eso1123is — Fréttatilkynning

Vetnisperoxíð fundið í geimnum

6. júlí 2011

Í fyrsta sinn hafa vetnisperoxíðssameindir fundist í geimnum. Með uppgötvuninni fást vísbendingar um efnafræðileg tengsl milli tveggja sameinda sem eru lífi nauðsynlegar: Vatns og súrefnis. Á jörðinni leikur vetnisperoxíð lykilhlutverk í efnafræði vatns og ósons í lofthjúpi jarðar en margir kannast við sameindina í sótthreinsiefnum eða bleikiefnum. Nú hafa stjörnufræðingar fundið sameindina í geimnum með hjálp APEX sjónaukans sem ESO starfrækir í Chile.

Alþjóðlegur hópur stjarnvísindamanna gerði uppgötvunina með Atacama Pathfinder Experiment sjónaukanum (APEX) sem staðsettur er á hinni 5.000 metra háu Chajnantor sléttu í Andesfjöllunum í Chile. Hópurinn rannsakaði svæði í vetrarbrautinni okkar sem er nálægt stjörnunni ró í Naðurvalda (Rho Ophiuchi) og er í um 400 ljósára fjarlægð. Á svæðinu er mjög kalt (um -250 gráður á Celsíus) og þétt ský úr gasi og ryki þar sem nýjar stjörnur eru að myndast. Skýið er að mestu leyti úr vetni en í því eru líka önnur efni og er það því góður staður fyrir stjörnufræðinga í leit að sameindum í geimnum. Sjónaukar eins og APEX eru næmir fyrir ljósi með millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengd og því kjörnir til að greina ummerki þessara sameinda.

Stjörnufræðingarnir hafa nú fundið fingraför vetnisperoxíðs í ljósi frá svæði í skýinu Rho Ophiuchi.

„Okkur þótti afar spennandi að finna merki um vetnisperoxíð með APEX. Við vissum að hvaða bylgjulengdum við áttum að leita út frá tilraunum í tilraunastofu en aftur á móti er aðeins ein vetnisperoxíðssameind í skýinu fyrir hverja tíu milljarða vetnissameinda. Mælingin var þess vegna mjög vandasöm“ segir Per Bergman, stjörnufræðingur við Onsala Space Observatory í Svíþjóð. Bergman er aðalhöfundur greinar um rannsóknina sem birt er í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Fyrir stjörnufræðinga og efnafræðinga er vetnisperoxíð (H2O2) mjög mikilvæg sameind. Myndun hennar er nátengd tveimur öðrum kunnuglegum sameindum, súrefni og vatni, sem eru lífi nauðsynlegar. Vatnið að jörðinni er talið hafa myndast í geimnum og því vilja vísindamenn skilja hvernig það verður til þar [1].

Talið er að vetnisperoxíð myndist í geimnum á yfirborðum geimrykagna — mjög fínna agna sem eru svipaðar sandi eða sóti — þegar vetni (H) binst súrefnissameind (O2). Frekari efnahvörf vetnisperoxíðs við vetni er ein aðferð til að búa til vatn (H2O). Þessi nýja mæling á vetnisperoxíði mun þar af leiðandi hjálpa stjörnufræðingum að skilja betur myndun vatns í alheiminum.

„Við skiljum ekki enn hvernig margar mikilvægustu sameindir á jörðinni verða til í geimnum. Uppgötvun okkar á vetnisperoxíði með APEX virðist þó sýna okkur að geimryk sé hráefnið sem vantar í ferlið“ segir Bérengère Parise, yfirmaður Emmy Noether hópsins sem rannsakar myndum stjarna og stjarnefnafræði við Max-Planck Institute for Radio Astronomy í Þýskalandi og meðhöfundur greinarinnar.

Gera þarf ítarlegri mælingar á Rho Ophiuchi og öðrum stjörnumyndunarsvæðum til að skilja hvernig uppruni þessara mikilvægu sameinda tengjast. Slíkar mælingar verða gerðar með fyrirhuguðum sjónaukum eins og Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) og með hjálp frá efnafræðingum í tilraunastofum á jörðu niðri.

APEX er samstarfsverkefni Max-Planck Institute for Radio Astronomy (MPIfR), Onsala Space Observatory (OSO) og ESO. ESO sér um viðhald og rekstur sjónaukans.

Skýringar

[1] Þessi nýja uppgötvun á vetnisperoxíði gæti hjálpað stjörnufræðingum að leysa aðra ráðgátu: Hvers vegna er svo erfitt að finna súrefnissameindir í geimnum? Gervihnötturinn Óðinn fann súrefnissameindir í geimnum í fyrsta sinn árið 2007.

Frekari upplýsingar

Greint er frá þessari rannsókn í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Í rannsóknarhópnum eru P. Bergman (Onsala Space Observatory, Chalmers University of Technology í Onsala í Svíþjóð), B. Parise (Max-Planck Institute for Radio Astronomy í Bonn í Þýskalandi), R. Liseau (Chalmers University of Technology í Onsala í Svíþjóð), B. Larsson (Stockholm University í Svíþjóð), H. Olofsson (Onsala Space Observatory, Chalmers University of Technology), K. M. Menten (Max-Planck Institute for Radio Astronomy) og R. Güsten (Max-Planck Institute for Radio Astronomy).

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Per Bergman
Onsala Space Observatory / Chalmers University of Technology
Sweden
Sími: +46 31 772 5500
Farsími: +46 70 239 1741
Tölvupóstur: per.bergman@chalmers.se

Bérengère Parise
Max Planck Institute for Radio Astronomy
Bonn, Germany
Sími: +49 228 525 153
Tölvupóstur: bparise@mpifr-bonn.mpg.de

Douglas Pierce-Price
ESO, Public Information Officer
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6759
Tölvupóstur: dpiercep@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1123.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1123is
Nafn:Rho Ophiuchi, Rho Oph SM 1
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Interstellar Medium
Facility:Atacama Pathfinder Experiment
Science data:2011A&A...531L...8B

Myndir

The Rho Ophiuchi star formation region, where hydrogen peroxide has been detected in space (annotated)
The Rho Ophiuchi star formation region, where hydrogen peroxide has been detected in space (annotated)
texti aðeins á ensku
The constellation Ophiuchus, showing the Rho Ophiuchi star formation region
The constellation Ophiuchus, showing the Rho Ophiuchi star formation region
texti aðeins á ensku