eso1349is — Fréttatilkynning

ESO fær stjörnuver og fræðslumiðstöð að gjöf

3. desember 2013

ESO hefur fengið stjörnuver og fræðslumiðstöð að gjöf við höfuðstöðvar sínar í Garching bei München í Þýskalandi. Miðstöðin verður glæsilegur vettvangur fyrir miðlun stjarnvísinda til almennings, þökk sé Klaus Tschira Stiftung sem hefur boðist til að fjármagna bygginguna.

ESO hefur þegið gjöf Klaus Tschira Stiftung um að fjármagna byggingu nýs stjörnuvers og fræðslumiðstöðvar við höfuðstöðvar sínar í Garching bei München í Þýskalandi. Tilgangur fræðslumiðstöðvarinnar nýju er að veita fólki innblástur til að horfa til stjarnanna og fræða fólk um mikilvægi stjörnufræðinnar og áhrifa hennar á daglegt líf okkar.

Klaus Tschira Stiftung eru samtök sem ekki eru rekin í ágóðaskyni sem eðlisfræðingurinn Klaus Tschira setti á laggirnar árið 1995. Markmið samtakanna er að styðja við verkefni sem tengjast raunvísindum, tölvunarfræði og stærðfræði með sérstakri áherslu á menntun og vísindamiðlun á þessum sviðum.

Byggingin nýja verður gestum glæsilegur fræðsluvettvangur um stjarnvísindi almennt, sem og um tækniframfarir, rannsóknarniðurstöður og -verkefni ESO. Allt efni verður bæði á ensku og þýsku.

Hönnun byggingarinnar er einstök en hún á að líkjast tvístirnakerfi þar sem önnur stjarnan er að glata massa til hinnar sem leiðir að lokum til sprengistjörnu. Það mun endurspeglast í nafni hússins: ESO Supernova. Klaus Tschira hafði forgöngu um hönnun þessarar nýstárlegu byggingar ásamt arkitektastofunni Bernhardt + Partner í Darmstadt.

Fræðslumiðstöðin verður „systir“ hins glæsilega Haus der Astronomie, miðstöð mennta og vísindamiðlunar í stjörnufræði í Heidelberg í Þýskalandi, sem Max Planck Society for the Advancement of Science og Klaus Tschira Stiftung stofnuðu árið 2008.

ESO Supernova á að veita fólki minnistæða reynslu með stjörnuveri sem búið er nýjustu tækni og meira en 2.000 fermetra sýningarsvæði. Í öðrum rýmum verður ráðstefnuaðstaða og aðstaða fyrir fyrirlestra og vinnusmiðjur. Auk þess er fyrirhugað að koma upp stjörnustöð fyrir almenning sem stjörnufræðingar og verkfræðingar ESO munu starfrækja.

„Stjörnufræði er heillandi vísindagrein sem veitir fólki innblástur og ég er stoltur af því að geta lagt mitt af mörkum til þess að deila því með heiminum,“ segir Klaus Tschira, stjórnarformaður Klaus Tschira Stiftung.

„Við vonum að stjarna þessarar fræðslumiðstöðvar muni skína jafn skært og sprengistjarna og efla áhuga og ástríðu fólks á stjörnufræði,“ segir Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóri ESO.

Miðstöðin á að mæta markmiðum um sjálfbærni sem tengjast umhverfismálum, efnahagsmálum, félags- og menningarmálum og hagnýtingarmöguleikum verkefnisins, sem og markmiðum um tækni, byggingarferli og staðsetningu.

Höfuðstöðvar ESO eru í vísindagörðum Garching, um 15 km norður af München. Garðarnir eru með stærstu vísinda- og menntagörðum Þýskalands með 6.000 starfsmenn og 13.000 nemendur. Þar er einnig stærsti vettvangur Tækniháskólans í München, nokkurra stofnana Max Planck Society, Ludwig Maximilian University of Munich, Bavarian Academy of Sciences og fjölda annarra þekktra stofnana og fyrirtækja.

Verkefnið byggir á hugmynd sem spratt upp úr samstarfi ESO og Heidelberg Institute for Theoretical Studies (HITS) — rannsóknarstofnun Klaus Tschira Stiftung. Áætlað er að smíði hefjist árið 2014.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO, Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Renate Ries
Klaus Tschira Stiftung, Media and Communication
Heidelberg, Germany
Sími: +49 6221 533 102
Tölvupóstur: renate.ries@klaus-tschira-stiftung.de

Lars Lindberg Christensen
Head, ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6761
Farsími: +49 173 3872 621
Tölvupóstur: lars@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1349.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1349is
Nafn:ESO Supernova Planetarium & Visitor Centre
Tegund:Unspecified : Technology
Facility:Other

Myndir

Nýja stjörnuverið og fræðslumiðstöðin við höfuðstöðvar ESO
Nýja stjörnuverið og fræðslumiðstöðin við höfuðstöðvar ESO
Nýja stjörnuverið og fræðslumiðstöðin við höfuðstöðvar ESO
Nýja stjörnuverið og fræðslumiðstöðin við höfuðstöðvar ESO
Nýja stjörnuverið og fræðslumiðstöðin við höfuðstöðvar ESO
Nýja stjörnuverið og fræðslumiðstöðin við höfuðstöðvar ESO
Nýja stjörnuverið og fræðslumiðstöðin við höfuðstöðvar ESO
Nýja stjörnuverið og fræðslumiðstöðin við höfuðstöðvar ESO
Nýja stjörnuverið og fræðslumiðstöðin við höfuðstöðvar ESO
Nýja stjörnuverið og fræðslumiðstöðin við höfuðstöðvar ESO