eso1348is — Fréttatilkynning

Líf og dauði í Stóra Magellansskýinu

27. nóvember 2013

Stóra Magellansskýið er ein nálægasta vetrarbrautin við okkur. Nýverið notuðu stjörnufræðingar Very Large Telescope ESO til að skoða eitt af óþekktari svæðum hennar. Á myndinni sést gas- og rykský að mynda heitar, nýjar stjörnur sem aftur móta sérkennileg form í skýið. Á myndinni sjást líka slæður sem sprengistjörnur hafa myndað.

Stóra Magellansskýið er ein nálægasta vetrarbrautin við okkur í um 160.000 ljósára fjarlægð (eso1311) í stjörnumerkinu Sverðfisknum. Í henni er mikil stjörnumyndun á svæðum sem eru svo björt, að sum sjást jafnvel með berum augum, eins og Tarantúluþokan (eso1033). Á myndinni, sem tekin var með Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile, sést svæði sem nefnist NGC 2035 (hægri), stundum kallað Drekahöfuðsþokan.

NGC 2035 er rafað vetnisský eða ljómþoka; gasský sem glóir vegna orkuríkar geislunar frá ungum stjörnum. Geislunin rífur rafeindir af gasatómum, sem að lokum bindast öðrum atómum og gefa þá frá sér ljós. Í skýinu eru líka dökkir rykkekkir sem gleypa ljós í stað þess að gefa það frá sér og mynda þeir dökka þræði og form í þokunni.

Þræðirnir vinstra megin á myndinni eru ekki komnir til af stjörnum sem eru að myndast, heldur stjörnum sem hafa dáið. Þessi form urðu til við einhverjar mestu hamfarir sem geta orðið í alheiminum — sprengistjörnur [1]. Sprengistjörnur eru svo bjartar, að til skamms tíma skína þær skærar en hýsilvetrarbrautirnar áður en þær dofna á nokkrum vikum eða mánuðum (sjá einnig eso1315 og potw1323a).

Erfitt er að gera sér í hugarlund stærð skýjanna með því einu að horfa á myndina. Skýin eru nokkur hundruð ljósár á breidd og auk þes óralangt fyrir utan Vetrarbrautina okkar. Stóra Magellansskýið er risavaxið en mjög lítið í samanburði við Vetrarbrautina okkar, eða aðeins 14.000 ljósár í þvermál — næstum tífallt minni en Vetrarbrautin okkar.

Myndin var tekin með FOcal Reducer and low dispersion Spectrograph á Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile, fyrir Cosmic Gems verkefnið [2].

Skýringar

[1] Sprengistjörnuleifin sem sést á myndinni kallast SNR 0536-67.6.

[2] Þessi mynd kemur úr ESO Cosmic Gems verkefninu sem snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1348.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1348is
Nafn:NGC 2035
Tegund:Local Universe : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Very Large Telescope

Myndir

Stjörnumyndunarsvæðið NGC 2035 á mynd Very Large Telescope ESO
Stjörnumyndunarsvæðið NGC 2035 á mynd Very Large Telescope ESO
The star formation region NGC 2035 in the constellation of Dorado
The star formation region NGC 2035 in the constellation of Dorado
texti aðeins á ensku
Wide-field view of part of the Large Magellanic Cloud
Wide-field view of part of the Large Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the star formation region NGC 2035
Zooming in on the star formation region NGC 2035
texti aðeins á ensku