eso0925is — Fréttatilkynning

Nýtt portrett af vatnslitadýrð Omegaþokunnar

7. júlí 2009

Omegaþokan er stjörnumyndunarsvæði þar sem nýfæddar stjörnur lýsa upp og móta stóran pastellitaðan ævintýraheim gass og ryks, eins og sjá má á nýrri ljósmynd ESO.

Omegaþokan, stundum kölluð Svansþokan, er tignarlegt stjörnumyndunarsvæði í um 5.500 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Bogmanninum. Þessi gas- og rykþoka er 15 ljósár á breidd og hefur hún nýlega getið af sér þyrpingu massamikilla og heitra stjarna. Frá ofvöxnu hvítvoðungunum í þyrpingunni berast sterkir vindar og orkuríkt ljós sem skapar þau mynstur sem sjá má í gasinu og rykinu.

Í gegnum litla stjörnusjónauka minnir þokan marga á omega, seinasta stafinn í gríska stafrófinu. Aðrir sjá svan með áberandi langan en bogin háls en svæðið hefur líka verið kallað skeifan og humarþokan.

Svissneski stjörnufræðingurinn Jean-Philippe Loys de Chéseaux uppgötvaði þokuna í kringum árið 1745. Frakkinn Charles Messier var í leit að halastjörnum þegar hann kom sjálfur auga á þokuna um tuttugu árum síðar og færði hana í fræga skrá sína, þá sautjándu í röðinni. Í gegnum litla sjónauka er Omegaþokan dularfullur, þokukenndur ljósbjálki fyrir framan stjörnur Vetrarbrautarinnar. Fyrstu athugendurnir vissu ekki hvort þetta forvitnilega fyrirbæri væri gasský eða fjarlæg þyrping stjarna sem væru of daufar til að sjá stakar. Árið 1866 notaði William Huggins nýtt stjarnvísindatæki, litrófsrita, til að staðfesta að Omegaþokan var glóandi gasský.

Á nýliðnum árum hafa stjörnufræðingar fundið út að Omegaþokan er ein yngsta og eitt massamesta stjörnumyndunarsvæði Vetrarbrautarinnar. Í henni hófst stjörnumyndun fyrir fáeinum milljónum ára og er enn í gangi í dag. Bjarta gasið á myndinni er lítill hluti af miklu stærri skuggaþoku úr sameindagasi. Rykið sem er svo áberandi á myndinni er leifar heitra og massmikilla stjarna sem hafa endað ævi sína og varpað efni frá sér út í geiminn. Þetta er hráefnið í sólir framtíðarinnar.Þessi nýja mynd var tekin með EMMI mælitækinu á 3,58 metra New Technology Telescope (NTT) ESO í La Silla í Chile. Hún sýnir smáatriði í miðsvæði Omegaþokunnar. Árið 2000 náði SOFI mælitækið á NTT annarri glæsilegri mynd af þokunni í nær-innrauðu ljósi sem gerði stjörnufræðingum kleift að svipta hulunni af áður óþekktum stjörnum. Hubble geimsjónauki NASA og ESA hefur líka náð myndum af smærri hlutum þessarar þoku (heic0305a og heic0206d) í fínum smáatriðum.

Vinstra megin á myndinni er stórt kassalaga ský úr gasi sem liggur yfir glóandi gasi. Rekja má falleg litrbirgði þokunnar til mismunandi gastegunda (mest vetnis en líka súrefnis, niturs og brennisteins) sem glóir af völdum sterkrar útfjólublárrar geislunar heitu ungu stjarnanna í þokunni.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Henri Boffin
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso0925.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso0925is
Legacy ID:PR 25/09
Nafn:Omega Nebula, Swan Nebula
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Milky Way : Nebula : Appearance : Emission
Facility:New Technology Telescope
Instruments:EMMI

Myndir

The Omega Nebula
The Omega Nebula
texti aðeins á ensku
Digitized Sky Survey Image of the Omega Nebula (M 17)
Digitized Sky Survey Image of the Omega Nebula (M 17)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zoom in on the Omega Nebula
Zoom in on the Omega Nebula
texti aðeins á ensku
Pan on the Omega Nebula
Pan on the Omega Nebula
texti aðeins á ensku