Kids

eso1212is — Fréttatilkynning

Matarvenjur vetrarbrauta á unglingsaldri

14. mars 2012

Nýjar mælingar Very Large Telescope ESO hafa lagt fram nýja og mikilvæga þekkingu á vexti vetrarbrauta á unglingsaldi. Í stærstu rannsókn sinnar tegundar hafa stjörnufræðingar komist að því að vetrarbrautirnar breyttu matarvenjum sínum á táningsárunum um það bil 3 til 5 milljörðum ára eftir Miklahvell. Við upphaf þessa skeiðs nærðust vetrarbrautirnar einkum á samfelldu flæði gass en uxu síðar meir að mestu með því að háma í sig smærri vetrarbrautir.

Stjörnufræðingar hafa lengi vitað að fyrstu vetrarbrautir alheimsins voru miklu smærri en þær tignarlegu þyril- og sporvöluþokur sem við sjáum í dag. Yfir ævi alheimsins hafa vetrarbrautir bætt miklu á sig en fæði og matarvenjur þeirra eru enn nokkuð á huldu. Í nýrri rannsókn á nokkrum vel völdum vetrarbrautum hafa stjörnufræðingar beint kastljósinu að táningsárum þeirra — því tímabili í ævi þeirra sem stóð yfir þremur til fimm milljörðum ára eftir Miklahvell.

Með því að færa sér í nyt tæki í hæsta gæðaflokki á Very Large Telescope ESO er alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga að komast að því hvernig vetrarbrautirnar uxu. Athuganir stóðu yfir í meira en hundrað klukkustundir en á þeim tíma gerðu stjörnufræðingarnir mjög nákvæmar mælingar á gasríkum vetrarbrautum á fyrri hluta ævi þeirra og bjuggu um leið til stærsta gagnasafn sem til er af slíkum vetrarbrautum [1].

„Vetrarbrautir eru einkum taldar vaxa á tvennan máta: Við hamfarakennda samruna þegar stórar vetrarbrautir éta þær smærri eða við hæglátt en stöðugt gasflæði í vetrarbrautirnar. Bæði ferli geta leitt til mikillar nýmyndunar stjarna“ útskýrir Thierry Contini (IRAP í Toulouse í Frakklandi) sem hafði umsjón með rannsókninni.

Niðurstöðurnar nýju benda til að mikil breyting hafi orðið á þróun vetrarbrauta þegar alheimurinn var milli 3 og 5 milljarða ára gamall. Hæglátt en samfellt gasflæði (eso1040) virðist hafa átt stóran þátt í mótun vetrarbrauta snemma í sögunni en síðar urðu samrunar áhrifameiri.

„Til að skilja hvernig vetrarbrautir uxu og þróuðust verðum við að skoða þær í eins miklum smáatriðum og unnt er. SINFONI mælitækið á VLT sjónauka ESO er eitt öflugasta tæki heims til að grannskoða ungar vetrarbrautir í órafjarlægð. Þetta tæki gegnir í raun samskonar hlutverki og smásjáin fyrir líffræðinga“ segir Contini.

Vetrarbrautirnar fjarlægu eru lítið annað en örsmáir ljósdeplar á himinhvelfingunni. En þökk sé hágæða myndum SINFONI mælitækisins á VLT [2] geta stjörnufræðingar mælt hreyfingu gass í mismunandi hlutum vetrarbrautanna og áttað sig á efnasamsetningu þeirra. Ýmislegt óvænt kom á daginn.

„Í mínum huga kom mest á óvart að við skyldum uppgötva að gasið í mörgum vetrarbrautum snerist ekkert. Það á sér engin fordæmi í nágrenni okkar í alheiminum. Ekki er til nein kenning í dag sem spáir fyrir um slíka hegðun“ segir Benoît Epinat, meðlimur í hópnum.

„Við bjuggumst ekki heldur við að sjá ummerki þungra frumefna í útjöðrum margra þessara ungu vetrarbrauta — það er algerlega á skjön við það sem við sjáum í vetrarbrautum í dag“ bætir Thierry Contini við.

Stjörnufræðingarnir eru skammt á veg komnir í rannsóknum sínum enda voru mælingarnar mjög viðamiklar. Þeir hyggjast gera frekari mælingar á vetrabrautunum með nýjum tækjum sem komið verður fyrir á VLT í náinni framtíð en ætla sér líka að nota ALMA til að rannsaka kalda gasið í vetrarbrautunum. Í fjarlægari framtíð verður European Extremely Large Telescope vel í stakk búinn til að skyggnast enn lengra inn í þennan unga og fjarlæga alheim.

Skýringar

[1] Rannsóknin er kölluð MASSIV sem stendur fyrir Mass Assembly Survey with SINFONI in VVDS. VVDS er skammstöfun fyrir VIMOS-VLT Deep Survey verkefnið. VIMOS er VIsible imaging Mulit-Object Spectrograph, mjög öflug myndavél og litrófsriti á VLT sem notað var til að finna vetrarbrautirnar í MASSIV rannsókninni og mæla fjarlægðirnar og aðra eiginleika.

[2] SINFONI stendur fyrir Spectrograph for INtegral Field Observations in the Near Infrared. Þetta tæki, sem er á VLT, var notað í MASSIV rannsókninni. SINFONI er nær-innrauður (1,1-2,45 µm) heildarsviðs-litrófsriti sem notar aðlögunarsjóntækni til að bæta gæði mælinganna.

Frekari upplýsingar

Sagt er frá þessu í fjórum greinum um MASSIV rannsóknina í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Í rannsóknarteyminu eru T. Contini (Institut de Recherche en Astrophysique et Planétologie [IRAP], CNRS í Toulouse í Frakklandi), B. Epinat (Laboratoire d'Astrophysique de Marseille í Frakklandi [LAM]), D. Vergani (INAF — Osservatorio Astronomico di Bologna á Ítalíu), J. Queyrel (IRAP), L. Tasca (LAM), B. Garilli (Istituto di Astrofisica Spaziale e Fisica Cosmica-INAF í Mílanó á Ítalíu [IASF-INAF]), O. Le Fevre (LAM), M. Kissler-Patig (ESO), P. Amram (LAM), J. Moultaka (IRAP), L. Paioro (IASF-INAF), L. Tresse (LAM), C. López-Sanjuan (LAM), E. Perez-Montero (Instituto de Astrofísica de Andalucía í Granada á Spáni), C. Divoy (IRAP) og V. Perret (LAM).

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Thierry Contini
Institut de Recherche en Astrophysique et Planétologie, CNRS & Université de Toulouse
Toulouse, France
Sími: +33 561 332 814
Farsími: +33 662 641 268
Tölvupóstur: Thierry.Contini@irap.omp.eu

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1212.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1212is
Nafn:Galaxies, VIMOS-VLT Deep Survey (VVDS)
Tegund:Early Universe : Cosmology : Morphology : Deep Field
Facility:Very Large Telescope
Instruments:SINFONI, VIMOS
Science data:2012A&A...546A.118V
2012A&A...539A..93Q
2012A&A...539A..92E
2012A&A...539A..91C

Myndir

Vetrarbrautir á táningsaldri í hinum fjarlæga alheimi
Vetrarbrautir á táningsaldri í hinum fjarlæga alheimi
Vetrarbrautir á táningsaldri í hinum fjarlæga alheimi (ómerkt)
Vetrarbrautir á táningsaldri í hinum fjarlæga alheimi (ómerkt)
Vetrarbrautir á táningsaldri í hinum fjarlæga alheimi og hreyfing gass í þeim
Vetrarbrautir á táningsaldri í hinum fjarlæga alheimi og hreyfing gass í þeim
Víðmynd af himninum í umhverfis sviðið sem kannað var í MASSIV rannsókninni
Víðmynd af himninum í umhverfis sviðið sem kannað var í MASSIV rannsókninni

Myndskeið

Þysjað inn að vetrarbrautum á táningsaldri í hinum fjarlæga alheimi
Þysjað inn að vetrarbrautum á táningsaldri í hinum fjarlæga alheimi