eso1028is — Fréttatilkynning

Svarthol blæs stóra kúlu

7. júlí 2010

Með hjálp mælinga sem gerðar voru með Very Large Telescope ESO og Chandra röntgengeimsjónauka NASA hafa stjörnufræðingar fundið öflugustu stróka sem sést hafa frá litlu svartholi. Fyrirbærið, sem nefna mætti ördulstirni, blæs frá sér risastórri og heitri gaskúlu, 1000 ljósár í þvermál, sem er tvöfalt stærri og nokkrum tugum sinnum öflugri en önnur ördulstirni. Frá þessu er greint í nýjasta hefti tímaritsins Nature.

„Það kemur okkur mjög á óvart hve mikil orka berst frá svartholinu til gassins“ segir Manfred Pakull, aðalhöfundur greinarinnar. „Svartholið er einungis nokkrir sólmassar og í raun lítil útgáfa af öflugum dulstirnum og útvarpsvetrarbrautum en þau innihalda nokkurra milljóna sólarmassa svarthol.“

Vitað er að svarthol losa feikilega orku þegar þær gleypa efni. Talið var að orkan losnaði að mestu sem geislun, einkum röntgengeislun, en nýju niðurstöðurnar sýna að sum svarthol geta losað jafn mikla orku að minnsta kosti, og hugsanlega meiri, með hraðfleygum agnastrókum. Þessir hraðfleygu strókar rekast á gas í geimnum sem hitnar og þenst út. Útþanda kúlan er blanda heits gass og mjög hraðfleygra en misheitra agna. Mælingar á mismunandi tíðnibilum (sýnilegu ljósi, útvarpsbylgjum og röntgengeislun) hjálpa stjörnufræðingum að reikna út heildarhraðann sem svartholið er að hita umhverfi sitt.

Stjörnufræðingarnir fylgdust með blettum sem myndast þegar strókarnir rekast á gas í kringum svartholið og fundu út að heita gaskúlan þenst út með næstum milljón kílómetra hraða á klukkustund.

„Strókarnir í NGC 7793 eru ótrúlega langir í samanburði við stærð svartholsins“ segir Robert Sorio [1] meðhöfundur greinarinnar. „Væri svartholið smækkað niður í stærð fótbolta næði hvor strókur frá jörðinni og út fyrir braut Plútós.“

Rannsóknin á eftir að hjálpa stjörnufræðingum að skilja hvað er líkt með litlum svartholum, sem verða til þegar stjörnur springa, og risasvartholum í miðju vetrarbrauta. Mjög öflugir strókar sjást skaga út frá risasvartholum en eru taldir sjaldgæfari í tilviki ördulstirna. Þessi nýja uppgötvun bendir til þess að mörg þeirra hafi einfaldlega farið framhjá okkur hingað til.

Svartholið sem hér um ræðir er í 12 milljóna ljósára fjarlægð í útjaðri þyrilvetrarbrautarinnar NGC 7793 (eso0914b). Út frá stærð og útþensluhraða kúlunnar hafa stjörnufræðingar komist að því að strókavirknin hlýtur að hafa staðið yfir í að minnsta kosti 200.000 ár.

Skýringar

[1] Stjörnufræðingar hafa ekki neina aðferð til að mæla stærð svartholsins. Radíus smæsta svarthols sem fundist hefur hingað til er 15 km. Lítið svarthol er að meðaltali um 10 sólmassar og með 30 km radíus en radíus stórs svarthols er um 300 km. Svartholin eru sem sagt miklu minni en strókarnir sem teygja sig nokkur hundruð ljósár, eða nokkur þúsund milljón milljón km, út frá hvorri hlið svartholsins.

Frekari upplýsingar

Þessar niðurstöður eru birtar í nýjasta heftir tímaritsins Nature (A 300 parsec long jet-inflated bubble around a powerful microquasar in the galaxy NGC 7793, eftir Manfred W. Pakull, Roberto Soria og Christian Motch).

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 14 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Manfred W. Pakull
University of Strasbourg
Strasbourg, France
Sími: +33 3 68 85 24 30
Tölvupóstur: manfred.pakull@astro.unistra.fr

Christian Motch
University of Strasbourg
Strasbourg, France
Sími: +33 3 68 85 24 28
Tölvupóstur: christian.motch@astro.unistra.fr

Roberto Soria
MSSL, University College London
London, UK
Sími: +44 1483 204100 or +61 420 712 167
Tölvupóstur: rsoria@physics.usyd.edu.au

Henri Boffin
ESO, La Silla, Paranal and E-ELT Press Officer
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Farsími: +49 174 515 43 24
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1028.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1028is
Nafn:NGC 7793
Tegund:Milky Way : Star : Evolutionary Stage : Black Hole
Milky Way : Galaxy : Activity : AGN : Quasar
Facility:Chandra X-ray Observatory, Very Large Telescope
Instruments:FORS1, FORS2
Science data:2010Natur.466..209P

Myndir

A stellar black hole
A stellar black hole
texti aðeins á ensku

Sjá einnig