eso1025is — Fréttatilkynning

VISTA skoðar Myndhöggvaraþokuna

16. júní 2010

Glæsileg ný ljósmynd af Myndhöggvaraþokunni (NGC 253), sem tekin var með VISTA sjónauka ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile, er hluti eins fyrsta stóra kortlagningarverkefnis sjónaukans. VISTA horfir í gegnum ryk vetrarbrautarinnar með innrauðu ljósi og sér þannig fjölda kaldra stjarna auk áberandi bjálka sem gengur þvert í gegnum miðjuna. Á mynd VISTA eru nýjar upplýsingar um þróunarsögu þessarar forvitnilegu vetrarbrautar.

Myndhöggvaraþokan (NGC 253) í samnefndu stjörnumerki er ein bjartasta vetrarbraut himins. Hana uppgötvaði Caroline Herschel frá Englandi árið 1783 en þokan er nógu björt til að sjást með góðum handsjónauka. NGC 253 er þyrilvetrarbraut í um 13 milljón ljósára fjarlægð. Hún er bjartasta þokan í litlum hópi vetrarbrauta sem kallast Myndhöggvarahópurinn og er jafnframt einn nálægasti slíki hópurinn við Grenndarhópinn sem við tilheyrum. Í NGC 253 er mjög ör stjörnumyndun og er það hluti ástæðunnar hve björt hún er. Vetrarbrautin er líka mjög rykug og hylur það stóran hluta hennar (eso0902). Frá jörðu séð er hún nánast á rönd en engu síður eru þyrilarmar hennar augljósir á ytri svæðunum sem og bjartur kjarninn.

VISTA, Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy, er nýjasta viðbótin í Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í Chile — stærsti kortlagningarsjónauki heims. Eftir að sjónaukinn var afhentur ESO í árslok 2009 (eso0949) var hann notaður í tvær ítarlegar rannsóknir á litlum svæðum himins áður en hafin voru miklu stærri kortlagningarverkefnu sem nú standa yfir. Nákvæm rannsókn á NGC 253 og nágrenni hennar var eitt þessara smærri kortlagningarverkefna.

VISTA sér innrautt ljós en það gerir honum kleift að skyggnast í gegnum mestan hluta ryksins sem annars er svo áberandi í Myndhöggvaraþokunni í sýnilegu ljósi. Aragrúi kaldari stjarna, sem varla sjást í sýnilegu ljósi, eru því greinilegar á myndinni. Mynd VISTA sýnir stóran hluta þess sem þykku rykskýin í miðhlutum skífunnar hylja og leiðir í ljós áberandi stjörnubjálka sem gengur þvert í gegnum kjarnann — nokkuð sem ekki sést vel í sýnilegu ljósi. Sjá má tilkomumiklar þyrilarma um alla vetrarbrautaskífuna.

VISTA er staðsettur á næsta fjallstindi við Very Large Telescope (VLT) ESO og býr þar af leiðandi við sömu framúrskarandi stjörnuskoðunaraðstæður. Þess vegna verða myndir VISTA sérstaklega skarpar miðað við sjónauka á jörðu niðri.

Stjörnufræðingar vilja vinda ofan af leyndardómum Myndhöggvaraþokunnar með þessum öfluga stjörnusjónauka. Þeir rannsaka fjölda kaldra rauða risa í hjúpnum sem umlykur vetrarbrautina og nokkrar dverg-fylgivetrarbrautir, leita nýrra óuppgötvaðra fyrirbæra eins og kúluþyrpinga og mjög smárra dvergvetrarbrauta sem sæjust ekki án djúpra innrauðra ljósmynda VISTA. Með hjálp sjónaukans ætla þeir að átta sig á myndunar- og þróunarsögu þessarar forvitnilegu vetrarbrautar.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, Survey Telescopes PIO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1025.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1025is
Nafn:NGC 253
Tegund:Local Universe : Galaxy : Activity : Starburst
Facility:Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy
Instruments:VIRCAM

Myndir

VISTA’s infrared view of the Sculptor Galaxy (NGC 253)
VISTA’s infrared view of the Sculptor Galaxy (NGC 253)
texti aðeins á ensku
Infrared/visible light comparison of views of the Sculptor Galaxy (NGC 253)
Infrared/visible light comparison of views of the Sculptor Galaxy (NGC 253)
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the VISTA view of the Sculptor Galaxy (NGC 253)
Zooming in on the VISTA view of the Sculptor Galaxy (NGC 253)
texti aðeins á ensku
IR/visible crossfade of the Sculptor Galaxy (NGC 253)
IR/visible crossfade of the Sculptor Galaxy (NGC 253)
texti aðeins á ensku

Sjá einnig