eso1111is — Fréttatilkynning

Rósrauður bjarmi stjörnumyndunar

30. mars 2011

Rauða skýið sem sést á þessari nýju ljósmynd Very Large Telescope ESO er glóandi vetni sem umlykur stjörnuþyrpinguna NGC 371. Þetta stjörnumyndunarsvæði er í nágrannavetrarbraut okkar, Litla-Magellanskýinu.

Að sumu leyti líkist fyrirbærið sem mest er áberandi á þessari mynd blóðpolli þótt það tengist dauðanum ekki neitt. Þetta er rafað vetnisský (HII svæði), jónað vetni, þar sem ör sköpun nýrra stjarna á sér stað. NGC 371 er gott dæmi um svona svæði, hún er lausþyrping umlukin geimþoku. Allar stjörnurnar í lausþyrpingunni eiga rætur að rekja til sama rafaða vetnisskýsins sem með tímanum myndaði stjörnur í stærstum hluta vetnisins en skilur eftir sig vetnisskel áþekkri þeirri sem hér sést auk þyrpingar ungra, heitra stjarna.

Litla-Magellanskýið, hýsilvetrarbraut NGC 371, er dvergvetrarbraut í aðeins 200.000 ljósára fjarlægð og því ein sú nálægasta við Vetrarbrautina okkar. Í Litla-Magellanskýinu eru stjörnur á öllum þróunarstigum, allt frá mjög björtum, ungum stjörnum eins og í NGC 371, til sprengistjörnuleifa dauðra stjarna. Ungviðið er orkuríkt og gefur frá sér útblátt ljós sem lýsir upp litríkt gasið í kring, t.d. vetnisleifarnar í þokunni, sem teygir sig hundruð ljósára í allar áttir. Fyrirbærið sést vel á þessari mynd sem tekin var með FORS1 mælitækinu á Very Large Telescope ESO.

Lausþyrpingar eru síður en svo sjaldgæfar. Í Vetrarbrautinni okkar eru fjölmörg góð dæmi. NGC 371 þykir aftur á móti sérstaklega áhugaverð vegna þess óvenju mikla fjölda breytistjarna sem þar eru, þ.e. stjarna sem breyta birtu sinni tímabundið. Hægt er að nota stjarnskjálftafræði [1] til þess að rannsaka innviði áhugaverðrar tegundar breytistjörnu sem nefnist hæglát B-sveiflustjarna en nokkrar slíkar hafa fundist í þessari þyrpingu. Breytistjörnur leika lykilhlutverk í stjörnufræði og eru sumar notaðar til að ákvarða fjarlægðir til fjarlægra vetrarbrauta og meta aldur alheimsins.

Það var Manu Mejias, þátttakandi í Hidden Treasures keppninni [2], sem fann gögnin sem þessi mynd er búin til úr í gagnasafni ESO. Þrjár myndir Manus komust á listann yfir tuttugu bestu myndirnar; mynd hans af NGC 371 varð í sjötta sæti keppninnar.

Skýringar

[1] Hægt er að rannsaka innviði sveiflustjarna með stjarnskjálftafræði en þá eru mismunandi sveiflutíðnir kannaðar. Svipaðri nálgun er beitt þegar innviðir jarðar eru kannaðir með jarðskjálftum og hvernig skjálftabylgjurnar sveiflast þegar þær ferðast í gegnum jörðina.

[2] Í Hidden Treasures 2010 ljósmyndakeppni ESO gafst stjörnuáhugafólki tækifæri til að kafa ofan í gagnasafn ESO í leit að vel földum ljósmyndafjársjóði. Af þeim 100 ljósmyndum sem sendar voru inn í keppnina sendu tíu hæfileikaríkustu þátttakendurnir inn tuttugu bestu myndirnar og voru þeir verðlaunaðir. Vinningshafinn hlaut að launum ferð að Very Large Telescope (VLT) ESO á Cerro Paranal í Chile, sem er fullkomnasta stjörnustöð heims fyrir rannsóknir á sýnilegu ljósi.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: saevar@stjornuskodun.is

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1111.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1111is
Nafn:NGC 371
Tegund:Local Universe : Star : Grouping : Cluster : Open
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS1

Myndir

The star cluster and nebula NGC 371
The star cluster and nebula NGC 371
texti aðeins á ensku
The star cluster and nebula NGC 371 in the constellation of Tucana
The star cluster and nebula NGC 371 in the constellation of Tucana
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the cluster and nebula NGC 371
Zooming in on the cluster and nebula NGC 371
texti aðeins á ensku