eso1427is — Fréttatilkynning

Geimveðurspá: Þungbúið en léttir til

3. september 2014

Á þessari fallegu nýju mynd sést köngulóarlaga gas- og rykský, Lupus 4, sem svífur eins og dimmt ský sem skyggir á stjörnur á tunglskinslausri nóttu. Þótt útlitið sé dökkt nú um stundir munu stjörnur verða til úr efninu í skýjum eins og Lupus 4 og lýsa það upp. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile.

Lupus 4 er á mörkum stjörnumerkjanna Úlfsins og Hornmátsins í um 400 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Skýið er eitt nokkurra skuggaþoka innan um lausþyrpingu stjarna sem kallast OB-stjörnufélagið í Sporðdrekanum-Mannfáknum. OB-stjörnufélög eru tiltölulega gisnir hópar ungra stjarna [1] sem eiga sér líklega sameiginlegan uppruna í risavöxnu efnisskýi.

Þetta tiltekna stjörnufélag og dökku rykskýin sem því tilheyra, mynda nálægasta hópinn af þessu tagi við sólina og eru því tilvalin til að rannsaka hvernig stjörnur vaxa saman áður en leiðir skilja. Sólin og flestar stjörnur í Vetrarbrautinni okkar eru taldar hafa orðið til í svipuðu umhverfi.

Bandaríski stjörnufræðingurinn Edward Emerson Barnard lýsti fyrstur manna Lupus skuggaþokunum í stjarnvísindatímariti árið 1927. Lupus 3, nágranni Lupus 4, hefur mest verið rannsakað hingað til en í því eru að minnsta kosti 40 stjörnur á unglingsaldri sem hafa myndast á síðastliðnum þremur milljónum ára og eru við það að hefja vetnisbruna í kjörnum sínum (eso1303). Meginorkulind þessara ungu stjarna, sem eru kallaðar T-tarfsstjörnur, er hitinn sem myndast við þyngdarsamdrátt þeirra. Í fullorðnum stjörnum eins og sólinni er það kjarnasamruni vetnis og annarra frumefna sem knýr þær.

Aðeins fáeinar T-tarfsstjörnur hafa fundist í köldu skýjunum í Lupus 4. Í framtíðinni munu hins vegar stjörnur myndast úr efninu í Lupus 4 og eftir nokkrar milljónir ára munu T-tarfsstjörnur verða þar. Með því að bera saman Lupus 3 og Lupus 4 á þennan hátt bendir allt til að fyrrnefnda skýið sé eldra en hið síðarnefnda, þar sem það hefur haft lengri tíma til að mynda stjörnur.

Hve margar stjörnur gætu að lokum orðið til í Lupus 4? Það er erfitt að segja því niðurstöðum mælinga á efnismagni Lupus 4 ber ekki saman. Tvær rannsóknir benda til að í skýinu sé um 250 sinnum meira efni en í sólinni en önnur rannsókn, þar sem beitt var annarri aðferð, bendir til að í því sé um 1600 sólmassar af efni. Hver sem raunin er er nægilegt magn efnis í skýinu til þess að fjöldi bjartra stjarna geti myndast. Á svipaðan hátt og það léttir til á Jörðinni og sólin byrjar að skína, mun þetta dimma geimský líka leysast upp að lokum og skærar stjörnur skína í staðinn.

Skýringar

[1] Skammstöfunin „OB“ vísar til heitra, bjartra og skammlífra stjarna af litrófsgerð O og B sem enn skína skært í gisnum stjörnuþyrpingum sem ferðast um Vetrarbrautina.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1427.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1427is
Nafn:Lupus 4
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Dark
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The dark cloud Lupus 4
The dark cloud Lupus 4
texti aðeins á ensku
The location of the Lupus 4 dark cloud in the constellation of Lupus
The location of the Lupus 4 dark cloud in the constellation of Lupus
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around the dark cloud Lupus 4
Wide-field view of the sky around the dark cloud Lupus 4
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the dark cloud Lupus 4
Zooming in on the dark cloud Lupus 4
texti aðeins á ensku
A close-up view of the dark cloud Lupus 4
A close-up view of the dark cloud Lupus 4
texti aðeins á ensku