eso1017is — Fréttatilkynning

VISTA kannar leyndardóm kattarins

21. apríl 2010

NGC 6334, sem stundum er nefnd Kattarloppuþokan, er gríðarstór myndunarstaður hundruð massamikilla stjarna. Á nýrri og glæsilegri mynd ESO, sem tekin var með Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (VISTA) í Paranal stjörnustöðinni í Chile, sést hvernig innrautt ljós frá ungum stjörnum brýst í gegnum glóandi gas og ryk sem alla jafna er ógegnsætt.

Kattarloppuþokan er í um 5.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum, skammt frá hjarta Vetrarbrautarinnar. Þokan nær yfir 50 ljósára breitt svæði og í sýnilegu ljósi sést hvernig heitar, ungar stjörnur lýsa upp gas og ryk svo sérkennileg rauðleit ský myndast sem minna um margt á loppu kattar. Á nýlegri mynd Wide Field Imager (WFI) ESO í La Silla stjörnustöðinni (eso1003) var þetta sama svæði sýnt í sýnilegu ljósi. NGC 6334 er eitt virkasta myndunarsvæði massamikilla stjarna í Vetrarbrautinni.

VISTA, nýjasti sjónaukinn í Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í Chile, er stærsti kortlagningarsjónauki heims (eso0949). Sjónaukinn sér innrautt ljós og getur þar af leiðandi skyggnst í gegnum rykslæður sem geta verið óskaplega fallegar en truflandi og þannig sýnt okkur fyrirbæri sem eru falin sjónaukum sem sjá sýnilegt ljós. Ryk í geimnum gleypir sýnilegt ljós og dreifir því á meðan innrautt ljós berst svo til greiðlega í gegnum rykið.

VISTA hefur 4,1 metra breiðan safnspegil og er jafnframt útbúinn stærstu innrauðu myndavél sem nokkur sjónauki getur státað af. Hann er á næsta fjallstindi við Very Large Telescope (VLT) ESO og býr þess vegna við sömu framúrskarandi aðstæður til stjörnuskoðunar. Með þetta öfluga tæki í fórum sínum voru stjörnufræðingar spenntir að sjá fæðingarstað stóru ungu stjarnanna í Kattarloppuþokunni sem sumar eru næstum tíu sinnum massameiri en sólin. Innrauða myndin er gerólík myndinni í sýnilegu ljósi. Rykið byrgir okkur ekki eins mikið sýn svo við getum lært mun meira um myndun og þróun þessara stjarna ármilljónirnar í ævi þeirra. VISTA hefur vítt sjónsvið sem gerir okkur kleift að sjá allt svæðið í heild sinni á einni mun, skýrar en nokkru sinni fyrr.

Á myndinni eru óteljandi stjörnur í Vetrarbrautinni á bakvið tignarlegar rykslæður sem sjást hér í heild sinni í fyrsta sinn. Á stöku stað er rykið samt nógu þykkt til að hindra að jafnvel nær-innrauða geislunin, sem myndavél VISTA er næm fyrir, berist til okkar. Á mörgum rykugu svæðunum, eins og þeim sem eru við miðja mynd, sjást fyrirbæri sem sýnast appelsínugul en þau eru vísbendingar um aðrar ungar stjörnur, sem eru faldar inni í rykinu, og stróka sem þeim fylgja. Fjær sjást örlítið eldri stjörnur sem bera merki um þau ferli sem ríktu á óstöðugleikaskeiði þeirra, fyrstu ármilljónirnar í ævi þeirra.

VISTA kortleggur nú nokkur stór svæði á suðurhimninum sem er nokkurra ára verkefni. Stór spegill, næm myndavél og vítt sjónsvið sjónaukans tryggja hágæðamyndir úr honum og gera hann að langöflugasta innrauða kortlagningarsjónauka heims. Eins og sjá má á þessari glæsilegu mynd mun VISTA halda stjörnufræðingum uppteknum við gagnaúrvinnslu um langa hríð. En leyndarmáli kattarins hefur þegar verið ljóstrað upp.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
Survey Telescopes PIO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1017.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1017is
Nafn:Cat's Paw Nebula, NGC 6334
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy
Instruments:VIRCAM

Myndir

VISTA’s infrared view of the Cat’s Paw Nebula*
VISTA’s infrared view of the Cat’s Paw Nebula*
texti aðeins á ensku
Highlights from VISTA’s infrared view of the Cat’s Paw Nebula
Highlights from VISTA’s infrared view of the Cat’s Paw Nebula
texti aðeins á ensku
An infrared/visible comparison view of the Cat’s Paw Nebula
An infrared/visible comparison view of the Cat’s Paw Nebula
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming into VISTA’s infrared view of the Cat’s Paw Nebula
Zooming into VISTA’s infrared view of the Cat’s Paw Nebula
texti aðeins á ensku
Panning across the VISTA infrared view of the Cat’s Paw Nebula
Panning across the VISTA infrared view of the Cat’s Paw Nebula
texti aðeins á ensku
Infrared/visible crossfade of the Cat’s Paw Nebula
Infrared/visible crossfade of the Cat’s Paw Nebula
texti aðeins á ensku
VISTA’s infrared view of the Cat’s Paw Nebula (8k fulldome)
VISTA’s infrared view of the Cat’s Paw Nebula (8k fulldome)
texti aðeins á ensku