ann12032-is — Tilkynning

ESO gerir samning um þróun aðlögunarsjóntækja E-ELT

22. maí 2012

ESO hefur færst skrefi nær smíði European Extremely Large Telescope (E-ELT) með samningi sem undirritaður hefur verið um forhönnun á fjórða spegli (M4) aðlögunarsjóntækja E-ELT [1] við AdOptica samstarfið, sem samanstendur af ADS International (Ítalíu) og Microgate (Ítalíu). Spegillinn verður merkur áfangi í þróun aðlögunarsjóntækja því hann verður stærsti aðlögunarspegill sem smíðaður hefur verið. Hann er nauðsynlegur svo unnt verði að nýta getu E-ELT til fulls og gera stjörnufræðingum kleift að gera stórar uppgötvanir næsta áratug.

M4 spegillinn er hluti af aðlögunarsjóntækjakerfi E-ELT sem sér um að leiðrétta óskýrar myndir sem hljótast af ókyrrð í lofthjúpi jarðar og áhrif vinds á stuðningskerfi sjónaukans. Þegar þessum merkilega, sveigjanlega spegli verður komið fyrir í sjónaukanum gerir hann E-ELT kleift að ná fræðilegri hámarksupplausn [2].

M4 spegillinn verður um 2,5 metrar í þvermál en aðeins 2 millímetrar að þykkt svo hægt er að sveigja hann líkt og filmu. Undir honum verða meira en fimm þúsund hljóðspólupumpur [3] sem aflaga spegilinn allt að þúsund sinnum á sekúndu og vega þannig upp á móti bjögun lofthjúps jarðar. Þessi tækni hefur verið notuð með góðum árangri í sambærilegum en smærri aðlögunarspeglum, eins og í 1,1 metra aukaspegli Very Large Telescope (VLT) (ann12015).

Smíði og prófanir á E-ELT M4 speglinum og stjórnkerfi hans er tæknilega mjög erfið. Hann verður tvisvar sinnum stærri en aukaspegill VLT — sem sjálfur er stærsti aðlögunarspegill sem til er — og lýtur stjórn næstum fimm sinnum fleiri pumpa. Auk þess þarf að stjórna hverri einustu pumpu mjög nákvæmlega.

Það er ekki aðeins vandasamt verk að smíða kerfið svo það mæti tæknilegum kröfum heldur þarf M4 speglakerfið líka að vera áreiðanlegt og auðvelt í viðhaldi.

Spegillinn er nauðsynlegur svo hægt sé að stilla sjónaukann rétt: Á næturnar þarf reglulega að stilla sjóntæki risasjónauka eins og E-ELT. M4 spegillinn verður hraðasta sjóntæki E-ELT og nauðsynlegur til að lagfæra misstillingu milli allra annarra spegla sjónaukans.

Samningurinn sem nýlega var undirritaður nær yfir forhönnunarfasann sem stendur yfir næstu 18 mánuði. Næstu átta ár munu fyrirtækin sem taka þátt í þróuninni standa frammi fyrir því krefjandi verkefni að smíða og prófa þetta hátæknilega aðlögunarsjóntækjakerfi, sem mun gera E-ELT kleift að ná betri myndgæðum en áður hafa náðst á sýnilegum og innrauðum bylgjulengdum.

Skýringar

[1] Í heild tekur hönnun og smíði M4 spegilkerfisins níu ár. Undanfarin fjögur ár hafa tveir samningar verið undirritaðir, annars vegar við CILAS/AMOS/Onera (Frakklandi og Belgíu) og hins vegar við Microgate/ADS/Sagem (Ítalíu og Frakklandi) um smíði á tveimur frumgerðum og föstum tilboðum í hönnun og smíði lokaútgáfunnar.

[2] Fræðilega séð takmarkar aðeins stærð safnspegilsins upplausn sjónauka; því stærri sem speglarnir eru því betri eru mælingarnar. Þessi hæsta mögulega upplausn er þekkt sem skerputakmörk. Aftur á móti hafa sjónaukar á jörðinni alla jafna mun minni upplausn vegna bjögunar sem hlýst af ferðalagi ljósgeisla í gegnum lofthjúp jarðar og stjörnufræðingar kalla „stjörnuskyggni“. Hægt er að draga úr þessum áhrifum án þess þó að eyða þeim alveg, með því að staðsetja sjónauka á stöðum þar aðstæður eru ákjósanlegastar, eins og til dæmis í Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Til að losna við áhrif lofthjúpsins og gera sjónaukunum kleift að fullnýta getu sína, þurfa sjónaukar að hafa sjóntækjakerfi sem vegur upp á móti bjögun lofthjúpsins. Í aðlögunarsjóntækjum er lögun spegla breytt í rauntíma í samræmi við áhrif lofthjúpsins. Fjörutíu metra sjónauki eins og E-ELT verður að starfa við diffraction limit til að nýta hann til fulls. Með aðlögunarsjóntækjum mun E-ELT gera 500 sinnum betri mælingar en fást við bestu mögulegu aðstæður á jörðinni, án aðlögunarsjóntækja.

[3] Hljóðspólupumpur eru sérstakir rafmótorar sem hreyfa hluti til með nákvæmni upp á milljónasta úr millímetra yfir takmarkað bil. Þær eru nefndar eftir samskonar spólum sem finna má í hátölurum.

Tenglar

Tengiliðir

Marc Cayrel
ESO
Garching bei Muenchen,  Germany
Tel:  +49 89 3200 6685
Email: mcayrel@eso.org

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 15 37 35 91
Email: rhook@eso.org

Um tilkynninguna

Auðkenni:ann12032

Myndir

Teikning af aðlögunarsjóntækjakerfi E-ELT
Teikning af aðlögunarsjóntækjakerfi E-ELT
Frumgerð hluta aðlögunarsjóntækjakerfis E-ELT
Frumgerð hluta aðlögunarsjóntækjakerfis E-ELT