eso1153is — Fréttatilkynning

Jólahalastjarnan Lovejoy yfir Paranal

24. desember 2011

Glæsilegar myndir og myndskeið af halastjörnunni Lovejoy, sem er nýuppgötvuð, hafa verið teknar frá Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Halastjarnan hefur skreytt suðurhimininn síðustu daga eftir að hún gerðist mjög nærgöngul sólinni og komst af, öllum að óvörum.

Fyrir örfáum dögum tók Gabriel Brammer, stjörnufræðingur hjá ESO, glæsilegt myndskeið af halastjörnunni Lovejoy rísa upp yfir sjóndeildarhringinn skömmu fyrir sólarupprás. Brammer starfar sem aðstoðarstjörnufræðingur í Paranal stjörnustöðinni í Chile og var að ljúka næturvakt þegar hann tók myndirnar.

„Ég fór út þegar minni vakt lauk, rétt fyrir sólarupprás, til að berja hana augum“ segir Gabriel Brammer. „Halinn sást auðveldlega með berum augum en mánasigðin, halastjarnan, Vetrarbrautin og leysigeislastjarnan eru næstum jafn tignarleg að sjá á myndunum og með berum augum.“

Á myndskeiðinu sést einnig þunn mánasigð og örmjór leysigeisli sem skotið er upp í himininn frá einum af VLT sjónaukunum, frammi fyrir fallegri vetrarbrautarslæðunni, er stjörnufræðingar unnu að síðustu mælingum næturinnar.

Guillaume Blanchard, sjóntækjafræðingur hjá ESO, tók fallegar víðmyndir af halastjörnunni Lovejoy og Yuri Beletsky, ljósmyndari ESO, fangaði augnablikið frá Santiago í Chile.

Þessi bjarta halastjarna sást líka úr Alþjóðlegu geimstöðinni. Geimfararnir tóku stórglæsilegt myndskeið af eldingum á næturhlið jarðar og sést halastjarnan rísa yfir ystu sjónarrönd á því.

Halastjarnan Lovejoy hefur vakið athygli stjörnufræðinga og stjörnuáhugafólks undanfarnar vikur. Það var ástralski stjörnuáhugamaðurinn Terry Lovejoy sem fann halastjörnuna á myndum sem hann tók 27. nóvember síðastliðinn. Fljótlega kom í ljós að hún tilheyrði Kreutz sólsleikjum vegna þess að braut hennar liggur mjög nærri sólinni [1]. Menn fylgdust því spenntir með í síðustu viku þegar halastjarnan fór inn í kórónu sólar og komst næst brennheitu yfirborðinu í aðeins 140.000 km hæð.

Allir áttu von á að halastjarnan myndi sundrast og gufa upp í hita sólarinnar. Öllum að óvörum komst hún af og lét sjá sig hinumeginn sólar stuttu seinna. Hún sést nú frá suðurhveli jarðar, við sólarupprás, prýdd nokkurra milljón km löngum hala úr ís- og rykögnum sem sólvindurinn feykir burt frá halastjörnunni.

Lovejoy heldur áfram að fjarlægast sólina. Ílöng braut hennar ber hana langt út í ystu afkima sólkerfisins. Forvitnilegt er að vita hvort hún birtist aftur á himninum eftir 314 ár eins og spáð er.

Með þessu glæsilega myndskeiði af Lovejoy, jólahalastjörnu ársins 2011, óskar ESO öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Credit

G. Brammer/ESO

Skýringar

[1] Kreutz sólsleikjur er hópur halastjarna sem talinn er hafa orðið til þegar ein stór halastjarna tvístraðist á 12. öld. Öll brotin er á svipaðri braut um sólina.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Gabriel Brammer
ESO
Vitacura, Chile
Farsími: +56 9 94 89 00 75
Tölvupóstur: gbrammer@eso.org

Lars Lindberg Christensen
Head, ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Farsími: +49 173 3872 621
Tölvupóstur: lars@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1153.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1153is
Nafn:C/2011 W3 (Lovejoy), Paranal, Photo Ambassador, Santiago
Tegund:Solar System : Interplanetary Body : Comet
Facility:Very Large Telescope

Myndir

Christmas comet Lovejoy captured at Paranal
Christmas comet Lovejoy captured at Paranal
texti aðeins á ensku
Christmas Comet Lovejoy seen over Santiago
Christmas Comet Lovejoy seen over Santiago
texti aðeins á ensku
Christmas comet Lovejoy captured at Paranal
Christmas comet Lovejoy captured at Paranal
texti aðeins á ensku

Myndskeið

eso1153a
eso1153a
texti aðeins á ensku