eso1127is — Fréttatilkynning

Evrópskt ALMA loftnet færir heildarfjölda loftneta á Chajnantor upp í 16

Undirbúningur hafinn fyrir fyrstu mælingar ALMA

28. júlí 2011

Þann 27. júlí 2011 náði fyrsta evrópska loftnetið í Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) nýjum hæðum er það var flutt upp í starfsstöð sjónaukans á Chajnantor sléttunni sem er í 5.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Loftnetið er 12 metra breitt og bætist í hóp fimmtán annarra loftneta sem alþjóðlegir aðstandendur ALMA verkefnisins hafa lagt til. Loftnetin eru því orðin 16 talsins.

Þótt 16 hljómi eins og hver önnur tala þýðir hún að nú geta fyrstu vísindalegu mælingarnar hafist. Sextánda loftnetið er þess vegna afar mikilvægur áfangi. Fljótlega munu stjörnufræðingar hefja nýjar rannsóknir með ALMA.

Smíði loftnetsins var í höndum evrópska AEM samstarfsins [1] samkvæmt samningi við ESO. Eftir prófanir sem stóðu yfir í sex mánuði var það loks flutt í þjónustumiðstöð stjörnustöðvarinnar í apríl síðastliðnum. Þjónustumiðstöðin (Operation Support Facility, OSF) er í hlíðum Andesfjallanna í Chile í 2.900 metra hæð og þar var mælitækjum kældum með fljótandi helíni komið fyrir í loftnetinu auk annars nauðsynlegs rafeindabúnaðar. Síðan flutti annar af tveimur risaflutningabílum ALMA loftnetið 28 km vegalengd um eyðimörkina upp í starfsstöð sjónaukans. Starfsstöðin er seinasti viðkomustaður loftnetsins á langri vegferð sem hófst þegar hlutar þess voru smíðaðir í verksmiðjum í Evrópu undir vökulu auga ESO.

„Það er frábært að sjá fyrsta evrópska ALMA loftnetið á Chajnantor sléttunni. Frá þessari skraufþurru sléttu verða þessi tæknilegu meistaraverk notuð til að rannsaka alheiminn“ segir Stefano Stanghellini, verkefnisstjóri ALMA loftnetanna hjá ESO.

Fyrstu mælingar ALMA eru fyrirhugaðar síðar á þessu ári. Þótt ALMA verði þá enn í smíðum eru loftnetin 16 þegar orðin betri en nokkur annar sambærilegur sjónauki. Stjörnufræðingar frá öllum heimshornum hafa lagt inn nærri 1000 umsóknir fyrir fyrstu mælingar. Umsóknirnar eru níu sinnum fleiri en hægt er að anna til að byrja með. Þær sýna þó þann mikla áhuga sem stjörnufræðingar hafa á ALMA, jafnvel á frumstigum verkefnisins.

Lokaskrefið frá þjónustumiðstöðinni upp á Chajnantor sléttuna er tiltölulega stutt en skiptir ALMA höfuðmáli. Sléttan er næstum 2.100 metrum hærri en þjónustumiðstöðin. Þar er loftið nógu þurrt til að hægt sé að mæla daufa millímetra og hálfsmillímetra geislun utan úr geimnum sem lofthjúpur jarðar gleypir annars auðveldlega.

Þótt þær aðstæður sem ríkja í starfsstöð sjónaukans á Chajnantor séu kjörnar fyrir stjarnvísindarannsóknir eru þær um leið afar erfiðar. Þar er helmingi minna súrefni en við sjávarmál svo erfitt er fyrir fólk að athafna sig. Þótt þar sé lítil tæknimiðstöð — ein hæsta bygging í heimi — vinnur fólk öll helstu verkefni í þjónustumiðstöðinni en þaðan er sjónaukinn líka starfræktur.

Þegar smíð ALMA lýkur í kringum árið 2013 verða loftnetin 66 talsins. Þau verða öll látin starfa saman sem ein heild og mynda stóran sjónauka sem mælir millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdir ljóss. ALMA mun hjálpa stjörnufræðingum að rannsaka uppruna sólkerfa, stjarna og jafnvel alheimsins sjálfs með því að mæla kalt gas og ryk í vetrarbrautinni okkar og utan hennar, sem og eftirgeislun Miklahvells.

ALMA er alþjóðlegt samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku, austur Asíu og Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Evrópa leggur 25 loftnet til verkefnisins í gegnum ESO. Smíð allra evrópsku loftnetanna er í höndum evrópska AEM samstarfsins. Norður Ameríka leggur líka til önnur 25 loftnet og austur Asía 16.

Skýringar

[1] Í AEM samstarfinu eru Thales Alenia Space, European Industrial Engineering og MT-Mechatronics.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

  • Fræðstu meira um röðina á vef ESO um ALMA.
  • Tilkynning um fyrstu evrópsku ALMA loftnetin sem voru flutt í þjónustumiðstöðina.
  • Fylgstu með beinni útsendingu frá starfsstöðinni á heimasíðu ALMA.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Stefano Stanghellini
ALMA Antenna Project Manager, ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6570
Tölvupóstur: sstanghe@eso.org

Douglas Pierce-Price
Public Information Officer, ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6759
Tölvupóstur: dpiercep@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1127.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1127is
Nafn:ALMA transporters, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory : Telescope
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array

Myndir

European ALMA antenna brings total on Chajnantor to 16
European ALMA antenna brings total on Chajnantor to 16
texti aðeins á ensku
European ALMA antenna brings total on Chajnantor to 16
European ALMA antenna brings total on Chajnantor to 16
texti aðeins á ensku
First European ALMA antenna on its way to Chajnantor
First European ALMA antenna on its way to Chajnantor
texti aðeins á ensku
First European ALMA antenna on its way to Chajnantor
First European ALMA antenna on its way to Chajnantor
texti aðeins á ensku
European ALMA antenna brings total on Chajnantor to 16
European ALMA antenna brings total on Chajnantor to 16
texti aðeins á ensku

Myndskeið

European ALMA antenna brings total on Chajnantor to 16
European ALMA antenna brings total on Chajnantor to 16
texti aðeins á ensku