Kids

eso1233is — Fréttatilkynning

Ceci N’est Pas Une Pipe

Forvitnileg skuggaþoka í meiri smátriðum en nokkru sinni fyrr

15. ágúst 2012

Rétt eins og þegar René Magritte skrifaði „Þetta er ekki pípa“ á frægt málverk sitt, er þessi mynd heldur pípa. Hún sýnir hluta af stóru rykskýi í geimnum sem kallast Pípuþokan. Þessi nýja mynd er af því sem einnig kallast Barnard 59 en hún var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörrnustöð ESO í La Silla. Fyrir tilviljun birtist myndin á 45 ára ártíð málarans.

Pípuþokan er prýðisdæmi um skuggaþoku. Stjörnufræðingar töldu fyrst að þær væru stjörnulaus svæði í geimnum en síðar kom í ljós að skuggaþokur eru í raun ský úr miðgeimsryki sem eru svo þykk að þau skyggja á ljós frá stjörnunum á bak við. Pípuþokan birtist okkur því sem skuggamynd frammi fyrir stjörnuskýi nálægt miðju vetrarbrautarinnar í stjörnumerkinu Naðurvalda.

Barnard 59 myndar munnstykki Pípuþokunnar [1] og er viðfangsefni þessrar nýju ljósmyndar frá Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum. Þessi sérkennilega og flókna skuggaþoka er í sex til sjö hundruð ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Þokan dregur nafn sitt af bandaríska stjörnufræðingnum Edward Emerson Barnard sem skrásetti fyrstur manna skuggaþokur á ljósmyndum sem teknar voru á löngum tíma af himninum og var einn af þeim fyrstu sem tókst að átta sig á rykeðli þeirra. Barnard kortlagði í heild 370 skuggaþokur á himinhvolfinu. Hann komst áætíð áfram í lífinu á eigin verðleikum og keypti sér eigið hús fyrir verðlaunafé sem hann hlaut fyrir uppgötvun á nokkrum halastjörnum. Barnard var framúrskarandi stjörnuathugandi með einstaka sjón sem lagði sitt af mörkum til margra sviða stjarnvísinda seint á 19. öld og snemma á þeirri 20.

Við fyrstu sýn fangar miðja myndarinnar líklega athygli þína, þar sem dökk, snúin ský minna á fætur stórrar köngulóar á vef úr stjörnum. Eftir augnablik tekurðu sennilega eftir nokkrum fínni smáatriðum í þeim. Í miðju myrkrinu sjást þokukennd mynstur sem nýjar stjörnur í mótun lýsa upp. Stjörnumyndun er algeng á svæðum sem innihalda þétt sameindaský á borð við skuggaþokur. Rykið og gasið hleypur í kekki fyrir tilverknað þyngdarkraftsins og sífellt meira efni dregst að uns stjarna er mynduð. Í samanburði við önnur svipuð svæði er fremur lítil stjörnumyndun í Barnard 59 en mikið ryk.

Ef vel er að gáð gætir þú einnig komið auga á meira en tug lítilla blárra, grænna og rauðra ráka þvert yfir myndina. Þetta eru smástirni, litlir berg- og málmhnettir sem eru nokkrir kílómetrar í þvermál á sveimi um sólina. Meirihluti þeirra er í smástirnabeltinnu milli Mars og Júpíters. Barnard 59 er um tíu milljón sinnum lengra í burtu frá jörðinni en þessi litlu fyrirbæri [2].

Og að lokum, á meðan þú móttekur þessa mynd, veltu því þá fyrir þér um stund, að þegar þú horfir á þetta svæði á himninum frá jörðinni, gætirðu hulið allt þetta svæði á bak við þumalfingurinn á útréttri hendi, þótt svæðið sé um sex ljósár í þvermál.

Skýringar

[1] Pípuþokan öll samanstendur af Barnard 65, 66, 67 og 78 til viðbótar við Barnard 59. Hún sést auðveldlega með berum augum á dimmum himni, best frá suðlægum slóðum þar sem hún er hærra á lofti.

[2] Smástirni færðust úr stað á meðan myndirnar voru teknar og koma fram sem stuttar slóðir á myndinni. Þar sem þessi mynd var sett saman úr nokkrum myndum teknum í mismunandi litum á mismunandi tímum, koma fram mislitar slóðir sem færast miðað við hver aðra.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT & Survey Telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1233.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1233is
Nafn:Pipe Nebula
Tegund:Solar System : Nebula : Appearance : Dark
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Munnstykki Pípuþokunnar
Munnstykki Pípuþokunnar
Barnard 59, skuggaþoka í stjörnumerkinu Naðurvalda
Barnard 59, skuggaþoka í stjörnumerkinu Naðurvalda

Myndskeið

Þysjað inn að skuggaþokunni Barnard 59
Þysjað inn að skuggaþokunni Barnard 59
Skimað yfir skuggaþokuna Barnard 59
Skimað yfir skuggaþokuna Barnard 59