Fréttatilkynningar 2010

Subscribe to receive news from ESO in your language!
eso1030is — Fréttatilkynning
300 sólmassa risastjarna uppgötvuð
21. júlí 2010: Stjörnufræðingar hafa með hjálp nokkurra mælitækja Very Large Telescope ESO fundið massamestu stjörnuna hingað til. Hún myndaðist með 300 sinnum meiri massa en sólin okkar. Þetta er rúmlega tvöfalt meiri massi en hin viðteknu mörk segja til um en samkvæmt þeim geta stjörnur ekki verið mikið meira en 150 sólmassar. Þessar risastjörnur gefa frá sér nokkrum milljón sinnum meiri orku en sólin okkar og missa massa með öflugum stjörnuvindum. Þær gætu hjálpað okkur að svara spurningunni hve massamiklar stjörnur geta orðið.
eso1029is — Fréttatilkynning
Undið ofan af ráðgátunni um myndun massamikilla stjarna
14. júlí 2010: Í fyrsta sinn hafa stjarnvísindamenn náð myndum af rykskífu sem umlykur unga, massamikla stjörnu og um leið fundið fyrstu beinu sönnunargögn þess efnis að massamiklar stjörnur myndist á samskonar hátt og smærri stjörnur. Uppgötvunin var gerð fyrir tilstilli sjónauka ESO en greint er frá henni í nýjasta hefti tímaritsins Nature.
eso1028is — Fréttatilkynning
Svarthol blæs stóra kúlu
7. júlí 2010: Með hjálp mælinga sem gerðar voru með Very Large Telescope ESO og Chandra röntgengeimsjónauka NASA hafa stjörnufræðingar fundið öflugustu stróka sem sést hafa frá litlu svartholi. Fyrirbærið, sem nefna mætti ördulstirni, blæs frá sér risastórri og heitri gaskúlu, 1000 ljósár í þvermál, sem er tvöfalt stærri og nokkrum tugum sinnum öflugri en önnur ördulstirni. Frá þessu er greint í nýjasta hefti tímaritsins Nature.
eso1027is — Fréttatilkynning
Vatnslitir R Coronae Australis
30. júní 2010: Þessi glæsilega mynd af svæðinu í kringum stjörnuna R Coronae Australis var búin til úr myndum sem teknar voru með Wide Field Imager (WFI) í stjörnustöð ESO í La Silla. R Coronae Australis er í hjarta nálægs stjörnumyndunarsvæðis og er umlukin fallegri blárri endurskinsþoku innan í stóru rykskýi. Á myndinni sjást ný og ævnt smáatriði á þessu tilþrifamikla svæði himinhvolfsins.
eso1026is — Fréttatilkynning
VLT greinir ofurstorm á fjarreikistjörnu
23. júní 2010: Í fyrsta sinn hafa stjörnufræðingar mælt ofurstorm í lofthjúpi fjarreikistjörnu, heita gasrisans HD209458b. Gerðar voru mjög nákvæmar mælingar á kolmónoxíðgasi sem sýna hvernig það streymir með ógnarhraða frá heitri daghliðinni yfir á kaldari næturhlið reikistjörnunnar. Stjörnufræðingunum tókst líka í fyrsta sinn að mæla brautarhraða reikistjörnunnar en hann gerir okkur kleift að ákvarða massa hennar nákvæmlega.
eso1025is — Fréttatilkynning
VISTA skoðar Myndhöggvaraþokuna
16. júní 2010: Glæsileg ný ljósmynd af Myndhöggvaraþokunni (NGC 253), sem tekin var með VISTA sjónauka ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile, er hluti eins fyrsta stóra kortlagningarverkefnis sjónaukans. VISTA horfir í gegnum ryk vetrarbrautarinnar með innrauðu ljósi og sér þannig fjölda kaldra stjarna auk áberandi bjálka sem gengur þvert í gegnum miðjuna. Á mynd VISTA eru nýjar upplýsingar um þróunarsögu þessarar forvitnilegu vetrarbrautar.
eso1024is — Fréttatilkynning
Fjarreikistjarna á hreyfingu
10. júní 2010: Í fyrsta sinn hafa stjörnufræðingar náð að fylgjast með fjarreikistjörnu færast frá einni hlið móðurstjörnunnar til hinnar. Af öllum þeim fjarreikistjörnum sem hafa verið ljósmyndaðar hingað til er sú sem hér um ræðir á minnstu brautinni en hún er álíka langt frá móðurstjörnunni eins og Satúrnus er frá sólinni. Vísindamenn telja því að hún gæti hafa myndast á svipaðan hátt og gasrisarnir í sólkerfinu okkar. Móðurstjarnan er ung og því sýnir þessi uppgötvun að gasrisar geta myndast í rykskífum á örfáum milljónum ára, á augnabliki í samanburði við aldur alheimsins.
eso1023is — Fréttatilkynning
Nýr þjóðarsjónauki á La Silla
8. júní 2010: Nýr fjarstýrður sjónauki hefur verið tekinn í notkun í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. TRAPPIST (TRAnsiting Planets and Planetesimals Small Telescope) er helgaður rannsóknum á sólkerfum á tvennan máta: Að finna og greina reikistjörnur utan okkar sólkerfis (fjarreikistjörnur) og hins vegar til rannsókna á halastjörnum á braut um sólina okkar. Sjónaukinn er 60 cm breiður og er starfræktur frá stjórnstöð í Liège í Belgíu, 12.000 km í burtu.
eso1022is — Fréttatilkynning
Raymond Wilson sjónaukahönnuður hjá ESO hlýtur hin virtu Kavli verðlaun í stjarneðlisfræði
4. júní 2010: Raymond Wilson, frumherji í rannóknum á sjóntækjum hjá ESO sem gerði risasjónauka nútímans mögulega með tækni sem kallast „virk sjóntæki“, hefur hlotið Kavli verðlaunin í stjarneðlisfræði árið 2010. Wilson stofnaði og leiddi sjóntækja- og sjónaukahóp ESO og deilir verðlaununum, einni milljón dollara, með tveimur bandarískum vísindamönnum, þeim Jerry Nelson og Roger Angel.
eso1021is — Fréttatilkynning
Stjarnfræðilegur dýragarður í Stóra Magellanskýinu
1. júní 2010: Stjörnufræðinga beina oft á tíðum sjónaukum sínum að Stóra Magellanskýinu, einni nálægustu nágrannavetrarbraut okkar, í viðleitni sinni til að skilja alheiminn. Á þessari nýju og glæsilegu ljósmynd sem tekin var með Wide Field Imager (WFI) í stjörnustöð ESO á La Silla í Chile, sést ógrynni furðulegra fyrirbæra í Stóra Magellanskýinu, allt frá stórum kúluþyrpingum til leifa bjartra sprengistjarna. Myndin kemur að góðum notum í fjölmörg rannsóknarverkefni um líf og dauða stjarna og þróun vetrarbrauta.
eso1020is — Fréttatilkynning
Ný og skýr sýn á klassíska þyrilþoku
19. maí 2010: ESO hefur birt fallega innrauða ljósmynd af Messier 83, nálægri vetrarbraut, sem tekin var með HAWK-I myndavélinni á Very Large Telescope (VLT) ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile. Myndin er sú skarpasta og nákvæmasta sem tekin hefur verið af þessari vetrarbraut af jörðu niðri og sýnir vel hina miklu getu myndavélarinnar.
eso1019is — Fréttatilkynning
Þyrping og hafsjór vetrarbrauta
5. maí 2010: ESO birtir í dag nýja mynd af mörg þúsund fjarlægum vetrarbrautum og stórri og massamikilli vetrarbrautaþyrpingu sem kallast Abell 315. Þótt þarna sýnist mikið kraðak er það sem hér sést aðeins brot af heildinni því Abell 315 inniheldur miklu meira magn af ósýnilegu hulduefni eins og allar aðrar vetrarbrautaþyrpingar. Þyrpingin er svo massamikil að hún sveigir ljós frá vetrarbrautum í bakgrunni og bjagar myndina af þeim.
eso1018is — Fréttatilkynning
E-ELT fundinn staður
26. apríl 2010: Þann 26. apríl 2010 ákvað stjórn ESO að hinn fyrirhugaði 42 metra European Extremely Large Telescope (E-ELT) skyldi byggður á Cerro Armazones, 3.060 metra háum fjallstindi í miðhluta Atacamaeyðimerkurinnar í Chile, um 130 kílómetrum suður af borginni Antofagasta og um 20 kílómetrum frá Cerro Paranal þar sem Very Large Telescope ESO er að finna.
eso1017is — Fréttatilkynning
VISTA kannar leyndardóm kattarins
21. apríl 2010: NGC 6334, sem stundum er nefnd Kattarloppuþokan, er gríðarstór myndunarstaður hundruð massamikilla stjarna. Á nýrri og glæsilegri mynd ESO, sem tekin var með Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (VISTA) í Paranal stjörnustöðinni í Chile, sést hvernig innrautt ljós frá ungum stjörnum brýst í gegnum glóandi gas og ryk sem alla jafna er ógegnsætt.
eso1016is — Fréttatilkynning
Kenningu um reikistjörnur snúið á hvolf
13. apríl 2010: Á ráðstefnu Royal Astronomical Society (NAM2010) í dag var tilkynnt um uppgötvun á níu nýjum fjarreikistjörnum sem allar fundust með þvergönguaðferðinni. Þegar þessar nýju uppgötvanir voru bornar saman við eldri mælingar sáu stjörnufræðingar að 6 af 27 reikistjörnum snerust í öfuga átt miðað við snúningsstefnu móðurstjörnunnar — öfugt við það sem við sjáum í sólkerfinu okkar — og kom það stjörnufræðingum mjög á óvart. Þessar uppgötvanir hafa áhrif á kenningar sem lýsa myndun reikistjarna. Þær benda líka til þess að reikistjörnur á borð við jörðina séu ólíklegri í sólkerfum sem innihala svonefnda heita gasrisa.
eso1015is — Fréttatilkynning
Metan og kolmónoxíð í sumarhimni Trítons
7. apríl 2010: Samkvæmt fyrstu innrauðu mælingunum á lofthjúpi Trítons, fylgitungls Neptúnusar, stendur sumar sem hæst á suðurhveli tunglsins. Með hjálp Very Large Telescope ESO fundu evrópskir stjörnufræðingar metan í örþunnum lofthjúpi Trítons og gerðu á því fyrstu mælingarnar. Þær sýna að lofthjúpurinn tekur árstíðabundnum breytingum og þykknar þegar hlýnar á yfirborði tunglsins.
eso1014is — Fréttatilkynning
Björtu og dökku hliðar stjörnumyndunarsvæðis
31. mars 2010: Í dag birtir ESO mynd af Gum 19, lítt þekktri og daufri geimþoku sem í innrauðu ljósi virðist dökk öðru megin en björt hinumegin. Blár reginrisi sem kallast V391 Velorum lýsir upp aðra hlið þokunnar. Í þessu bjarta og dökka skýi sem vefur sig um vinstri hlið V391 Velorum stendur stjörnumyndun yfir. Eftir árþúsundir munu nýju stjörnurnar og endalok V391 Velorum sem sprengistjörnu breyta þessari Janusarásýnd Gum 19.
eso1013is — Fréttatilkynning
Hvers vegna missa margar kortlagningar á vetrarbrautum af 90% viðfangsefna sinna? Lausnin fundin.
24. mars 2010: Stjörnufræðingar hafa lengi vitað að við margar kortlagningar á hinum fjarlæga alheimi kemur nokkuð stór hluti vetrarbrauta ekki fram í gögnunum. Með tveimur af fjórum 8,2 metra sjónaukum Very Large Telescope og sérsmíðuðum ljóssíum hafa stjörnufræðingar fundið út að ljós frá vetrarbrautum í um 10 milljarða ljósára fjarlægð frá okkur, hefur hreinlega ekki komist til okkar. Í rannsókninni fundust líka nokkrar af fjarlægustu vetrarbrautum sem fundist hafa svo snemma í sögu alheimsins.
eso1012is — Fréttatilkynning
APEX nær fyrstu nærmyndinni af stjörnumyndunarsvæðum í hinum fjarlæga alheimi
21. mars 2010: Stjörnufræðingar hafa í fyrsta sinn mælt stærð og birtu stjörnumyndunarsvæða í mjög fjarlægri vetrarbraut þökk sé uppgötvun sem gerð var fyrir slysni með APEX sjónaukanum. Vetrarbrautin er svo fjarlæg að ljós hennar hefur verið nærri tíu milljarða ára að berast til okkar. Þyngdarlinsa magnar ljós hennar og gerir okkur kleift að sjá nærmynd af henni sem ella væri óhugsandi. Þessi heppilega uppröðun gerir okkur kleift að sjá mikla hrinu stjörnumyndunar snemma í sögu alheims þegar stjörnur mynduðust hundrað sinnum hraðar en í yngri vetrarbrautum. Greint er frá rannsókninni í tímaritinu Nature.
eso1011is — Fréttatilkynning
Fyrstu nákvæmu mælingarnar á tempraðri fjarreikistjörnu
17. mars 2010: Stjörnufræðingar hafa með hjálp CoRoT gervitunglsins og HARPS litrófsrita ESO gert fyrstu nákvæmu mælingarnar á „venjulegri“ fjarreikistjörnu. Reikistjarnan nefnist Corot-9b og gengur hún reglulega fyrir stjörnu sem líkist sólinni en er í 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Höggorminum.
Niðurstöður 21 til 40 af 50