eso1425is — Fréttatilkynning

Glæsilegt stjörnumyndunarlandslag

20. ágúst 2014

Á þessari mynd, sem tekin var með Wide Field Imager í La Silla stjörnustöð ESO í Chile, sjást tvö tilþrifamikil stjörnumyndunarsvæði í suðurhluta Vetrarbrautarinnar. Svæðið vinstra megin geymir stjörnuþyrpinguna NGC 3603 sem er í um 20.000 ljósára fjarlægð í Kjalar-Bogmanns-þyrilarmi Vetrarbrautarinnar. Hægra megin sést síðan hópur glóandi gasskýja sem nefnist NGC 3576 og er helmingi nær okkur.

NGC 3603 er stór og björt stjörnuþyrping sem fræg er fyrir að hýsa þéttasta safn efnismikilla stjarna sem fundist hefur í Vetrarbrautinni hingað til. Í miðjunni er HD 97950, fjölstirnakerfi úr Wolf-Rayet stjörnurm. Wolf-Rayet stjörnur eru komnar langt á þróunarbrautinni en þær fæðast um 20 sinnum efnismeiri en sólin. Þegar Wolf-Rayet stjörnur þróast ganga þær í gegnum stjarnfræðilega öflugan megrúnarkúr. Þær þeyta frá sér miklu magni efnis út í geiminn vegna öflugra stjörnuvinda sem blása á nokkurra milljóna kílómetra hraða á klukkustund.

Í NGC 3603 er mjög virk stjörnumyndun. Stjörnur verða upphaflega til í dimmum og rykugum svæðum í geimnum sem að mestu eru okkur hulin. Barnungar byrja þær að skína og hreinsa svæðið í kringum sig. Þá verða þær fyrst sýnilega og mynda glóandi efnisský í kringum sig sem kallast röfuð vetnisský. Röfuð vetnisský skína vegna víxlverkunnar útfjólublás ljóss frá ungu, heitu og skæru stjörnunum við vetnisgasskýin. Röfuð vetnisský geta verið nokkur hundruð ljósár í þvermál en það sem umlykur NGC 3603 er eitt hið efnismesta í Vetrarbrautinni okkar.

John Herschel kom fyrstur manna auga á þyrpinguna hinn 14. mars árið 1834, á meðan þriggja ára rannsóknarleiðangri hans til Höfðaborgar í Suður Afríku stóð yfir. Herschel var að kortleggja himinninn og lýsti þyrpingunni sem bjartri og þéttri og taldi raunar að hún gæti verið kúluþyrping. Þegar betur var að gáð kom í ljós að ekki var um að ræða aldurhningna kúluþyrpingu heldur unga lausþyrpingu, eina stærstu sem þekkist.

NGC 3576 hægra megin á myndinni er líka í Kjalar-Bogmanns-þyrilarmi Vetrarbrautarinnar. Hún er hins vegar í aðeins 9000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni — miklu nær okkur en NGC 3603 þótt hún virðist við hlið hennar á himninum.

NGC 3576 er þekkt fyrir tvö risavaxin sveigð kennileiti sem minna á hrútshorn. Þessar sérkennilegu slæður má rekja til stjörnuvinda frá ungu, heitu stjörnunum í miðju þokunnar. Þær hafa feykt burt ryki og gasi og dreift því yfir nokkur hundruð ljósár. Í þessari víðáttumiklu geimþoku sjást líka tvö dökk skuggasvæði sem kallast Bokhnoðrar. Svörtu skýin efst í þokunni eru líka staðir þar sem nýjar stjörnur geta myndast í framtíðinni.

John Herschel fann líka NGC 3576 árið 1834. Þetta hefur því verið sérstaklega afkastamikið og ánægjulegt ár fyrir stjörnufræðinginn enska.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1425.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1425is
Nafn:NGC 3603
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

Stjörnumyndun í suðurhluta Vetrarbrautarinnar
Stjörnumyndun í suðurhluta Vetrarbrautarinnar
Star formation regions in the constellation of Carina (The Keel)
Star formation regions in the constellation of Carina (The Keel)
texti aðeins á ensku
Star formation in the constellation of Carina
Star formation in the constellation of Carina
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on star formation in the southern Milky Way
Zooming in on star formation in the southern Milky Way
texti aðeins á ensku
eso1425a-fulldome-pan
eso1425a-fulldome-pan
texti aðeins á ensku
A close-up look at star formation in the southern Milky Way
A close-up look at star formation in the southern Milky Way
texti aðeins á ensku