eso1240is — Fréttatilkynning

Hátíðarkvöldverður í tilefni 50 ára afmælis Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli

12. október 2012

Fimmtudagskvöldið 11. október 2012 fór fram hátíðarkvölverður í Kaisersaal salnum í Residenz höllinni í Munchen í Þýskalandi í tilefni af 50 ára afmæli Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli.

Prófessor Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO og prófessor Xavier Barcons, forseti ESO ráðsins, tóku á móti fulltrúum aðildarríkja ESO og gestaþjóðarinnar Chile sem og ESO ráðinu, nefndarfulltrúum og fyrri framkvæmdarstjórum samtakanna auk þekktra stjörnufræðinga og öðrum lykilpersónum í sögu ESO.

Með kvöldverðinum [1] var haldið upp á árangurinn sem náðst hefur á þeim fimmtíu árum sem liðin eru frá því að ESO sáttmálinn var undirritaður í október 1962 og varð til þess að samtökin voru sett á laggirnar. Síðastliðna hálfu öld hefur ESO orðið öflugasta stjörnustöð heims og með veislunni var haldið upp á framlög margra lykilpersóna og samtaka sem hafa leikið lykilhlutverk í árangri ESO.

Í opnunarræðu sinni sagði prófessor Barcons: „Samvinna okkar sem meðlimir í ESO veitir aðildarríkjunum mikilvæga leið til að þróa og byggja upp stjörnustöðvar á heimsmælikvarða, nokkuð sem löndin gætu ekki gert hvert í sínu lagi, og sýnir jaframt að vísindasamstarf er hafið yfir landamæri.“

Dr. Annette Schavan, mennta- og vísindamálaráðherra Þýskalands, bauð gestina velkomna til Þýskalands og sagði: „Rannsóknirnar sem ESO stendur fyrir eru á heimsmælikvarða og við viljum gegna áfram forystuhlutverki okkar í framtíðinni. Sögur af góðum árangri lifa af því að vera sagðar aftur og aftur og þess vegna mikilvægt að ljúka smíði stærsta stjörnusjónauka heims, European Extremely Large Telescope. E-ELT gæti veitt okkur svör við mest aðkallandi spurningum í stjarneðlisfræði.“

„ESO er framúrskandi og dýrmætt kennimerki í hinu frjósama rannsóknarlandslagi Bæjaralands“ sagði Dr. Wolfgang Heubisch, sambandsráðherra mennta-, vísinda- og menningarmála í Bæjaralandi í Þýskalandi. „ESO leggur sitt af mörkum til orðstírs Bæjaralands sem mikilvægan stað vísinda og laðar til sín marga af hæfustu vísindamönnum heims.“

Prófessor Brian Schmidt, handhafi Nóbelsverðlaunanna í eðlisfræði árið 2011, var meðal þeirra kunnu vísindamanna sem sóttu kvöldverðarboðið. Schmidt tók saman sýn sína á ESO og sagði: „Ég sé ekki aðeins að framtíð stjarnvísinda hjá ESO sé björt, heldur að ESO sé framtíð stjarnvísinda.“

Prófessor Tim de Zeeuw talaði um þróun ESO og stjörnustöðvanna þriggja á La Silla Paranal og Chajnantor, sem og Armazones þar sem European Extremely Large Telescope verður reistur. Stöðvarnar eru afrakstur markmiða samtakanna um þróun og rekstur stjörnustöðva á heimsmælikvarða og efla samstarf í stjarnvísindum.

„Árangur ESO fæst með áhugasömu og einstaklega hæfu starfsfólki, auk mikilvægra framlaga frá iðnaði og vísinda- og tæknistofnunum í aðildarríkjunum,“ sagði prófessor de Zeeuw.

Prófessor de Zeeuw horfði líka til framtíðar ESO og stjarnvísinda almennt og lagði áherslu á mikilvægi stjarnvísindarannsókna fyrir samfélagið og tók fram að „ef samfélag okkar hefur ekki áhuga á vísindum erum við dauðadæmd. Við þurfum opna og frjóa hugsun og grundvallarrannsóknir.“

Gestir horfðu einnig á kafla úr Europe to the Stars — ESO’s first 50 years of Exploring the Southern Sky, heimildarmynd sem segir sögu ESO um hönnun, smíði og rekstur öflugustu stjörnusjónauka heims.

Í lok kvöldins rituðu fulltrúar þjóðanna, auk de Zeeuws og Barcons, nöfn sín á frumgerð spegils fyrir European Extremely Large Telescope, stærsta auga jarðar. Hinn 39 metra breiði safnspegill E-ELT verður úr 798 slíkum spegileiningum, hver 1,4 metrar á breidd en aðeins 50 millímetrar að þykkt. E-ELT verður langstærsti sjónauki heims fyrir sýnilegt og innrautt ljós. Undirskriftirnar á þessari einingu verða grafnar í glerið og það gert að varanlegum minnisvarða um fyrstu 50 ár ESO.

Eftir þessa athöfn sagði Alfredo Moreno, utanríkisráðherra Chile: „Stjörnuskoðunarstaðirnir í Chile eru þeir heiðskírustu á jörðinni, sem gerir þá að einstöku glugga að rannsóknum á suðurhimninum og sterkt vísinda- og tæknisamfélag í Chile veitir lykilstuðning við þróun stjarnvísindarannsókna. Við erum afar stolt af því að vera hýsa ESO og marka 50 ára samstarf okkar í að efla skilning á alheiminum.“

Skýringar

[1] Kvöldverðurinn er einn af nokkrum viðburðum sem helgaðir eru afmæli ESO. Frekari upplýsingar má nálgast hér.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Douglas Pierce-Price
Public Information Officer, ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6759
Tölvupóstur: dpiercep@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1240.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1240is
Nafn:ESO 50th anniversary, ESO Director General
Tegund:Unspecified : People : Other/General
Facility:Other

Myndir

Gala event celebrates 50 years of the European Southern Observatory
Gala event celebrates 50 years of the European Southern Observatory
texti aðeins á ensku
Brian Schmidt at ESO 50th anniversary gala event
Brian Schmidt at ESO 50th anniversary gala event
texti aðeins á ensku
Tim de Zeeuw at ESO 50th anniversary gala event
Tim de Zeeuw at ESO 50th anniversary gala event
texti aðeins á ensku
Signing of a prototype mirror segment for the E-ELT, to mark ESO’s 50th anniversary
Signing of a prototype mirror segment for the E-ELT, to mark ESO’s 50th anniversary
texti aðeins á ensku
ESO 50th anniversary gala event in the Kaisersaal of the Munich Residenz in Germany
ESO 50th anniversary gala event in the Kaisersaal of the Munich Residenz in Germany
texti aðeins á ensku
Munich Residenz Kaisersaal, Germany
Munich Residenz Kaisersaal, Germany
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESO’s 50th Anniversary Gala Event compilation
ESO’s 50th Anniversary Gala Event compilation
texti aðeins á ensku