjarna sem kallast „óvenju bláir brúnir dvergar“ — ekki er vitað hvers vegna þeir eru blárri en þeir ættu að vera.

Brúnir dvergar verða til á sama hátt og stjörnur en hafa ekki nægan massa til að hefja vetnisbruna og verða venjulegar stjörnur. Af þeim sökum eru þeir miklu kaldari og gefa frá sér mun minni birtu svo erfiðara er að finna þá. Stjörnufræðingar leita venjulega að þessum fyrirbærum með nær- og mið-innrauðum myndavélum og sérstökum sjónaukum sem eru næmir fyrir þessum köldu stjörnum. Venjulega forðast menn þó að leita að þeim í stjörnuskara, á þéttum svæðum eins og miðsvæðum Vetrarbrautarinnar.

VISTA (Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy) er stærsti kortlagningarsjónauki heims og er staðsettur í Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Sjónaukinn er notaður í sex mismunandi verkefni sem ganga út að kortleggja himinhvolfinu en VVV (VISTA Variables in the Via Lactea) verkefnið er hugsað til að skrásetja um milljað fyrirbæra við miðsvæði Vetrarbrautarinnar. VVV BD8001 fannst fyrir tilviljun í þessu verkefni.

Vísindamenn hafa einnig notað VVV skrárnar til að útbúa þrívítt kort af miðbungu Vetrarbrautarinnar (eso1339). Gögnin hafa líka verið notuð til að setja saman gríðarstóra 108.200 sinnum 81.500 pixla litmynd með nærri níu milljarða pixla (eso1242), eina stærstu stjörnuljósmynd sem tekin hefur verið.

Tenglar


9. september 2013

Á flugi yfir Armazones

Þessa glæsilegu loftmynd af Cerro Armazones tók Gerhard Hüdepohl, enn af ljósmyndurum ESO. Á þessu augnabliki raðaðist allt fullkomlega upp fyrir ljósmyndarann: Fullkomið augnablik.

Hüdepohl starfar sem rafmagnsverkfræðingur hjá Very Large Telescope (VLT) Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli á Cerro Paranal, öflugasta sjónauka heims fyrir sýnilegt ljós og flaggskip ESO. Hüdepohl tók þessa mynd þegar hann flaug frá Antofagasta til Santiago. Skömmu eftir að vélin tók á loft flaug hún yfir útsýnisflug yfir Cerro Armazones og hefði Hüdepohl ekki getað beðið um betri aðstæður. Á þessu augnabliki fangaði hann þetta óvenjulega sjónarhorn, hátt yfir stórkostlegu eyðimerkurlandslaginu.

Á myndinni sést Atacamaeyðimörkinni ótrúlega skýrt en þunnir hlykkjóttir vegslóðarnir standa út úr rykugu landslaginu. Þessi malarvegur liggur upp á tind Cerro Armazones. Um þessar mundir er þar rannsóknarbúnaður en innan tíðar verður tindurinn framtíðarheimili European Extremely Large Telescope (E-ELT), 40 metra breiðs sjónauka sem mun ekki aðeins svara spurningum í stjarnvísindum, heldur varpa fram nýjum og finna vonandi svör við þeim líka. 

Tenglar


2. september 2013

PESSTO tekur mynd af sprengistjörnu í Messier 74

Í PESSTO verkefni ESO náðist þessi mynd af Messier 74, glæsilegri þyrilvetrarbraut með áberandi arma. Helsta viðfangsefni myndarinnar er bjarta stjarnan neðarlega vinstra megin. Hún birtist fyrst seint í júlímánuði 2013 og reyndist sprengistjarna af gerð II og fékk nafnið SN 2013ej.

Sprengistjörnur af gerð II verða til þegar kjarni massamikillar stjörnu hrynur saman undan eigin þyngdarkrafti við ævilok. Við hrunið verður mikil sprenging sem varpar efni langt út í geiminn. Sprengistjarnan getur orðið skærari en samanlögð birta allrar vetrarbrautarinnar sem hýsir hana og getur sést í vikur, jafnvel mánuði.

PESSTO (Public ESO Spectroscopic Survey for Transient Objects) verkefnið er hugsað til að rannsaka fyrirbæri sem birtast í stuttan tíma á næturhimninum, eins og sprengistjörnur. Verkefnið gerir það með hjálp fjölda tækja á NTT (New Technology Telescope) í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Þessi nýja mynd af SN 2013ej var tekin með NTT.

SN 2013ej er þriðja sprengistjarnan sem sést hefur í Messier 72 á þessari öld. Hinar tvær voru SN 2002ap og SN 2003gd. KAT hópurinn í Kaliforníu tilkynnti fyrstur um sprengistjörnuna þann 25. júlí 2013 en stjörnuáhugamaðurinn Christina Feliciano tók mynd af stjörnunni með SLOOH Space Camera nokkrum dögum eða klukkustundum áður en hún sprakk. Þessi nýja mynd af SN 2013ej var tekin með NTT í þessu verkefni.

Af fyrirbærum Messierskrárinnar er Messier 74, í stjörnumerkinu Fiskunum, eitt erfiðasta fyrirbærið fyrir stjörnuáhugamenn að sjá vegna lágrar yfirborðsbirtu. Reyndir stjörnuáhugamenn ættu að geta séð SN 2013ej næstu vikur sem daufa og dofnandi stjörnu.

Tenglar


26. ágúst 2013

Sorfið af massamiklum stjörnum

Á þessari mynd sem Very Large Telescope (VLT) ESO í Paranal stjörnustöðinni tók, sést lítill hluti af NGC 6357, þekkri ljómþoku í um 8.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Rauði einkennislitur rafaðs vetnisgass er áberandi á myndinni.

Skýið er baðað sterkum útfjólubláum geislum — aðallega frá lausþyrpingunni Pismis 24 sem hýsir nokkrar massamiklar, ungar, bláar stjörnur — sem það svo geislar aftur frá sér sem sýnilegu ljósi með þennan rauðleita blæ.

Þyrping sjálf er fyrir utan sjónsvið myndarinnar en birtan frá henni lýsir upp skýið hægra megin við miðja mynd. Við sjáum geimþokuna í kring í nærmynd og alla þá ringulreið gass, ryks, nýfæddra og ófæddra stjarna sem þar ríkir.


19. ágúst 2013

Stjörnubjört nótt á La Silla

Aragrúi stjarna prýðir næturhiminninn á þessari mynd sem stjörnufræðingurinn Håkon Dahle tók. Ljósmyndarinn sjálfur stendur fremst á myndinni, innan um skuggamyndir nokkurra hvolfþaka La Silla stjörnustöðvar ESO.

Margir stjörnufræðingar eru prýðisgóðir ljósmyndarar sem ætti ekki að koma á óvart. ESO hefur staðsett stjörnustöðvar sínar í Atacamaeyðimörkinni, á nokkrum af bestu stöðum Jarðar til að rannsaka himinhvolfið. Af sömu ástæðu eru þessir staðir með þeim bstu á Jörðinni til að ljósmynda næturhiminninn.

Håkon tók myndina þegar hann dvaldi í viku við rannsóknir með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum. Á þeim tíma fengu aðrir rannsóknarhópar annað slagið lykilinn að stjörnustöðinni og gafst Håkon þá tækifæri til að dást að himninum — og fanga hann á mynd svo aðrir fengju að sjá.

Vetrarbrautin okkar er meira áberandi á suðurhveli en norðurhveli vegna þess að þaðan sést miðja hennar betur. Samt sem áður er Vetrarbrautin fremur dauf á næturhimninum á suðurhveli og týnist jafnan í ljósmengun eða tunglskininu.

Eitt það mikilvægasta við La Silla stjörnustöðina er að hún er fjarri öllum borgarljósum svo himinninn er mjög dimmur. Lofthjúpurinn er líka mjög tær svo mistur byrgir okkur ekki sýn. Himinninn yfir La Silla er svo dimmur að Vetrarbrautin getur varpað skuggum.

Håkon sendi þessa mynd inn í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til að birtast sem mynd vikunnar eða í myndasafni okkar.


12. ágúst 2013

Lognið á undan storminum

Á þessari fallegu mynd sjást vetrarbrautirnar NGC 799 (neðri) og NGC 800 (efri) í stjörnumerkinu Hvalnum. Bandaríski stjörnufræðingurinn Lewis Swift kom fyrstur manna auga á vetrarbrautirnar árið 1885.

Vetrarbrautirnar tvær eru í um 300 milljón ljósára fjarlægð. Frá okkar sjónarhóli sést lögun beggja vel. Báðar eru þyrilvetrarbrautir, rétt eins og Vetrarbrautin okkar, með einkennandi langa arma sem hverfast um bjarta bungu í miðjunni. Í þyrilörmunum er aragrúi heitra, ungra, bláleitra stjarna í þyrpingum (litlir bláir punktar á myndinni), en í miðbungunni eru stórir og þéttir hópar af kaldari, rauðleitum og eldri stjörnum.

Við fyrstu sýn virka báðar vetrarbrautirnar svipaðar en í grunninn eru þær samt ólíkar. Fyrir utan augljósan stærðarmun hefur aðeins NGC 799 bjálka sem teygir sig út frá miðbunginni og arma sem liggja út frá bjálkanum. Bjálkar vetrarbrauta eru taldir beina gasi út þyrilörmunum í miðjuna svo stjörnumyndun eykst þar. Árið 2004 sást stjarna springa í NGC 799 sem nefnd var SN2004dt.

Annað áhugavert atriði sem skilur á milli er fjöldi þyrilarma. Smærri vetrarbrautin, NGC 800, hefur þrjá bjarta og hnútótta arma, á meðan NGC 799 hefur aðeins tvo fremur daufa en breiða þyrilarma. Þeir byrja við enda bjálkans og umlykja vetrarbrautina nær alveg svo hún verður næstum hringlaga.

Þótt þyrilvetrarbrautirnar tvær líti út fyrir að lifa friðsömu samlífi, gæti það varla verið fjær sanni. Það sem við sjáum hér er lognið á undan storminum. Við vitum ekki nákvæmlega hvað framtíð þeirra ber í skauti sér en þegar tvær vetrarbrautir eru of nálægt hvor annarri, víxlverka þær í nokkur hundruð milljónir ára. Í sumum tilvikum verða aðeins minniháttar víxlverkanir sem valda því að þær afmyndast, en stundum renna þær saman og mynda eina nýja og stærri vetrarbraut.

Myndin var tekin með FORS1 mælitækinu á 8,2 metra Very Large Telescope (VLT) ESO á Cerro Paranal í Chile. Myndin er sett saman úr myndum sem teknar voru í gegnum þrjár litsíur (B, V, R).

Á myndinni sjást líka fimm smástirni — sérðu þau? Smástirnin færast á milli mynda og skilja eftir sig litríkar rákir á myndinni.


29. júlí 2013

Messier 100 — Tilkomumikil þyrilvetrarbraut

Útlitslega eru þyrilvetrarbrautir oft mjög tilkomumiklar og sjaldan glæsilegri en þegar við sjáum þær ofan frá. Á myndinni sést prýðisgott dæmi um það. Þetta er þyrilvetrarbrautin Messier 100 í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi en hún er í um 55 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni.

Þótt Messier 100 hafi mjög vel afmarkaða þyrilarma, hefur hún líka bjálka í miðjunni og telst því vetrarbraut af SAB gerð. Þótt bjálkinn sjáist ekki vel á myndinni hafa stjörnufræðingar staðfest tilvist hans með því að skoða vetrarbrautina á öðrum bylgjulengdum.

Þessi skarpa og skýra mynd sýnir vel helstu einkenni vetrarbrauta af þessari gerð.: Risavaxin rauðglóandi ský úr vetnisgasi sem geisla frá sér orku sem nýfæddar og massamiklar stjörnur hafa gefið þeim; samfelldur bjarmi gamalla gulleitra stjarna við miðjuna og svartar ryktæjur sem liggja í gegnum arma vetrarbrautarinnar.

Messier 100 er ein bjartasta vetrarbrautin í Meyjarþyrpingunni, nálægustu þyrpingu vetrarbrauta við Vetrarbrautina okkar. Í henni eru yfir 2.000 vetrarbrautir, þar á meðal þyrilvetrarbrautir, sporvölur og óreglulegar vetrarbrautir. Myndin var sett saman úr myndum sem teknar voru í gegnum rauða (R), græna (V) og bláa (B) síu með FORS mælitækinu á Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile.

Tenglar


22. júlí 2013

NTT snýst eins og skopparakringla

Á þessari mynd sést New Technology Telescope (NTT) í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Efsti hluti byggingarinnar sem hýsir sjónaukann virðist þokukennd á myndinni vegna þess að hann snerist þegar sjónaukanum var beint að tilteknu fyrirbæri þegar myndin var tekin. Lýsingartíminn nam 30 sekúndum.

Eitt það fyrsta sem þú tekur eflaust eftir á myndinni, er að sérkennileg hyrnd lögun byggingarinnar sem hýsir sjónaukann en oftast eru notuð hvolfþök yfir sjónaukana. Þessi hönnun var byltingarkennd þegar sjónaukinn var tekinn í notkun árið 1989 en hún hefur mikið verið notuð síðan, þar á meðal fyrir Very Large Telescope ESO.

Hönnun NTT var byltingarkennd í flesta staði enda var leitast vð að ná hámarksmyndgæðum, til dæmis með því að stjórna vandlega loftræstingu og loftstreymi um sjónaukann og lágmarka þannig ókyrrð innanhúss sem gerir myndir óskýrar. Ef vel er að gáð sjást stóru fliparnir, sem gegna veigamesta hlutverkinu í þessu kerfi, í móðukennda hluta myndarinnar.

Spegill NTT var einnig byltingarkenndur á sínum tíma. Þótt hann sé 3,58 metra breiður og því ekkert sérstaklega stór, var hönnun hans nýstárleg. Spegillinn er sveigjanlegur og hægt að stjórna lögun hans á öllum stundum til að hámarka myndgæði. ESO og NTT ruddu brautina í notkun á þessari tækn sem kallast virk sjóntæki og er nú staðalbúnaður í sjónaukum nútímans.

Í dag geta stjörnufræðingar nýtt sér tvö tæki á NTT við rannsóknir sínar: SOFI (skammstöfun fyrir Son of ISAAC, tæki á VLT) sem er litrófsriti fyrir innrautt ljós og myndavél, og EFOSC2, litrófsrita og myndavél fyrir dauf fyrirbæri.

La Silla stjörnustöðin er í suðurhluta Atacamaeyðimerkurinnar í Chile, um 600 km norður af höfuðborginni Santiago, í um 2.400 metra hæð yfir sjávarmáli.

Malte Tewes, stjörnufræðingur við Ecole Polytechnique Fédérale de Lausanne í Sviss, tók þessa mynd.

Malte sendi þessa mynd inn í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til að birtast sem mynd vikunnar eða í myndasafni okkar.

Tenglar


15. júlí 2013

Vængir vísindanna fljúga yfir Paranal

Þessa loftmynd af Paranal stjörnustöðinni tóku þau Clémentine Bacri og Adrien Nomier í desember 2012 þegar þau flugu sérstakri vistvænni fisvél [1] á ársferðalagi sínu í kringum Jörðina. Myndin sýnir hráslagalegt eyðimerkurlandslagið þar sem besta stjörnustöð heims, Very Large Telescope (VLT) ESO, fjórir 8,2 metra breiðir sjónaukar, er að finna á tindi Cerro Paranal.

ESO hefur hafið samstarf við ORA Wings of Science verkefnið, samtök sem ekki eru rekin í gróðaskyni og bjóða opinberum rannsóknarsamtökum upp á stuðning við rannsóknir úr lofti. Áhöfn Wings for Science verkefnisins flugu meðal annars yfir stjörnustöðvarnar í norðurhluta Chile áður en haldið var frá Suður Ameríku til Ástralíu. Á ferðalagi sínu hjálpuðu þau vísindamönnum til dæmis við sýnasöfnun úr lofti, fornleifarannsóknir, athuganir á líffræðilegri fjölbreytni og útbúa landslagslíkön í þrívídd.

Þær stuttmyndir og glæsilegu ljósmyndir sem teknar eru í leiðangrinum eru notaðar í menntalegum tilgangi og til að kynna staðbundnar rannsóknir. Hringflugið hófst í júní 2012 og lauk í júní 2013 með lendingu á flugsýningunni í París þann 17. þess mánaðar.

Skýringar

[1] Fisvélin er verðlaunuð vél frá NASA, Pipistrel Virus SW 80, sem eyðir aðeins 7 lítrum af eldsneyti á 100 kílómetra — minnan en flestar bifreiðar.

Tenglar


8. júlí 2013

Nýju leikföng Maëlle

Stjörnufræði og sjónaukar geta stundum dregið fram barnið í okkur. Til að svala forvitni mannkynsins halda stjörnufræðingar áfram að smíða sífellt stærri tæki á afskekktum stöðum um allan heim.

Julien Girard, stjörnufræðingur hjá ESO, tók þessa sætu mynd af dóttur sinni á fjölskyldudegi í Paranal stjörnustöðinni í Andesfjöllum Chile. Frá þessu sjónarhorni er eins og Maëlle litla sé að horfa ofan í opið hvolfð sem hýsir einn af 1,8 metra hjálparsjónaukum Very Large Telescope (VLT) ESO. Þótt sjónaukarnir séu notaðir í háalvarlegar vísindarannsóknir finnst sjtörnufræðingunum stundum eins og þeir séu börn að leika sér við risastór „leikföng“.

Julien Girard er stjörnufræðingur hjá ESO og einn af ljósmyndurum ESO í Chile þar sem hann vinnur við VLT. Hann er tækjasérfræðingur við NACO aðlögunarsjóntækið á VLT sjónauka 4. Julien sendi þessa mynd í Your ESO Pictures Flickr hópinn þaðan sem hún var talin sem mynd vikunnar.

Tenglar


1. júlí 2013

Evrópsk loftnet í starfsstöð ALMA

Á þessari mynd sjáum við loftnet sem verða hlutar af Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA). Loftnetin þrjú fremst á myndinni, sem og nokkur í bakgrunni, eru hluti af framlagi ESO til ALMA, samkvæmt samningi við evrópska AEM samstarfið [1]. Í heild útvegar ESO tuttugu og fimm af 12 metra loftnetunum. Norðurameríski þátttakandinn í ALMA leggur til önnur tuttugu fimm 12 metra loftnet en afgangurinn, tólf 7 metra og fjögur 12 metra loftnet sem mynda Atacama Compact Array, koma frá austur asíska þáttakandanum í ALMA.

Loftnetin sjást hér í þjónustumiðstöð ALMA sem er í 2.900 metra hæð í hlíðum Andesfjallanna í Chile. Loftnetin fremst á myndinni eru í uppsetningaraðstöðu AEM, þar sem þau eru sett saman og prófuð ítarlega áður þau eru afhent stjörnustöðinni. Loftnetin í bakgrunni hafa þegar verið afhent en annað hvort er verið að prófa þau frekari eða koma nemunum fyrir í þeim. Þegar loftnetin eru tilbúin eru þau flutt upp í starfsstöðina á Chajnantor hásléttunni í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar sameinast þau öðrum loftnetum og munu vinna saman að rannsóknum á sumum af dýpstu spurningum okkar um uppruna okkar í alheiminum. Þegar loftnetin verða öll tilbúin verður þjónustumiðstöðin áfram miðpunktur daglegrar starfsemi ALMA, bæði sem vinnustaður stjörnufræðinga og þeirra sem sjá um viðhald stjörnustöðvarinnar.

Við sjóndeildarhringinn er Andesfjallgarðurinn en eldkeilan Licancabur rís hæst. Licancabur er á landamærum Chile og Bólivíu og setur sterkan svip á landslag svæðisins.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samræmd stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Skýringar

[1] Í AEM samstarfinu eru Thales Alenia Space, European Industrial Engineering og MT-Mechatronics.

Tenglar


24. júní 2013

Tunglskin og sverðbjarmi yfir La Silla

Hátt fyrir ofan skýjaþykknið er La Silla, fyrsta stjörnustöð ESO í Chile. Frá þessu sjónarhorni minnir hún ef til vill á borg úr framtíðinni í einhverri vísindaskáldsögu. Stjörnufræðingurinn Alan Fitzsimmons tók myndina þegar hann stóð úti við 3,6 metra sjónauka ESO skömmu eftir sólsetur. Tunglið er fyrir utan myndina en lýsir upp stjörnustöðina og skýjabakkann fyrir neðan.

Daufi gulglóandi bjarminn sem rís upp úr skýjabakkanum, í roða sólsetursins, er sverðbjarminn. Sverðbjarmann má rekja til rykagna í sólkerfinu sem dreifir sólarljósinu. Bjarminn er aðeins sýnilegur skömmu eftir sólsetur eða skömmu fyrir sólarupprás á tilteknum árstímum við bestu aðstæður.

Á myndinni sjást nokkrir sjónaukar. Stóra átthyrnda byggingin við enda vegarins er New Technology Telescope (NTT). Hann ber nafn með rentu því þegar smíði hans lauk árið 1989 var tæknin á bak við hann byltingarkennd. Til dæmis voru virk sjóntæki notuð í fyrsta sinn sem og átthyrnda byggingin sem hýsir sjónaukann. Margar af tækninýjungum NTT lögðu grunninn að Very Large Telescope ESO.

Undir hvolfþakinu í forgrunni, hægra meginn, er svissneski 1,2 metra Leonhard Euler sjónaukinn, nefndur eftir svissneska stærðfræðingnum Leonhard Euler (1707-83).

Alan sendi þessa mynd í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til fyrir mynd vikunnar eða í myndasafn okkar.


17. júní 2013

Þrumur og eldingar

Þessi rafmagnaða mynd var tekin föstudaginn 7. júní 2013 þegar skrugguveður geysaði yfir Cerro Paranal. Stóru byggingarnar sem hýsa VLT sjónaukana fjóra, hver á stærð við átta hæða hús, eru dvergvaxnar undir öflugum storminum.

Vinstra megin á myndinni glittir í staka stjörnu sem virðist fylgjast með sýningunni — einn ljóspunktur á dimmum himninum. Þetta er Prókýon, bjart tvístirni í stjörnumerkinu Litlahundi.

Ský eru sjaldséð fyrirbæri yfir Paranal stjörnustöð ESO. Að meðaltali eru 330 dagar á ári heiðskírir á þessum stað. Þrumur og eldingar eru enn sjaldgæfari því stjörnustöðin er á einum þurrasta stað Jarðar: Atacamaeyðimörkinni í norðurhluta Chile í 2.600 metra hæð yfir sjávarmáli. Ef ský eru til staðar er stjörnustöðin oftast fyrir ofan þau.

Verkfræðingurinn Gerhard Hüdepohl, einn af ljósmyndurum ESO, hefur starfað sem verkfræðingur á Paranal í 16 ár og hafði aðeins séð eldingar þar einu sinni áður — hann greip því myndavélina og hljóp út til að festa þessa einstöku sýn á mynd.


10. júní 2013

Ris og fall sprengistjörnu

Á nýju og óvenjulegu myndskeiði sést ör birtuaukning og hægfara dofnun sprengistjörnu í vetrarbrautinni NGC 1365. Franski stjörnufræðingurinn Alain Klotz fann sprengistjörnuna, sem var nefnd SN 2012fr, þann 27. október 2012 á myndum sem teknar voru með fjarstýrða sjónaukanum TAROT í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Myndirnar voru settar saman í þetta einstaka myndskeið.

Sprengistjörnur marka ævilok ákveðinna tegunda stjarna. Þær skína óhemju skært í nokkrar vikur, skærar en vetrarbrautirnar sem þær tilheyra, áður en þær dofna hægt og rólega.

Alain Klotz fann sprengstjörnuna 2012fr [1] þann 27. október 2012. Hann vann að birtumælingum á daufum breytistjörnum með TAROT (Télescope á Action Rapide pour les Transitoires), fjarstýrðum sjónauka í La Silla stjörnustöð ESO, þegar hann tók eftir fyrirbæri sem ekki hafði sést á myndum sem teknar voru þremur dögum áður. Eftir að hafa beint öðrum sjónaukum og leitað ráða hjá öðrum stjörnufræðingum um allan heim, var loks staðfest að um sprengistjörnu af gerð Ia var að ræða.

Sumar stjörnur eiga sér sambýling, aðra stjörnu sem snúast báðar um sameiginlega massamiðju. Í sumum tilvikum getur önnur stjarnanna verið mjög gamall hvítur dvergur sem stelur efni frá sambýlingnum. Á einhverjum tímapunkti hefur hvíti dvergurinn sankað svo miklu efni að sér frá förunautnum, að hann verður óstöðugur og springur. Þá verður til sprengistjarna af gerð Ia.

Þetta er mjög mikilvæg tegund sprengistjarna því þær veita okkur áreiðanlegustu aðferðina til að mæla fjarlægðir til mjög fjarlægra vetrabrauta snemma í sögu alheims. Þegar vetrarbrautir utan grenndarhópsins eru rannsakaðar verða stjörnufræðingar að finna mjög björt fyrirbæri með þekkta eiginleika sem geta virkað eins og staðalkerti sem hjálpa þeim að kortleggja útþenslu alheimsins. Sprengistjörnur af gerð Ia henta einkar vel til þess, því birta þeirra toppar og dofnar á samskonar hátt í öllum tilvikum. Mælingar á fjarlægðum sprengistjarna af gerð Ia leiddi til uppgötvunar á auknum útþensluhraða alheimsins en fyrir hana voru veitt Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 2011.

Hýsilvetrarbraut þessarar sprengistjörnu er NGC 1365 (sjá einnig potw1037a), falleg bjálkaþyrilvetrarbraut í um 60 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Ofninum. Hún er um 200.000 ljósár að þvermáli og því áberandi innan um allar hinar vetrarbrautirnar í Ofnþyrpingunni. Í gegnum miðja vetrarbrautina liggur stærðarinnar bjálki og er kjarninn í miðju hans. Sprengistjarnan sést auðveldlega rétt fyrir ofan kjarnann á miðri myndinni.

Árið 2012 fundu stjörnufræðingar yfir 200 nýjar sprengistjörnur og var SN 2012fr ein sú bjartasta. Sprengistjarnan var mjög dauf þegar hún sást fyrst þann 27. október 2012 en náði hámarksbirtu 11. nóvember sama ár [2]. Hún sást þá leikandi sem dauf stjarna í gegnum meðalstóra áhugamannasjónauka. Myndskeiðið var sett saman úr nokkrum myndum sem teknar voru yfir þriggja mánaða tímabil frá uppgötvuninni fram í miðjan janúar 2013.

TAROT er 25 sentímetra fjarstýrður stjörnusjónauki sem hægt er að færa til mjög hratt og hefja mælingar á innan við sekúndu. Honum var komið fyrir í La Silla stjörnustöðinni árið 2006 í þeim tilgangi að greina glæður gammablossa. Myndirnar sem sýndu SN 2012fr voru teknar í gegnum bláa, græna og rauða síu.

Skýringar

[1] Sprengistjörnur eru skrásettar eftir árinu sem þeir fundust og með bókstöfum samkvæmt þeirri röð sem þær fundust í á því ári. Það er tilviljun að franskur hópur fann sprengistjörnuna og að hún hafi fengið bókstafina „fr“.

[2] Á þessum tíma var birtustigið 11,9. Hún var því 200 sinnum of dauf til að sjást með berum augum við kjöraðstæður. Ed sprengistjarnan við hámark birtu sinnar og sólin verið í sömu fjarlægð frá athuganda, hefði sprengistjarna verið um það bil 3000 milljón sinnum bjartari en sólin.

Tenglar

Tengiliðir

Alain Klotz
Institut de Recherche en Astrophysique et Planetologie
Toulouse, France
Tel: +33 05 61 55 66 66
Email: alain.klotz@irap.omp.eu

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: rhook@eso.org

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org


3. júní 2013

Þrjár plánetur stíga dans yfir La Silla

Á himinhvolfinu þessa dagana er sýning sem glatt hefur bæði stjörnufræðinga og stjörnuljósmyndara. Á himninum er nefnilega okstaða eða raðstaða — það er þegar þrír hnettir eða fleiri raða sér upp í röð á himnum. Himinhnettirnir eru allir á svipaðri breiddargráðu miðað við sólbauginn í því sem kallast líka þreföld samstaða. Vitaskuld er hér aðeins um að ræða uppröðun frá sjónarhóli okkar á Jörðinni en það dregur ekki neitt úr tignarleikanum. Í þessu tilviki eru hnettirnir þrjár reikistjörnur og það eina sem þarf til að njóta sýningarinnar er heiðskír himinn við sólsetur.

Því miður sést þessi samstaða ekki frá Íslandi en Yuri Beletsky, einn af ljósmyndurum ESO, var á góðum stað til að virða fyrir sér þetta fallega sjónarspil frá La Silla stjörnustöð ESO í norðurhluta Chile sunnudaginn 26. maí. Eftir sólsetur birtust þrjár af reikistjörnum sólkerfisins — Júpíter (efst), Venus (niðri til vinstri) og Merkúríus (niðri til hægri) — yfir hvolfþökum sjónaukanna og stigu himneskan dans.

Uppröðun á borð við þessa gerist á nokkurra ára fresti; seinast í maí 2011 en næst í október 2015. Þessi himneski þríhyrningur sást best síðustu viku maímánaðar en fólk á suðlægari slóðum en Íslandi getur haldið áfram að fylgjast með reikistjörnunum þremur reika um himininn næstu daga og vikur.

Tenglar


27. maí 2013

Gárur á stjörnuhimninum yfir Chile

Við fyrstu sýn gæti þessi dáleiðandi mynd minnt á gárur eftir stein sem hefur verið varpað ofan í vatn. Þetta mynstur er engu að síður komið til vegna sýndarhreyfingar stjarna á suðurhveli himins og brellum ljósmyndarans. Myndin var tekin á tindi Cerro Armazones, 3.060 metra háu fjalli í miðri Atacamaeyðimörkinni í Andesfjöllum Chile.

Löngu ljósrákirnar eru slóðir stjarna og hver slóð eftir eina stjörnu á næturhimninum. Þessar rákir, sem augað nemur ekki, koma fram ef ljósop myndavélar er haft opið í langan tíma. Lýsingartími niður í allt að 15 mínútur dugir til að kalla rákirnar fram. Í þessu tilviki skeytti ljósmyndarinn saman mörgum ljósmyndum sem teknar voru á styttri tíma og bjó þannig til þessa mynd. Gleiðlinsan sem notuð var fyrir þessa röð sýnir himinpólinn til hægri og miðbaug himins rétt fyrir ofan litla turninn.

Hinn mikli fjöldi ráka á myndinni sýnir líka vel þær frábæru aðstæður sem ríkja á Aramazones: Lofthjúpurinn er kristaltær og ljósmengun engin vegna þess hve fjallið er á afskekktum stað. Þetta er ein af ástæðum þess að fjallið var valið sem framtíðarheimili stærsta auga Jarðar; hins fyrirhugaða European Extremely Large Telescope (E-ELT).


20. maí 2013

Dáðst að Vetrarbrautinni

Það er erfitt fyrir jafnvel reyndustu stjörnufræðinga að standast freistinguna til að staldra við í miðjum klíðum og virða fyrir sér fegurð næturhiminsins á suðurhveli. Þetta er sjálfsmynd sem stjörnufræðingurinn Alan Fitzsimmons tók milli stjörnuathugana í La Silla stjörnustöð ESO.

Á myndinni stendur stjörnufræðingurinn grafkyrr og dökkur ásýndum á Jörðinni undir stjörnubjörtum himninum. Vetrarbrautarslæðan með allan sinn stjörnuskara og sín dökku rykský liggur þvert yfir myndina.

Stjörnustöðvar ESO eru staðsettar í Atacamaeyðimörkinni í norðurhluta Chile, mjög strjálbýlu svæði, sem býr við tæran og dimman himinn sem liggur til grundvallar stjarnvísindarannsókna í hæsta gæðaflokki.

La Silla er fyrsta stjörnustöð ESO, stofnuð árið 1969 og hýsir fjölda sjónauka með allt að 3,6 metra safnspegil. Í La Silla eru meira en 300 nætur heiðskírar á ári og staðurinn því kjörinn undir framúrskarandi sjónauka en hentar líka frábærlega til að gefa sér tíma og góna upp í stjörnuhiminninn.

Alan sendi þessa mynd í Your ESO Pictures Flickr hópinn. Flickr hópurinn er skoðaður reglulega og bestu myndirnar valdar til fyrir mynd vikunnar eða í myndasafn okkar.


13. maí 2013

Vetrarbrautin skín yfir snæviþöktu La Silla

Í útjaðri Atacamaeyðimerkurinn, fjarri ljósmenguðum borgum í norðurhluta Chile, er himinninn kolsvartur eftir sólsetur. Undir svo dimmum himni geta menn lagt stund á bestu stjörnuathuganir í heiminum í 2.400 metra hæð yfir sjávarmáli. Næturhiminninn yfir La Silla stjörnustöð ESO er ótrúlega tær. En jafnvel á þessum afskekkta, hálæga og þurra stað er veðrið sem fylgir vetrarmánuðunum ekki umflúið. Stundum leggst snjór yfir fjallstindinn og sjónaukana.

Á þessari mynd er heldur vetrarlegt á La Silla undir stjörnum Vetrarbrautarinnar, slæðunni sem liggur yfir myndina. Frá vinstri til hægri eru 3,6 metra sjónauki ESO, 3,58 metra New Technology Telescope (NTT), 1 metra Schmidt sjónauki ESO og 2,2 metra MPG/ESO sjónaukinn sem er með snjó á þakinu. Gegnt 3,6 metra sjónauka og ESO sést litla hvolfþakið yfir Coudé Auxiliary Telescope, sem ekki er lengur í notkun, og milli hans og NTT eru vatnstankar stjörnustöðvarinnar.

Þótt snjórinn á La Silla komi mörgum spánskt fyrir sjónir er bæði mjög hlýtt og mjög kalt yfir árið og stundum verður veðrið slæmt.

Myndina tók José Francisco Salgado, einn af ljósmyndurum ESO.


« Fyrri 1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 Næsta »
Niðurstöður 21 til 40 af 102
Bookmark and Share

Sjá einnig