eso0949is — Fréttatilkynning
VISTA: Nýr kortlagningarsjónauki tekinn í notkun
11. desember 2009
Nýr sjónauki — VISTA (the Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy) — hefur verið tekinn í notkun í Paranal stjörnustöð ESO og hafa fyrstu myndirnar verið birtar. VISTA er innrauður kortlagningarsjónauki, sá stærsti í heiminum sem helgaður er kortlagningu himins. Sjónaukinn hefur stóran safnspegil, vítt sjónsvið og mjög næm mælitæki sem munu draga upp nýja mynd af suðurhimninum. Nýjar og glæsilegar myndir af Logaþokunni, miðju Vetrarbrautarinnar og vetrarbrautaþyrpingunni í Ofninum sýna getu sjónaukans vel.
VISTA er nýjasti sjónaukinn í Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í norður Chile. Sjónaukinn er á næsta fjallstindi við Very Large Telescope (VLT) ESO og býr þess vegna við sömu framúrskarandi aðstæður til stjörnuathugana. Enginn spegill í sama stærðarflokki og spegill VISTA er jafn mikið sveigður — frávik hans frá fullkomnu yfirborði er innan við nokkrir þúsundustu hlutar af þykkt mannshárs — og er smíði hans því mikið afrek.
VISTA var þróaður og smíðaður af samtökum átján háskóla í Bretlandi undir forystu Queen Mary, University of London og er hluti af framlagi Breta við inngönguna í ESO en Breska vísinda- og tækniráðið (Science and Technology Council’s UK Astronomy Technology Center; STFC, UK ATC) greiðir fyrir þátttöku þeirra. ESO veitti sjónaukanum formlega viðtöku við athöfn í höfuðstöðvum sínum í Garching í Þýskalandi sem fulltrúar Queen Mary, University of London og STFC sóttu þann 10. desember 2009. Sjónaukinn verður nú starfræktur af ESO.
„VISTA er einstök viðbót við stjörnustöð ESO á Cerro Paranal. Með honum ryðjum við brautina í kortlagningu suðurhiminsins í innrauðum bylgjulengdum og mun hann finna mörg áhugaverð viðfangsefni til frekari rannsókna með Very Large Telescope, ALMA og í framtíðinni European Extremely Large Telescope“ segir Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO.
Á VISTA er þriggja tonna 67 megapixla myndavél með 16 innrauðum ljósnemum. Þessi myndavél spannar stærsta bylgjulengdarsvið allra nær-innrauðra myndavéla hingað til. VISTA rannsakar alheiminn í lengri bylgjulengdum en mannsaugað greinir. Það gerir sjónaukanum kleift að skyggnast inn í köld rykský sem hleypa sýnilegu ljósi ekki í gegn og sjá ljós sem útþensla alheimsins hefur teygt yfir á lengri bylgjulengdir. Til að koma í veg fyrir að myndavélin drukkni í þeirri daufu innrauðu geislun sem berst utan úr geimnum er hún kæld niður í -200 gráður á Celsíus og lokuð á bak við stærsta gler sem er gegnsætt í innrauðu ljósi sem smíðað hefur verið. Hönnun og smíði myndavélarinnar var í höndum samtaka sem í eru meðal annars Rutherford Appelton Laboratory, UK ATC og University of Durham í Bretlandi.
VISTA er stór sjónauki með vítt sjónsvið og getur þess vegna greint daufar ljóstýrur á stóru svæði á himninum hratt. Hver ljósmynd VISTA er tíu sinnum breiðari en sem nemur fullu tungli á himninum en sjónaukinn getur fundið og kortlagt fyrirbæri á öllum suðurhimninum með 40 sinnum meiri nákvæmni en áður hefur verið gert, eins og t.d. Two Micron All-Sky Survey. Þetta mikla stökk í getu er sambærilegt við stökkið frá mannsauganu upp í fyrsta sjónauka Galíleós og mun því leiða í ljós fjölmörg ný fyrirbæri og ítarlegt safn sjaldgæfra og forvitnilegra fyrirbæra á suðurhimninum.
„Við erum hæstánægð að veita stjarnvísindamönnum aðgang að VISTA sjónaukanum. Gæði gagnanna eru framúrskarandi þökk sé öllum þeim stjarnvísindamönnum og verkfræðingum sem tóku þátt í þessu spennandi og ögrandi verkefni“ segir Ian Robson, yfirmaður UK ATC.
Fyrsta myndin sem birt er frá VISTA er af Logaþokunni (NGC 2024) og umhverfi hennar, glæsilegu stjörnumyndunarsvæði gass og ryks í stjörnumerkinu Óríon. Séð í sýnilegu ljósi er kjarni þokunnar falinn á bakvið þykk rykský en á mynd VISTA, sem tekin er í innrauðum bylgjulengdum, er hulunni svipt svo í ljós kemur þyrping heitra ungra stjarna. Á víðmynd VISTA sést líka ljós frá NGC 2023 og skuggalegt form Riddaraþokunnar frægu.
Önnur myndin er samsett úr tveimur ljósmyndum VISTA sem teknar voru af miðju Vetrarbrautarinnar í stjörnumerkinu Bogmanninum. Á myndinni sést fjöldi stjarna — á þessari einu mynd eru um ein milljón stjarna — en meirihlutinn er venjulega falinn fyrir aftan þykk rykský og sjást því aðeins í innrauðum bylgjulengdum.
Á þriðju og seinustu myndinni horfum við út fyrir vetrarbrautina okkar á vetrarbrautaþyrpingu í stjörnumerkinu Ofninum. Á víðmynd VISTA sjást margar vetrarbrautir í einu, þar á meðal bjálkaþyrilþokan NGC 1365 og stóra sporvöluþokan NGC 1399.
Tími VISTA fer að mestu í kerfisbundna kortlagningu á suðurhimninum. Sjónaukinn er að hefja sex stórar kortlagningar sem allar hafa ólík markmið og verður fyrstu fimm starfsárum sjónaukans varið í þær. Ein þeirra þekur allan suðurhimininn en aðrar verða helgaðar smærri svæðum sem könnuð verða í meiri smáatriðum. Kortlagningar VISTA munu efla skilning okkar á eðli, dreifingu og uppruna stjarna og vetrarbrauta, kortleggja uppbyggingu Vetrarbrautarinnar og Magellanskýjanna, nágranna okkar, í þrívídd og hjálpa til við að skilja tengslin milli uppbygginar alheims, hulduefnis og hulduorku.
Við kortlagningarnar verða til gríðarlega mikil gögn — venjulega 300 gígabær á hverri nóttu eða yfir 100 terabæt á ári — sem verða flutt í gagnaveitu ESO en breytt í myndir og skrár í gagnasöfnum Cambridge háskóla og Edinborgarháskóla í Bretlandi. Öll gögn verða gerð opinber og aðgengileg stjörnufræðingum um allan heim.
Jim Emerson við Queen Mary, University of London og forystumaður VISTA samtakanna hlakkar til ríkulegrar vísindauppskeru frá nýja sjónaukanum: „Sagan hefur sýnt okkur að margar áhugaverðustu niðurstöðurnar koma frá verkefnum á borð við VISTA, þar sem maður á kannski síst von á þeim, en ég hlakka persónulega mikið til að sjá hverjar þær verða!“
Skýringar
[1] Í VISTA samtökunum, undir forystu Queen Mary, University of London, eru: Queen Mary, University of London; Queen's University of Belfast; University of Birmingham; University of Cambridge; Cardiff University; University of Central Lancashire; University of Durham; The University of Edinburgh; University of Hertfordshire; Keele University; Leicester University; Liverpool John Moores University; University of Nottingham; University of Oxford; University of St Andrews; University of Southampton; University of Sussex og University College London.
Frekari upplýsingar
ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.
Tenglar
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org
Prof. Jim Emerson
Queen Mary, University of London
UK
Sími: +44 794 127 1548
Tölvupóstur: j.p.emerson@qmul.ac.uk
Richard Hook
ESO Survey Telescopes PIO
Sími: +49 151 1055 5780
Tölvupóstur: rhook@eso.org
Julia Maddock
Science and Technology Facilities Council
UK
Sími: +44 1793 44 2094
Tölvupóstur: julia.maddock@stfc.ac.uk
Siân Halkyard
Queen Mary, University of London
UK
Sími: +44 20 7882 7454
Tölvupóstur: s.halkyard@qmul.ac.uk
Um fréttatilkynninguna
Fréttatilkynning nr.: | eso0949is |
Legacy ID: | PR 49/09 |
Nafn: | Flame Nebula, NGC 2024 |
Tegund: | Milky Way : Nebula : Type : Star Formation |
Facility: | Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy |
Instruments: | VIRCAM |