Kids

eso1226is — Fréttatilkynning

VLT skoðar NGC 6357

20. júní 2012

Very Large Telescope (VLT) ESO hefur tekið nákvæmustu myndina hingað til af hluta glæsilegs stjörnumyndunarsvæðis sem nefnist NGC 6357. Á myndinni sést fjöldi heitra, ungra stjarna, glóandi gasský og furðulegar rykmyndanir sem útfjólublátt ljós og stjörnuvindar hafa mótað.

Djúpt í vetrarbrautinni okkar, í stjörnumerkinu Sporðdrekanum, er geimþoka sem kölluð er NGC 6357 [1], staður í geimnum þar sem nýjar stjörnur myndast úr gasi og ryki [2]. Very Large Telescope ESO hefur nú ljósmyndað ytri svæði þessarar risavöxnu geimþoku en myndin er sú besta sem tekin hefur verið af henni hingað til [3].

Myndin nýja sýnir breiða rykslæðu sem liggur yfir miðjuna og gleypir ljós frá fjarlægari fyrirbærum fyrir aftan. Hægra megin er litil þyrping ungra, bjartra, blá-hvítra stjarna sem hafa orðið til úr gasinu. Líklega er þessi þyrping aðeins nokkurra milljóna ára gömul, barnung á stjarnfræðilegan mælikvarða. Þessar stjörnur gefa frá sér sterka útfjólubláa geislun sem feykir gasinu og rykinu burt og heggur út holrúm og aðrar skringilegar myndanir.

Öll myndin er þakin dökkum geimryksslæðum en áhugaverðustu dökku svæðin sjást á hægri helmingi myndarinnar. Þar hefur geislunin frá ungu, björtu stjörnunum myndað forvitnilega stólpa sem minna á fílsrana og líkjast „stöplum sköpunarinnar“ í Arnarþokunni (opo8544a). Geimrykið er miklu fínna en jarðneska rykið. Þeð líkist miklu frekar sóti og samanstendur að mestu af sílikat-, grafít- og vatnsísögnum sem eldri kynslóðir stjarna þeyttu út í geiminn.

Í bjarta miðsvæði NGC 6357 er þyrping hámassastjarna sem margar hverjar eru meðal björtustu stjarna vetrarbrautarinnar. Hubble geimsjónauki NASA og ESA hefur rannsakað þetta svæði, sem sést ekki á þessari nýju mynd, nokkuð ítarlega (heic0619). Þessi nýja mynd sýnir hins vegar að jafnvel í óþekktari hlutum þessa stjörnuhreiðurs eru heillandi svæði sem VLT sjónaukinn leiðir í ljós.

Þessi mynd var tekin fyrir Cosmic Gems verkefni ESO [4].

Skýringar

[1] Þessi þoka ber líka nafnið Stríð og friður þokan sem þó tengist skáldsögu Tolstoys ekki neitt en stjörnufræðingar sem unnu við Midcourse Space Experiment verkefnið gáfu henni það. Í innrauðu ljósi fannst þeimfannst vesturhluti þokunnar minna á dúfu en austurhlutinn á hauskúpu. Þetta sést því miður ekki í sýnilegu ljósi á þessari mynd. Fyrirbærið er líka stundum kölluð Humarþokan.

[2] John Herschel uppgötvaði NGC 6357 árið 1837 þegar hann var við stjörnuathuganir í Suður Afríku. Herschel tók aðeins eftir björtustu miðsvæðum þokunnar en heildarumfang þessarar stóru þoku sást ekki fyrr en myndir voru teknar miklu síðar.

[3] Hubblessjónauki NASA og ESA hefur ekki rannsakað þann hluta NGC 6357 sem hér sést á mynd VLT.

[4] ESO Cosmic Gems verkefnið er nýtt framtak snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1226.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1226is
Nafn:NGC 6357, Pismis 24
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Digitized Sky Survey 2, Very Large Telescope
Instruments:FORS2

Myndir

Nærmynd af NGC 6357
Nærmynd af NGC 6357
NGC 6357 í stjörnumerkinu Sporðdrekanum
NGC 6357 í stjörnumerkinu Sporðdrekanum
Víðmynd af svæðinu í kringum NGC 6357
Víðmynd af svæðinu í kringum NGC 6357

Myndskeið

Þysjað inn að NGC 6357
Þysjað inn að NGC 6357
Skimað yfir NGC 6357 þokuna
Skimað yfir NGC 6357 þokuna