eso1005is — Fréttatilkynning

Stjörnurnar á bakvið tjöldin

3. febrúar 2010

ESO hefur birt glæsilega mynd VLT af risastóru stjörnumyndunarsvæði í kringum NGC 3603 þar sem stjörnur eru stöðugt að myndast. Í þessari fallegu þoku er ein bjartasta og þéttasta þyrping ungra, massamikilla stjarna í Vetrarbrautinni okkar, sem er þar af leiðandi kjörin nálæg hliðstæða mjög virkra stjörnumyndunarsvæða í öðrum vetrarbrautum. Í þyrpingunni er massamesta stjarna sem hefur verið „vigtuð“ hingað til.

NGC 3603 er hrinusvæði; verksmiðja í alheiminum þar sem stjörnur myndast í gríð og erg úr gas- og rykskýjum þokunnar. Þyrpingin er í 22.000 ljósára fjarlægð frá sólinni en er engu að síður nálægasta svæði sinnar tegundar í Vetrarbrautinni og gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka öfluga stjörnumyndun í nágrenni okkar. Samskonar svæði eru algeng í öðrum vetrarbrautum en erfitt að er rannsaka þau náið vegna mikillar fjarlægðar frá okkur.

Þokan á lögun sína að þakka sterku ljósi og öflugum vindum frá ungum, massamiklum stjörnum sem svipta gas- og rykhulunni af aragrúa skínandi stjarna. Í stjörnuþyrpingunni í NGC 3603 eru þúsundir stjarna af öllum stærðum og gerðum (eso9946); meirihlutinn álíka massamiklar eða massaminni en sólin okkar. Tilkomumestar eru þó nokkrar mjög þungar stjörnur sem nálgast endalok ævi sinnar. Á stað sem er innan við eitt ljósár á rýmd þjappa nokkrir bláir reginrisar sig saman auk þriggja svonefndra Wolf-Rayet stjarna en það eru óhemju bjartar og massamiklar stjörnur sem varpa miklu magni efnis frá sér áður en þær enda ævi sína sem sprengistjörnur. Aðrar nýlegar athuganir með SINFONI mælitækinu á Very Large Telescope (VLT) ESO hafa staðfest að ein þessara stjarna er um 120 sinnum massameiri en sólin okkar og því massamesta stjarna sem þekkist í Vetrarbrautinni [1].

Skýjahula NGC 3603 birtir okkur sannkallaða fjölskyldumynd af stjörnum á ólíkum þroskastigum. Þarna eru stjörnur enn í mótun innan um nýmyndaðar stjörnur, fullorðnar stjörnur og stjörnur sem nálgast ævilok sín. Allar eru þær álíka gamlar, um milljón ára, augnabliksgamlar miðað við að sólin og sólkerfið okkar er fimm milljarða ára. Mismikill massi er ástæða þess að sumar þessara stjarna eru rétt að hefja ævi sína á meðan aðrar eru þegar í andarslitrunum: heitar og bjartar hámassastjörnur brenna eldsneyti sínu miklu hraðar en massaminni, daufari og kaldari stjörnur.

Þessi nýja mynd var tekin með FORS mælitækinu á VLT á Cerro Paranal í Chile. Hún sýnir svæðið í kringum stjörnuþyrpinguna og þau tilkomumiklu gas- og rykþokur sem þar eru.

Skýringar

[1] Stjarnan, NGC 3603-A1, er myrkvatvístirni, þ.e. tvær stjörnur á hringsóli um hvor aðra á aðeins 3,77 dögum. Massi stærri stjörnunnar er áætlaður 116 sólmassar en fylgihnötturinn er líklega 89 sólmassar.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Henri Boffin
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1005.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1005is
Nafn:NGC 3603
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS1

Myndir

Stellar nursery NGC 3603*
Stellar nursery NGC 3603*
texti aðeins á ensku
Star formation in the constellation of Carina
Star formation in the constellation of Carina
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on NGC 3603
Zooming in on NGC 3603
texti aðeins á ensku
Panning across NGC 3603
Panning across NGC 3603
texti aðeins á ensku