eso0938is — Fréttatilkynning

Lítill en öflugur nágranni Vetrarbrautarinnar

14. október 2009

Í dag birtir ESO nýja og glæsilega mynd af einni nálægustu nágrannavetrarbraut okkar, Barnardsþokunni eða NGC 6822. Í vetrarbrautinni er nokkuð öflug stjörnumyndun og fjöldi forvitnilegra geimþoka eins og bólan sem sést ofarlega til vinstri á myndinni. Vegna smæðar og sérkennilegrar lögunar flokka stjörnufræðingar NGC 6822 sem óreglulega dvergvetrarbraut. Lögun hennar hjálpar stjörnufræðingum að skilja hvernig vetrarbrautir víxlverka, þróast og gleypa stundum hverja aðra og skilja þá eftir sig stjörnusvermi.

Á þessari nýju mynd ESO glóir Barnardsþokan á bakvið hafsjó stjarna í Vetrarbrautinni okkar í stjörnumerkinu Bogmanninum. Barnardsþokan er hluti af Grenndarhópnum eins og Vetrarbrautin okkar enda í aðeins um 1,6 milljón ljósára fjarlægð frá okkur. Skráarheitið NGC 6822 má rekja til bandaríska stjörnufræðingsins Edward Emerson Barnards sem uppgötvaði þessa dvergvöxnu stjörnuþoku með 125 millímetra linsusjónauka árið 1884.

Stjörnufræðingar tóku þessa mynd með Wide Field Imager (WFI) myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Þótt Barnardsþokan hafi ekki sömu tilþrifamiklu þyrilarma og glóandi miðbungu sem prýðir stórar vetrarbrautir á borð við okkar, Andrómeduþokuna og Þríhyrningsþokuna, er hún engu að síður glæsileg. Rauðleitu geimþokunar á myndinni eru staðir virkrar stjörnumyndunar. Í miðju vetrarbrautarinnar eru kekkir úr massamiklum og heitum stjörnum. Þær senda frá sér efnisbylgjur sem rekast á miðgeimsefnið í kring og mynda glóandi hringlaga form. Á víð og dreif um Barnardsþokuna eru aðrar svipaðar gárur úr heitu efni sem ungar og öflugar stjörnur varpa frá sér.

Barnardsþokan er aðeins um tíundi af stærð Vetrarbrautarinnar og því dvergvetrarbraut. Í henni eru um 10 milljónir stjarna — mun færri en í Vetrarbrautinni okkar sem inniheldur um 400 milljarða stjarna. Í Grenndarhópnum og annars staðar í alheiminum eru dvergvetrarbrautirnar hins vegar mun fleiri en stóru nágrannar þeirra.

Formgerð óreglulegra dvergvetrarbrauta eins og Barnardsþokunnar má rekja til þess að þær gerðust of nærgöngular öðrum vetrarbrautum. Vetrarbrautir eru á stöðugri hreyfingu eins og allt annað í alheiminum. Þær komast stundum mjög nærri öðrum eða fara jafnvel í gegnum aðrar vetrarbrautir. Þéttleiki stjarna í vetrarbrautum er fremur lítill svo fáar eða jafnvel engar stjörnur rekast saman við samrunana. Þyngdarkrafturinn getur hins vegar afmyndað þær mikið. Fjöldi stjarna getur þotið úr hýbýlum sínum í geimnum og að lokum myndað óreglulega dvergvetrarbraut eins og NGC 6822.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Henri Boffin
ESO ELT Press Officer
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso0938.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso0938is
Legacy ID:PR 38/09
Nafn:NGC 6822
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Irregular
Local Universe : Galaxy : Size : Dwarf
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Barnard's Galaxy
Barnard's Galaxy
texti aðeins á ensku
Digitized sky survey image of the galaxy NGC 6822
Digitized sky survey image of the galaxy NGC 6822
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on Barnard’s Galaxy
Zooming in on Barnard’s Galaxy
texti aðeins á ensku