eso1215is — Fréttatilkynning

ESO stækkar höfuðstöðvar sínar

4. apríl 2012

Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (ESO) hefur ráðið arkitektastofuna Auer+Weber til að hanna nýjar höfuðstöðvar sínar í Garching við München í Þýskalandi. Í þessari nýstárlegu byggingu verður starfslið samtakanna í Garching, sem fer fjölgandi, hýst auk þess sem þróun nýrrar tækni í metnaðarfull verkefni ESO á borð við European Extremely Large Telescope fer fram. Búist er við að byggingin verði tilbúin fyrir árslok 2013 og muni hafa mikil áhrif á vöxt rannsóknasvæðisins í Garching.

Í næstum hálfa öld hafa stjörnustöðvar og stjarnvísindarannsóknir ESO fært Evrópu í forystuhlutverk í stjarnvísindum á heimsvísu. Með mikilli skipulagni og tækniþróun hefur sýn samtakanna getið af sér Very Large Telescope (VLT), öflugustu sjónauka heims fyrir rannsóknir á sýnilegu ljósi. ESO vinnur nú að næstu kynslóð sjónauka og, ásamt alþjóðlegum samstarfsaðilum sínum, að Atacama large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), stærsta og þróaðasta sjónauka sinnar tegundar í heiminum. Næsta stóra verkefni er smíði European Extremely Large Telescope (E-ELT) sem verður stærsta auga jarðar með 39,3 metra breiðan safnspegil.

Á sama tíma eru aðildarríki ESO orðin 15 talsins og saman mynda þau öflugustu stjörnustöð jarðar. Bein afleiðing vaxtarins er sú að nú starfa 740 manns í höfuðstöðvunum í Garching við München í Þýskalandi og á þremur stöðum í Chile.

Höfuðstöðvar ESO voru reistar árið 1980 og leystu þá af hólmi skrifstofuaðstöðuna í CERN þar sem aðeins 40 manns störfuðu. Í lok níunda áratugarins var fimmtu hæðinni bætt við höfuðstöðvarnar til að vega upp á móti fjölgun starfsmanna en tveimur áratugum síðar er húsnæðið orðið alltof lítið. ESO hefur þess vegna leigt skrifstofurými af Max-Planck stofnunni í Garching, sem er til húsa við hliðina, þar sem 500 starfsmenn ESO vinna. Einnig voru settar upp bráðabirgðaskrifstofur fyrir framan aðalbygginguna til að auðvelda samstarf milli deilda.

ESO ráðinu var ljós að stækka þurfti höfuðstöðvar samtakanna enda starfsfólk í bráðabirgðahúsnæði og ýmsir starfshópar á mismunandi stöðum á svæðinu í kring. Efnt var til hönnunarsamkeppni þar sem arkitektastofan Auer+Weber varð hlutskörpust. Sama arkitektastofa hannaði hið margverðlaunaða Residencia hótel í Paranal stjörnustöðinni í Chile sem lék stórt hlutverk í James Bond kvikmyndinni Quantum of Solace. Auer+Weber hannaði og skipulagði nýju bygginguna en verktakinn Bam Deutschland AG sér um smíðina.

„Smíði nýrra höfuðstöðva markar mikilvæg tímamót í sögu ESO. Nýja byggingin gerir okkur kleift að vinna enn betur að markmiðum okkar, sem eru að smíða og reka stjörnustöðvar á jörðu niðri á heimsmælikvarða. Á sama tíma fæst sterkari samkennd þar sem allt starfsfólkið vinnur á sama stað“ segir Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO.

Útlit nýju höfuðstöðvanna verður í sama dúr og eldri byggingin. Bæði skrifstofu- og tæknibygging verður, sem og brú sem tengir saman nýju bygginguna við þá gömlu. Áhersla verður lögð á náttúrulega birtu innandyra, auk þess sem tveir innri húsagarðar verða. Byggingarnar hafa þess vegna verið kallaðar „grænar“.

Nýju skrifstofu- og tæknibyggingarnar verða í heild 18.700 fermetrar að flatarmáli sem tvöfaldar flatarmál höfuðstöðva ESO.

Tæknibyggingin verður sívalningslaga og með sama þvermál og 39,3 metra safnspegill E-ELT. Hún verður miðpunktur vísinda- og tækniþróunar og mun án efa efla þátt Bæjaralands í hátækniiðnaði. Þar verða öflugustu mælitæki ESO þróuð, smíðuð, sett saman, prófuð og uppfærð. Byggingin verður 2.900 fermetrar að flatarmáli og mun líka hýsa stærsta stjarnfræðilega tölvugagnasafn í heiminum.

Smíði hófst í janúar 2012 en verklok eru áætluð fyrir árslok 2013.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Christoph Haupt
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6310
Tölvupóstur: chaupt@eso.org

Lars Lindberg Christensen
Head, ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49-89-3200-6761
Farsími: +49-173-3872-621
Tölvupóstur: lars@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1215.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1215is
Nafn:ESO HQ Garching
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory : Facility
Facility:Other

Myndir

Tölvugerð mynd af nýjum, stækkuðum höfuðstöðvum ESO (að degi til)
Tölvugerð mynd af nýjum, stækkuðum höfuðstöðvum ESO (að degi til)
Tölvugerð mynd af nýjum, stækkuðum höfuðstöðvum ESO (að nóttu til)
Tölvugerð mynd af nýjum, stækkuðum höfuðstöðvum ESO (að nóttu til)
Stækkaðar höfuðstöðvar ESO í byggingu
Stækkaðar höfuðstöðvar ESO í byggingu
Teikningar af stækkuðum höfuðstöðvum ESO
Teikningar af stækkuðum höfuðstöðvum ESO
Tölvugerð mynd af stækkuðum höfuðstöðvum ESO (innandyra)
Tölvugerð mynd af stækkuðum höfuðstöðvum ESO (innandyra)
Tölvugerð mynd af stækkuðum höfuðstöðvum ESO (að kvöldi til)
Tölvugerð mynd af stækkuðum höfuðstöðvum ESO (að kvöldi til)