eso1029is — Fréttatilkynning

Undið ofan af ráðgátunni um myndun massamikilla stjarna

Allar stjörnur myndast á sama hátt

14. júlí 2010

Í fyrsta sinn hafa stjarnvísindamenn náð myndum af rykskífu sem umlykur unga, massamikla stjörnu og um leið fundið fyrstu beinu sönnunargögn þess efnis að massamiklar stjörnur myndist á samskonar hátt og smærri stjörnur. Uppgötvunin var gerð fyrir tilstilli sjónauka ESO en greint er frá henni í nýjasta hefti tímaritsins Nature.

„Mælingar okkar sýna skífu umhverfis unga og massamikla en fullmótaða stjörnu“ segir Stefan Kraus sem leiddi rannsóknina. „Segja má að nú sé unginn að klekjast úr egginu.“

Hópur stjarnvísindamanna rannsakaði fyrirbæri sem kallast IRAS 13481-6124 og er í 10.000 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Mannfáknum. Unga stjarnan þar er um tuttugu sinnum massameiri en sólin og fimmfalt breiðari en er enn umlukin ryki.

Með hjálp eldri mælinga Spitzer geimsjónauka NASA, auk mælinga sem gerðar voru með 12 metra APEX hálfsmillímetra sjónaukanum, fundu stjörnufræðingar merki um efnisstrók í rykskífunni.

„Þessir strókar eru algengir í kringum ungar lágmassastjörnur og benda yfirleitt til þess að þær séu umlyktar rykskífu“ segir Kraus.

Rykskífur umhverfis stjörnur eru nauðsynleg hráefni í myndun lágmassa stjarna eins og sólarinnar. Aftur á móti er ekki vitað hvort slíkar skífur séu einnig til staðar við myndun stjarna sem eru meira en 10 sólmassar því orkuríkt ljósið sem slíkar stjörnur gefa frá sér getur komið í veg fyrir að stjarnan dragi að sér massa. Því hefur til dæmis verið varpað fram að massamiklar stjörnur geti myndast við samruna smærri stjarna.

Stjarnvísindamennirnir notuðu Very Large Telescope víxlmæli (VLTI) ESO til þess að átta sig á eiginleikum skífunnar. Með því að sameina ljós frá þremur 1,8 metra aukasjónaukum VLTI við AMBER mælitækið gátu stjörnufræðingar greint smáatriði sem væri aðeins gerlegt með sjónauka með 85 metra spegilþvermál. Greinigetan var um 2,4 millíbogasekúndur en það jafngildir því að greina höfuð á skrúfu í Alþjóðlegu geimstöðinni. Þetta er meira en tíföld upplausn geimsjónauka sem greina sýnilegt ljós.

Þessi einstaka greinigeta, auk mælinga sem gerðar voru með öðrum sjónauka ESO, 3,58 metra New Technology Telescope í La Silla gátu Kraus og samstarfsfólk hans greint skífuna umhverfis IRAS 13481-6124.

„Þetta er í fyrsta sinn sem okkur hefur tekist að ljósmynda innri svæði í skífu ungrar og massamikillar stjörnu“ segir Kraus. „Mælingarnar sýna að stjörnur myndast almennt á sama hátt, óháð massa.“

Stjörnufræðingar álykta að kerfið sé um 60.000 ára gamalt og að stjarnan hafi náð lokamassa sínum. Stjarnan gefur frá sér mikla og sterka geislun — hún er 30.000 sinnum bjartari en sólin okkar — svo skífan mun fljótlega byrja að leysast upp. Skífan nær 130 stjarnfræðieiningar út í geiminn — 130 sinnum fjarlægðin milli jarðar og sólar — og er álíka massamikil og stjarnan sjálf, eða um 20 sólmassar. Auk þess eru innri svæði skífunnar ryksnauð.

„Frekari mælingar með Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), sem nú er í smíðum í Chile, gætu veitt okkur betri upplýsingar um þessi innri svæði og gert okkur kleift að skilja betur hvernig ungar massamiklar stjörnur þyngjast“ segir Kraus að endingu.

Frekari upplýsingar

Greint var frá þessari rannsókn í grein sem birtist í nýjasta hefti tímaritsins Nature („A hot compact dust disk around a massive young stellar object“ eftir S. Kraus et al.).

Í rannsóknarhópnum eru Stefan Kraus (University of Michigan í Bandaríkjunum), Karl-Heinz Hofmann, Karl M. Menten, Dieter Schertl, Gerd Weigelt, Friedrich Wyrowski, og Anthony Meilland (Max-Planck-Institut für Radioastronomie í Bonn í Þýskalandi),Karine Perraut (Laboratoire d'Astrophysique de Grenoble í Frakklandi), Romain Petrov og Sylvie Robbe-Dubois (Université de Nice Sophia-Antipolis/CNRS/Observatoire de la Côte d’Azur í Frakklandi), Peter Schilke (Universität zu Köln í Þýskalandi) og Leonardo Testi (ESO).

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Stefan Kraus
University of Michigan
USA
Sími: +1 734 615 7374
Tölvupóstur: stefankr@umich.edu

Richard Hook
ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Henri Boffin
ESO, La Silla Paranal and E-ELT Press Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6222
Farsími: +49 174 515 43 24
Tölvupóstur: hboffin@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1029.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1029is
Nafn:Protoplanetary disc
Tegund:Milky Way : Star : Circumstellar Material : Disk : Protoplanetary
Facility:New Technology Telescope, Very Large Telescope, Very Large Telescope Interferometer
Instruments:AMBER, LABOCA, SABOCA
Science data:2010Natur.466..339K

Myndir

A disc around a massive baby star (artist's impression)
A disc around a massive baby star (artist's impression)
texti aðeins á ensku
The disc around IRAS 13481-6124
The disc around IRAS 13481-6124
texti aðeins á ensku
IRAS 13481-6124 and its cradle
IRAS 13481-6124 and its cradle
texti aðeins á ensku
Around IRAS 13481-6124
Around IRAS 13481-6124
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zoom-in on IRAS 13481-6124
Zoom-in on IRAS 13481-6124
texti aðeins á ensku