ann12036-is — Tilkynning

Reinhard Genzel hlýtur Tycho Brahe verðlaunin 2012

30. maí 2012

Stjarnvísindafélag Evrópu [1] hefur veitt prófessor Reinhard Genzel Tycho Brahe verðlaunin árið 2012. Verðlaunin hlýtur hann fyrir framlag sitt til evrópskra nær-innrauðra mælitækja og rannsókna á vetrarbrautum.

Þýski stjörnufræðingurinn Reinhard Genzel — stjórnandi Max Planck Institute for Extraterrestrial Physics — og samstarfsfólk hans á heiðurinn að SINFONI mælitækinu, nær-innrauðum heilsviðslitrófsrita á Very Large Telescope ESO. Tækið var tekið í notkun árið 2005 og hefur æ síðan vegið þungt í rannsóknum á fjarlægum vetrarbrautum en þó einkum á Vetrarbrautinni okkar.

Undanfarna tvo áratugi hefur hópur Genzels fylgst með stjörnum á hreyfingu í kringum miðju Vetrarbrautarinnar með New Technology Telescope ESO í La Silla stjörnustöðinni og Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni. Með mælingum sínum hafa stjörnufræðingarnir fundið bestu sönnunargögnin hingað til um að í miðjunni sé risasvarthol (eso0846). Niðurstöðurnar hafa gefið mönnum einstakt tækifæri til að rannsaka víxlverkun svartholsins við nágrenni sitt.

Nýlega notaði hópur hans Very Large Telescope ESO og uppgötvaði gasský sem fellur með ógnarhraða í átt að svartholinu. Í fyrsta sinn hafa stjörnufræðingar orðið vitni að því hvernig gasský aflagast þegar risasvartholið í miðri vetrarbrautinni byrjar að tæta það í sig (eso1151).

Tycho Brahe eru árleg verðlaun sem veitt eru fyrir þróun eða nýtingu á evrópskum mælitækjum eða stórar uppgötvanir sem gerðar hafa verið með slíkum tækjum. Verðlaunaféð nemur 6.000 evrum. Þau verða veitt prófessor Reinhard Genzel á geimvísindavikunni EWASS (European Week of Astronomy and Space Science) [2] sem fram fer í Róm 1. til 6. júlí 2012.

Skýringar

[1] European Astronomical Society (EAS), Stjarnvísindafélag Evrópu, var stofnað árið 1990 til að styðja við og breiða út evrópsk stjarnvísindi. Í félaginu eru aðeins stjörnufræðingar en allir evrópskir stjörnufræðingar geta verið meðlimir í því óháð rannsóknarsviði, landi sem þeir starfa í eða uppruna. Félagið býður upp á umræður um alla þætti þróunar stjarnvísinda í Evrópu og eru þau samtök sem láta sig varða hagsmuni evrópskra stjörnufræðinga.

[2] Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um European Week of Astronomy and Space Science (EWASS) 2012, sem áður hét JENAM, hér: http://www.ifsi-roma.inaf.it/ewass2012/

Tenglar

Tengiliðir

Douglas Pierce-Price, Public Information Officer
ESO
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6759
Email: dpiercep@eso.org

Um tilkynninguna

Auðkenni:ann12036

Myndir

Reinhard Genzel, handhafi Tycho Brahe verðlaunanna 2012
Reinhard Genzel, handhafi Tycho Brahe verðlaunanna 2012