Ný mynd af halastjörnunni ISON

Þessi nýja mynd af halastjörnunni C/2012 S1 (ISON) var tekin með TRAPPIST sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO, föstudagsmorguninn 15. nóvember 2013. Halastjarnan ISON fannst í september 2012 og kemst næst sólinni í lok nóvember 2013.

TRAPPIST hefur fylgst með halastjörnunni ISON frá því um miðjan október á þessu ári, með víðbandsljóssíum eins og þeim sem notaðar voru í þessari myndatöku. Sjónaukinn hefur líka notað sérstakar mjóbandssíur sem einangra ljós frá ýmsum gastegundum, en það gerir stjörnufræðingum kleift að telja hversu margar gassameindir losna frá halastjörnunni.

Halastjarnan ISON var fremur kyrrlát þar til 1. nóvember 2013, þegar fyrsta hviðan varð sem tvöfaldaði gasútstreymið frá henni. Þann 13. nóvember, skömmu áður en myndin var tekin, skók önnur stór hviða halastjörnuna og tífaldaði virknina. Nú er halastjarnan nógu björt til að sjást vel með handsjónauka þar sem aðstður leyfa á morgunhimninum í austri. Undanfarnar nætur hefur virknin verið stöðug.

Hviðurnar verða til þegar sólin hitar upp ísinn í smáum kjarna halastjörnunnar þegar hún þýtur í átt að sólu. Hitinn veldur því að ísinn þurrgufar svo halastjarnan varpar miklu magni gass og ryks út í geiminn. Um það leyti sem ISON verður næst sólu þann 29. nóvember (þá í aðeins 1,2 milljón kílómetra hæð — örlítið minna en þvermál sólar!), mun hitinn valda enn frekari uppgufun íss. Um leið gæti kjarninn líka sundrast og sólin þá nánast gereyða henni áður en hún færist frá sólu aftur. Standist ISON af sér ferðalagið framhjá sólinni, gæti hún orðið mjög björt á morgunhimninum.

Myndin er sett saman úr fjórum 30 sekúndna myndum sem teknar voru í gegnum bláar, grænar, rauðar og og nær-innrauðar síur. Halastjarnan færðist miðað við stjörnurnar í bakgrunni þegar myndirnar voru teknar, svo stjörnurnar birtast okkur sem marglita punktar.

TRAPPIST (TRAnsiting Planets and Planetesimals Small Telescope) er helgaður rannsóknum á sólkerfum með tvenns konar hætti. Hann á annars vegar að finna reikistjörnur utan okkar sólkerfis (fjarreikistjörnur) og rannsaka halastjörnur í okkar eigin sólkerfi. Þessum 60 cm þjóðarsjónauka er stýrt frá Liège í Belgíu, 12.000 km í burtu.

Mynd/Myndskeið:

TRAPPIST/E. Jehin/ESO

Um myndina

Auðkenni:potw1346a
Tungumál:is
Tegund:Athuganir
Útgáfudagur:Nóv 18, 2013, 11:00 CET
Stærð:1957 x 1925 px

Um fyrirbærið

Nafn:C/2012 S1 (ISON)
Tegund:Solar System : Interplanetary Body : Comet

Myndasnið

Stór JPEG
1,6 MB

Þysjanleg


Bakgrunnsmynd

1024x768
219,4 KB
1280x1024
427,6 KB
1600x1200
761,5 KB
1920x1200
1,1 MB
2048x1536
1,1 MB

 

Sjá einnig