ALMA

Leitin að uppruna okkar í alheiminum

Artist impression of the Atacama large Millimetre ArrayHátt á Chajnantor sléttunni í Andesfjöllunum í Chile eru ESO og alþjóðlegir samstarfsaðilar að koma upp ALMA – sjónaukaröð í hæsta gæðaflokki sem kanna á ljós köldustu fyrirbæra alheims. Þessi fyrirbæri gefa frá sér geislun sem fellur milli innrauðs ljóss og útvarpsbylgna og er þess vegna nefnd millímetra- og hálfsmillímetra-geislun.

Ljós með þessa bylgjulengd má rekja til stórra og kaldra þoka í geimnum sem eru aðeins nokkra tugi gráða yfir alkuli og frá elstu og fjarlægustu vetrarbrautum alheims. Stjörnufræðingar nota þessar bylgjulengdir til að kanna efna- og eðlisfræðilegar aðstæður í þessum þéttu gas- og rykskýjum þar sem nýjar stjörnur myndast. Oftar en ekki eru þessi ský svört því þau hleypa sýnilegu ljósi ekki í gegn en skína þess í stað skært á millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdum rafsegulrófsins.

Með því að rannsaka hálfsmillimetra bylgjulengdir opnast gluggi út í kaldan, rykugan og fjarlægan alheim. Vatnsgufan í lofthjúpi jarðar dregur að mestu leyti í sig þessa geislun. Þess vegna eru sjónaukar eins og ALMA byggðir á háum, þurrum stöðum eins og Chajnantor sléttunni, sem er meira en 5.000 metra há og því ein hæsta stjörnustöð jarðar.

Artist impression of the Atacama large Millimetre ArrayALMA (Atacama Large Millimeter/submillimeter Array) er stærsta stjarnvísindaverkefni sem til er. ALMA er rúma 50 km austan við San Pedro de Atacama í norðurhluta Chile, á einum þurrasta stað jarðar. Þar eru aðstæður til rannsókna í stjarnvísindum sérstaklega heppilegar en um leið mjög erfiðar, hæðarinnar vegna. Chajnantor er meira en 750 metrum hærri en stjörnustöðvarnar á Mauna Kea og 2.400 metrum hærri en Very Large Telescope á Cerro Paranal.

ALMA er byltingarkennd risaröð 66 loftneta sem mæla geislun með 0,3 til 9,6 mm bylgjulengdir. Af þessum 66 loftnetum mynda fimmtíu 12 metra loftnet víxlmæli. Að auki verða fjögur önnur 12 metra lotnet og 12 sjö metra loftnet notuð til að fínstilla röðina. Hægt verður að færa öll loftnetin til yfir 150 metra til 16 km breitt svæði. Þannig getur ALMA „þysjað“ að þeim fyrirbærum sem verið er að rannsaka. ALMA á að kanna alheiminn í millimetra og hálfsmillimetra bylgjulengdum með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr. Sjónaukaröðin nær allt að tíu sinnum skarpari myndum en Hubblessjónaukinn eog verða myndir frá VLT víxlmælinum notaðar til að gera þær enn betri.

Smíði ALMA verður lokið árið 2013 en fyrstu rannsóknir hefjast þegar röðin er að hluta til tilbúin í kringum árið 2011.

ALMA er samstarfsverkefni Evrópu, Japans, Norður-Ameríku og Chile. Í Evrópu er verkefnið fjármagnað af ESO, í Norður Ameríku af National Science Foundation (NSF) í samstarfi við National Research Council of Canada (NRC) og National Science Council of Taiwan (NSC) og í austur Asíu af National Insitutes of Natural Sciences (NINS) í Japan í samstarfi við Academia Sinica (AS) í Taívan. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO), sem lýtur stjórn Associated Universities, Inc. (AUI), fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vefsíðu ALMA eða á vef ESO um ALMA.

Fleiri myndir og myndskeið má finna í margmiðlunarsafni ESO.

ALMA stikla