eso0931is — Fréttatilkynning

NGC 4945: Ekki svo fjarskyld frænka Vetrarbrautarinnar

2. september 2009

ESO hefur birt nýja og glæsilega ljósmynd af nálægri vetrarbraut sem margir stjörnufræðingar telja að líkist Vetrarbrautinni okkar. Þótt þessi vetrarbraut, sem nefnist NGC 4945, sé á rönd benda athuganir til að stjörnusvermurinn sé þyrilþoka, eins og Vetrarbrautin okkar, með bjarta arma og bjálka í miðjunni. Kjarni NGC 4945 er bjartari og þar leynist líklega risasvarthol sem er að gleypa í sig efni og gefa um leið frá sér orku út í geiminn.

NGC 4945 er í aðeins um 13 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Mannfáknum svo að lítill áhugamannasjónauki nægir til að sjá hana. Hún er fyrirbæri númer 4945 í New General Catalogue stjörnuskránni sem dansk-írski stjörnufræðingurinn John Louis Emil Dreyer tók saman upp úr 1880. Skoski stjörnufræðingurinn James Dunlop er talinn hafa uppgötvað NGC 4945 árið 1826 frá Ástralíu.

Nýja myndin sem birtist í dag af NGC 4945 var tekin með Wide Field Imager (WFI) myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. NGC 4945 sýnist vindlalaga frá okkar sjónarhóli á jörðinni en er í raun og veru skífulaga — breiddin er miklu meiri en þykktin — með arma úr stjörnum og glóandi gasi sem þyrla sér um miðju hennar. Sérstakar ljóssíur sem einangra lit ljóss frá glóandi vetnisgasi voru notaðar við myndatökuna. Því sjást glögglega stjörnumyndunarsvæðin í NGC 4945.

Aðrar mælingar stjörnufræðinga sýna að NGC 4945 hefur virkan vetrarbrautarkjarna. Það þýðir að frá miðbungu hennar berst miklu meiri orka en frá miðbungum rólegri vetrarbrauta eins og okkar. Stjörnufræðingar flokka NGC 4945 því sem Seyfert vetrarbraut eftir bandaríska stjörnufræðingnum Carl K. Seyfert. Árið 1943 skrifaði Seyfert grein þar sem hann lýsti sérkennilegu ljósi sem barst frá kjörnum sumra vetrarbrauta. Síðan hefur stjörnufræðinga grunað að risasvarthol valdi ólgunni í miðju Seyfert vetrarbrauta. Svarthol sjúga til sín gas og ryk og þegar hraði efnisins eykst þegar það nálgast svartholið hitnar efnið og gefur frá sér háorkugeislun, þar á meðal röntgengeisla og útfjólublátt ljós. Flestar stórar þyrilþokur, Vetrarbrautin þar á meðal, hafa risasvarthol í miðjunni þótt mörg þessara ósýnilegu skrímsla séu ekki lengur að „nærast“ á þessu stigi í þróun vetrarbrautanna.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Henri Boffin
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso0931.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso0931is
Legacy ID:PR 31/09
Nafn:NGC 4945
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Spiral
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Spiral galaxy NGC 4945
Spiral galaxy NGC 4945
texti aðeins á ensku
Digitized Sky Survey image of the galaxy NGC 4945
Digitized Sky Survey image of the galaxy NGC 4945
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zoom in on NGC 4945
Zoom in on NGC 4945
texti aðeins á ensku