Ris og fall sprengistjörnu

Á nýju og óvenjulegu myndskeiði sést ör birtuaukning og hægfara dofnun sprengistjörnu í vetrarbrautinni NGC 1365. Franski stjörnufræðingurinn Alain Klotz fann sprengistjörnuna, sem var nefnd SN 2012fr, þann 27. október 2012 á myndum sem teknar voru með fjarstýrða sjónaukanum TAROT í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Myndirnar voru settar saman í þetta einstaka myndskeið.

Sprengistjörnur marka ævilok ákveðinna tegunda stjarna. Þær skína óhemju skært í nokkrar vikur, skærar en vetrarbrautirnar sem þær tilheyra, áður en þær dofna hægt og rólega.

Alain Klotz fann sprengstjörnuna 2012fr [1] þann 27. október 2012. Hann vann að birtumælingum á daufum breytistjörnum með TAROT (Télescope á Action Rapide pour les Transitoires), fjarstýrðum sjónauka í La Silla stjörnustöð ESO, þegar hann tók eftir fyrirbæri sem ekki hafði sést á myndum sem teknar voru þremur dögum áður. Eftir að hafa beint öðrum sjónaukum og leitað ráða hjá öðrum stjörnufræðingum um allan heim, var loks staðfest að um sprengistjörnu af gerð Ia var að ræða.

Sumar stjörnur eiga sér sambýling, aðra stjörnu sem snúast báðar um sameiginlega massamiðju. Í sumum tilvikum getur önnur stjarnanna verið mjög gamall hvítur dvergur sem stelur efni frá sambýlingnum. Á einhverjum tímapunkti hefur hvíti dvergurinn sankað svo miklu efni að sér frá förunautnum, að hann verður óstöðugur og springur. Þá verður til sprengistjarna af gerð Ia.

Þetta er mjög mikilvæg tegund sprengistjarna því þær veita okkur áreiðanlegustu aðferðina til að mæla fjarlægðir til mjög fjarlægra vetrabrauta snemma í sögu alheims. Þegar vetrarbrautir utan grenndarhópsins eru rannsakaðar verða stjörnufræðingar að finna mjög björt fyrirbæri með þekkta eiginleika sem geta virkað eins og staðalkerti sem hjálpa þeim að kortleggja útþenslu alheimsins. Sprengistjörnur af gerð Ia henta einkar vel til þess, því birta þeirra toppar og dofnar á samskonar hátt í öllum tilvikum. Mælingar á fjarlægðum sprengistjarna af gerð Ia leiddi til uppgötvunar á auknum útþensluhraða alheimsins en fyrir hana voru veitt Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 2011.

Hýsilvetrarbraut þessarar sprengistjörnu er NGC 1365 (sjá einnig potw1037a), falleg bjálkaþyrilvetrarbraut í um 60 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Ofninum. Hún er um 200.000 ljósár að þvermáli og því áberandi innan um allar hinar vetrarbrautirnar í Ofnþyrpingunni. Í gegnum miðja vetrarbrautina liggur stærðarinnar bjálki og er kjarninn í miðju hans. Sprengistjarnan sést auðveldlega rétt fyrir ofan kjarnann á miðri myndinni.

Árið 2012 fundu stjörnufræðingar yfir 200 nýjar sprengistjörnur og var SN 2012fr ein sú bjartasta. Sprengistjarnan var mjög dauf þegar hún sást fyrst þann 27. október 2012 en náði hámarksbirtu 11. nóvember sama ár [2]. Hún sást þá leikandi sem dauf stjarna í gegnum meðalstóra áhugamannasjónauka. Myndskeiðið var sett saman úr nokkrum myndum sem teknar voru yfir þriggja mánaða tímabil frá uppgötvuninni fram í miðjan janúar 2013.

TAROT er 25 sentímetra fjarstýrður stjörnusjónauki sem hægt er að færa til mjög hratt og hefja mælingar á innan við sekúndu. Honum var komið fyrir í La Silla stjörnustöðinni árið 2006 í þeim tilgangi að greina glæður gammablossa. Myndirnar sem sýndu SN 2012fr voru teknar í gegnum bláa, græna og rauða síu.

Skýringar

[1] Sprengistjörnur eru skrásettar eftir árinu sem þeir fundust og með bókstöfum samkvæmt þeirri röð sem þær fundust í á því ári. Það er tilviljun að franskur hópur fann sprengistjörnuna og að hún hafi fengið bókstafina „fr“.

[2] Á þessum tíma var birtustigið 11,9. Hún var því 200 sinnum of dauf til að sjást með berum augum við kjöraðstæður. Ed sprengistjarnan við hámark birtu sinnar og sólin verið í sömu fjarlægð frá athuganda, hefði sprengistjarna verið um það bil 3000 milljón sinnum bjartari en sólin.

Tenglar

Tengiliðir

Alain Klotz
Institut de Recherche en Astrophysique et Planetologie
Toulouse, France
Tel: +33 05 61 55 66 66
Email: alain.klotz@irap.omp.eu

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: rhook@eso.org

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Mynd/Myndskeið:

ESO/IRAP-CNRS-UPS/A.Klotz

Um myndina

Auðkenni:potw1323a
Tungumál:is
Tegund:Háskóli
Útgáfudagur:Jún 10, 2013, 10:00 CEST
Stærð:1580 x 664 px

Um fyrirbærið

Nafn:NGC 1365, SN 2012fr
Tegund:Local Universe : Star : Evolutionary Stage : Supernova
Local Universe : Galaxy : Type : Barred
Fjarlægð:60 milljón ljósár

Myndasnið

Stór JPEG
223,5 KB