Tölvubúnaður ESO í gegnum tíðina — Miklar tækniframfarir

Computing at ESO through the ages
Computing at ESO through the ages
Dragðu græna handfangið til að sjá myndirnar

Á þessu ári fagnar ESO fimmtíu ára afmæli sínu. Til að fagna því sýnum við ykkur svipmyndir af sögu okkar. Einu sinni í mánuði árið 2012 verður mynd vikunnar tileinkuð sérstökum „þá og nú“ samanburði sem sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst undanfarna áratugi í La Silla og Paranal stjörnustöðvunum, skrifstofum ESO í Santiago í Chile og höfuðstöðvunum í Garching við München í Þýskalandi.

Ljósmyndir þessa mánaðar sýna okkur hve miklar breytingar hafa orðið á tölvubúnaði ESO í gegnum tíðina. Á báðum myndum sést austurríski stjörnufræðingurinn Rudi Albrecht fyrir framan tölvukerfi ESO með nokkurra áratuga millibili.

Eldri myndin var tekin árið 1974 í skrifstofum ESO í Santiago í Chile en á henni sést Albrecht með blýant í hönd að skoða kóða fyrir framan fjarrita. Hann er þarna að vinna við hugbúnað fyrir Spectrum Scanner mælitækið á eins metra sjónauka ESO [1] í La Silla stjörnustöðinni. Í Santiago voru gögnin unnin með Hewlett Packard 2116 mínítölvu sem sjá má á bakvið prentarann. Í þessari stóru tölvu var einn örgjörvi og hvorki meira né minna en 16 kílóbæta segulkjarnaminni (!) og voru niðurstöðurnar geymdar á segulbandi sem stjörnufræðingarnir unnu svo frekar í tölvubúnaði sinna stofnana. Til að ráða við skrár sem voru stærri en minni tölvunnar þróaði Albrecht sýndarminniskerfi sem hann lagði til hugbúnaðarmiðstöðvar Hewlett Packard.

Á nýju myndinni sést Albrecht í gagnaverinu í höfuðstöðvum ESO í Garching við München í Þýskalandi sem hýsir og dreifir gögnum frá sjónaukum ESO. Albrecht er fyrir framan rekka sem inniheldur kerfi 40 kjarna, 138 terabæta hörðum diskum og 83 gígabæta RAM — meira en 5 milljón sinnum meira en tækið sem hann notaði árið 1974! Meira að segja spjaldtölvan sem hann heldur á er miklu öflugri en gamla tölvan og kemur í stað blýants og pappírs.

Tölvukerfi ESO hefur þróast í gegnum árin samhliða auknu magni vísindagagna frá sjónaukum stjörnustöðvanna. Framfarir í sjónaukatækni, nemum og tölvubúnaði hafa það í för með sér að stjörnustöðvarnar geta nú framleitt feikilegt magn mynda, litrófa og skráa. Sem dæmi framleiða VST og VISTA kortlagningarsjónaukarnir í Paranal samanlegt meira en 100 terabæt af gögnum á ári. Býsna langt frá dögum segulspóla og 16 kílóbæta minni!

Skýringar

[1] Eins metra sjónauki ESO var tekinn úr notkun árið 1994.

Mynd/Myndskeið

ESO

Um myndasamanburðinn

Auðkenni:potw1223a
Útgáfudagur:Jún 4, 2012, 10:00 CEST

Myndir

Tölvubúnaður ESO í gegnum tíðina
Tölvubúnaður ESO í gegnum tíðina
Tölvubúnaður ESO í gegnum tíðina
Tölvubúnaður ESO í gegnum tíðina