eso1303is — Fréttatilkynning

Ljós úr myrkrinu

16. janúar 2013

Á þessari nýju og glæsilegu mynd ESO sést dökkt ský sem í eru að myndast nýjar stjörnur, auk þyrpingar bjartra stjarna sem hafa þegar yfirgefið rykuga fæðingarstaði sína. Myndin var tekin með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile og er sú besta sem til er af þessu lítt þekkta fyrirbæri í sýnilegu ljósi.

Vinstra megin á myndinni sést dökkur stólpi sem minnir á reykmökk. Hægra megin skín lítill hópur bjartra stjarna. Við fyrstu sýn gætu svæðin vart verið ólíkari en í raun eru þau nátengd. Skýið inniheldur mikið magn af köldu geimryki og er staður þar sem nýjar stjörnur eru að fæðast. Sennilega varð sólin okkar til í svipuðu stjörnumyndunarsvæði fyrir rúmum fjórum milljörðum ára.

Skýið er kallað Lupus 3 og er í um 600 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Svæðið sem sést á myndinni er um fimm ljósár á breidd.

Þegar þéttustu hlutar skýja af þessu tagi byrja að falla saman fyrir tilverknað þyngdarkraftsins, hitna þau og taka að skína. Í fyrstu kemur rykskýið í veg fyrir að geislunin berist í gegn svo hún sést aðeins með sjónaukum sem nema lengri bylgjulengdir en sýnilegt ljós, eins og innrautt. Þegar stjörnurnar verða heitari og bjartari, hreinsar geislun og vindur frá þeim skýið í kring, uns þær brjótast út úr því í allri sinni dýrð.

Björtu stjörnurnar hægra megin við miðju myndarinnar eru gott dæmi um lítinn hóp slíkra stjarna. Rykið sem eftir er í kringum þær, dreifir bjarta bláa ljósinu frá þeim að hluta til. Tvær björtustu stjörnurnar eru nógu bjartar til að sjást leikandi í gegnum litla stjörnu- eða handsjónauka. Þær eru ungar stjörnur sem hafa enn ekki byrjað að skína vegna kjarnasamruna og eru sveipaðar glóandi gasi [1]. Líklega eru þær innan við milljón ára gamlar.

Þótt þessar stjörnur séu ekki jafn áberandi og björtu bláu stjörnurnar, hafa rannsóknir stjörnufræðinga leitt í ljós fjölmargar aðrar ungar stjörnur á svæðinu, sem er eitt nálægasta stjörnumyndunarsvæðið við sólina okkar.

Stjörnumyndunarský geta verið risavaxin, eins og til dæmis Tarantúluþokan (eso0650) en í henni eru mörg hundruð massamiklar stjörnur í mótun. Flestar stjörnur í Vetrarbrautinni okkar eru aftur á móti taldar myndast í miklu minni skýjum en því sem hér sést, þar sem einungis tvær stjörnur sjást og engar mjög þungar stjörnur verða til. Af þessari ástæðu er Lupus 3 svæðið heillandi fyrir stjörnufræðinga og fallegt dæmi um fyrstu stigin í ævi stjörnu.

Skýringar

[1] Þessi fyrirbæri eru þekkt sem Herbig Ae/Be stjörnur, nefndar eftir stjörnufræðingnum sem skilgreindi þær fyrst. A og B vísa til litrófsgerða stjarnanna sem eru nokkuð heitari en sólin okkar en „e“ vísar til ljómlína í litrófum þeirra, sem er komin til af glóandi gasi í kringum þær. Þær gefa frá sér ljós með því að breyta þyngdarstöðuorku í varma þegar þær skreppa saman.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Fernando Comeron
ESO
Garching bei München, Germany
Tölvupóstur: fcomeron@eso.org

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1303.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1303is
Nafn:Lupus 3
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Dark
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Skuggaþokan Lupus 3 og tengdar, heitar, ungar stjörnur
Skuggaþokan Lupus 3 og tengdar, heitar, ungar stjörnur
Skuggaþokan Lupus 3 í stjörnumerkinu Sporðdrekanum
Skuggaþokan Lupus 3 í stjörnumerkinu Sporðdrekanum
Víðmynd af skuggaþokunni Lupus 3 og tengdum, heitum, ungum stjörnum
Víðmynd af skuggaþokunni Lupus 3 og tengdum, heitum, ungum stjörnum

Myndskeið

Þysjað inn að skuggaþokunni Lupus 3 og tengdum, heitum, ungum stjörnum
Þysjað inn að skuggaþokunni Lupus 3 og tengdum, heitum, ungum stjörnum
Skimað yfir skuggaþokuna Lupus 3 og tengdar, heitar, ungar stjörnur
Skimað yfir skuggaþokuna Lupus 3 og tengdar, heitar, ungar stjörnur