Svipmynd af ESO

Stjörnufræði er sennilega elsta vísindagreinin. Vafalaust hefur fólki á öllum aldri í öllum menningarsamfélögum þótt útsýnið í átt að Vetrarbrautinni mikilfenglegt, þar sem hún teygir sig tignarlega þvert yfir heiðskíran næturhiminn. Mikil gróska er nú í stjörnufræði enda nýta stjarnfræðingar sér nútímatækni til hins ítrasta. Því eru spennandi tímar framundan. Hátæknin gerir okkur nú kleift að rannsaka fyrirbæri á mörkum hins sýnilega alheims og leita eftir reikistjörnum umhverfis fjarlægar sólstjörnur. Loks getum við reynt að svara þeirri grundvallarspurningu sem hrífur okkur öll: Erum við ein í alheiminum?

ESO eru fremstu fjölþjóðlegu vísinda- og tæknisamtök heims í stjörnufræði. Hjá ESO er unnið að metnaðarfullum verkefnum sem lúta að þróun, smíði og rekstri öflugustu stjörnustöðva heims sem leggur grunn að mikilvægum vísindauppgötvunum. ESO leikur líka lykilhlutverk í að koma á samstarfi manna og þjóða í stjarnvísindum.

Í Atacamaeyðimörkinni í Chile rekur ESO þrjár stjörnustöðvar í hæsta gæðaflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Fyrsta stjörnustöð ESO var reist á La Silla sem er 2400 metra hátt fjall um 600 km norðan Santiago, höfuðborgar Chile. Þar eru nokkrir stjörnusjónaukar með allt að 3,6 metra breiðum safnspeglum. New Technology Telescope er 3,5 metra breiður sjónauki, sá fyrsti í heiminum með tölvustýrðum safnspegli. Hönnun hans og smíði markaði þáttaskil í hönnun sjónauka. Þessi tækni, sem ESO þróaði, er nú notuð í flestum stærstu stjörnusjónaukum heims. Á 3,6 metra ESO sjónaukanum er litrófsritinn HARPS (High Accuracy Radial velocity Planet Searcher) sem skilað hefur mestum árangri í leit að fjarreikistjörnum.

Þótt La Silla sé enn í fararbroddi í stjarnvísindum, og enn næst afkastamesta stjörnustöð heims, eru Very Large Telescope (VLT) Paranal-sjörnustöðvarinnar flaggskip evrópskrar stjörnufræði. Paranal er 2600 metra hátt fjall, um 130 km suður af Antofagasta í Chile og 12 km frá Kyrrahafsströndinni, á einum þurrasta stað jarðar. Vísindastörf hófust á Paranal árið 1999 og hafa þau getið af sér fjölmörg velheppnuð rannsóknarverkefni.

VLT eru harla óvenjulegir sjónaukar, byggðir á nýjustu tækni. VLT er röð fjögurra 8,2 metra breiðra sjónauka. Með einum þeirra hafa stjörnufræðingar náð myndum af fyrirbæri af birtustigi 30 með aðeins klukkustundar löngum lýsingartíma. Þetta fyrirbæri er fjórum milljörðum sinnum daufara en greina má með berum augum.

Með VLT má mynd einn risavaxinn víxlmæli (VLT Interferometer eða VLTI). Ljósinu sem sjónaukarnir safna (1,8 metra hjálparsjónaukarnir líka, en þeir eru fjórir talsins) er þá öllu beint í einn brennipunkt. Þannig hafa sjónaukarnir álíka skarpa sýn á alheiminn og sjónauki sem er jafn stór og bilið milli tveggja fjarlægustu speglanna, sem getur orðið allt að 200 metrar.

Árlega berast ESO í kringum 2000 umsóknir um rannsóknir með sjónaukunum, fjórum til sex sinnum fleiri en hægt er að sinna. ESO er afkastamesta stjörnustöð veraldar sem leiðir árlega til fjölmargra birtinga í ritrýndum vísindatímaritum: Árið 2013 birtust 840 ritrýndar vísindagreinar sem byggðu á gögnum frá ESO. Það sem meira er er vitnað í greinar sem byggja á gögnum VLT tvisvar sinnum oftar en meðaltalið. Hinar afkastamiklu „vísindavéla“ ESO framleiða nú gríðarlegt magn af gögnum á miklum hraða. Gögnin eru geymd í Science Archive Facility í höfuðstöðvum ESO. Gagnasafnið inniheldur nú meira en 10 milljónir ljósmynda eða litrófa og í heild um 200 terabæt (200.000.000.000.000) af gögnum. Þetta samsvarar innihaldi um 90 milljón 1000 blaðsíðna bóka; þær tæku meira en 3000 km af hilluplássi.

Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) er stærsta stjörnustöð jarðar. ALMA samanstendur af 66 12 og 7 metra breiðra loftneta, ætluð til rannsókna á millimetra og hálfsmillimetra bylgjulengdum. Mælingar með ALMA hófust árið 2011 en stjörnustöðin var formlega tekin í notkun árið 2013. ALMA er ein hæsta stjörnustöð heims í yfir 5000 metra hæð yfir sjávarmáli á Llano de Chajnantor hásléttunni. ALMA er samstarfsverkefni ESO, þjóða í austanverðri Asíu og Norður-Ameríku og Chile. Á Chajnantor er líka 12 metra APEX millimetra og hálfsmillimetra sjónaukinn sem ESO rekur fyrir hönd Onsala Space Observatory og Max Planck Institut für Radio Astronomy.

Næsta skref er smíði 39 metra risasjónauka, Extremely Large optical/infrared Telescope (ELT). ELT verður stærsti stjörnusjónauki heims — stærsta auga jarðar. ELT á að veita svör við mörgum mikilvægustu spurningum nútíma stjarnvísinda. Hann mun að lokum bylta sýn okkar á alheiminn rétt eins og sjónauki Galíleós gerði fyrir rúmum 400 árum. Fyrirhugað er að hefja smíði ELT síðla árs 2014 og er gert ráð fyrir að rannsóknir hefjist snemma næsta áratug.

Höfuðstöðvar ESO (vísinda-, tækni- og þjónustumiðstöðvar samtakanna) eru staðsettar í Garching nærri Munchen í Þýskalandi.