La Silla

Fyrsta stjörnustöð ESO


La Silla

Stjörnustöðin á La Silla hefur verið höfuðvígi ESO frá því upp úr 1960. Stjörnustöðin er um 600 km norður af Santiago, höfuðborg Chile, í 2.400 metra hæð yfir sjávarmáli. Hér hefur ESO starfrækt nokkra afkastamestu 4 metra sjónauka heims.

Hönnun og smíði 3,5 metra New Technology Telescope (NTT) markaði þáttaskil í hönnun og smíði stjörnusjónauka. Hann var sá fyrsti í heiminum með tölvustýrðan safnspegli (virk sjóntæki). Þessi tækni var þróuð af ESO og er nú notuð í flestum stærstu stjörnusjónaukum heims.

La SillaÁ 3,6 metra ESO sjónaukanum er litrófsritinn HARPS (High Accuracy Radial velocity Planet Searcher) sem skilað hefur bestum árangri allra mælitækja á jörðinni í leit að fjarreikistjörnum.

Stjörnustöðin á La Silla er fyrsta stjörnustöð heims til að hljóta alþjóðlega staðalinn ISO 9001 fyrir gæðastjórnun (International Organization for Standardization 9001 Quality Management System). Á La Silla hafa mörg aðildaríki nýtt sér innviðina og komið upp nýjum sjónaukum og tækjum eins og t.d. svissneska 1,2 metra Leonhard Euler Telescope, Rapid-Eye Mount Telescope (REM), TAROT gammablossanemann, 2,2 metra MPG/ESO sjónaukann og danska 1,5 metra sjónaukann. Á Max Planck sjónaukanum er 67 milljón pixla gleiðhornsmyndavél sem tekið hefur ótalmargar fallegar ljósmyndir af fyrirbærum næturhiminsins.

Ár hvert birtast nærri 300 ritrýndar vísindagreinar sem byggja á gögnum frá stjörnustöðinni á La Silla. Á La Silla hefur fjöldi uppgötvana verið gerðar. HARPS-litrófsritinn er óumdeilanlegur sigurvegari í leit að massalitlum fjarreikistjörnum. Með HARPS fundu menn sólkerfið umhverfis Gliese 581 sem inniheldur hugsanlega fyrstu bergreikistjörnuna sem finnst í lífbelti stjörnu utan okkar sólkerfis (eso0722). Nokkrir sjónaukar á La Silla hafa leikið lykilhlutverk í að tengja gammablossa – orkuríkustu sprengingar alheims frá Miklahvelli – við endalok massamikilla stjarna. Frá árinu 1987 hefur La Silla gegnt veigamiklu hlutverki í rannsóknum á nálægustu nýlegu sprengistjörnunni, SN 1987A.

Stjörnustöðin á La Silla er í útjaðri Atacamaeyðimerkurinnar í Chile, eins þurrasta og eyðilegasta svæði jarðar. La Silla er fjarri ljósmenguðum þéttbýlissvæðum Chile líkt og aðrar stjörnustöðvar þessa landsvæðis. La Silla, ásamt Paranal-stjörnustöðinni, býr yfir einum myrkasta næturhimni á jörðinni.

Ítarlegri upplýsingar um mælitækin á La Silla er að finna á annarri síðu og á sérstakri síðu um mælitækin.

Fleiri myndir og myndskeið er að finna í margmiðlunarsafni ESO.

La Silla stiklan

Sæktu La Silla stikluna í myndskeiðasafninu

La Silla á Google Maps