eso1430is — Fréttatilkynning

Villiendur á flugi í lausþyrpingu

1. október 2014

Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO tók þessa fallegu mynd af bláleitum stjörnum í einni stærstu lausþyrpingu stjarna sem vitað er um — Messier 11, sem einnig er kölluð NGC 6705 eða Villiandarþyrpingin.

Messier 11 er lausþyrping í um 6000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Skildinum. Þýski stjörnufræðingurinn Gottfried Kirch uppgötvaði þyrpinguna árið 1681 frá stjörnustöðinni í Berlín og lýsti henni sem daufum þokuhnoðra að sjá í gegnum sjónauka. Það var ekki fyrr en árið 1733 að presturinn William Derham í Englandi sá stakar stjörnur í henni en árið 1764 bætti Charles Messier henni við fræga skrá sína.

Messier var halastjörnuleitandi og varð skrá hans til vegna þess að hann sá ótt og títt þokukennd fyrirbæri sem líktust halastjörnum í gegnum sjónauka sinn (til dæmis fyrirbærin sem við vitum í dag að eru þyrpingar, vetrarbrautir og geimþokur). Hann vildi taka saman skrá yfir slík fyrirbæri til að forðast að sjá þau aftur og rugla þeim saman við hugsanlega nýjar halastjörnur. Þessi tiltekna stjörnuþyrping var ellefta fyrirbærið rataði í skrá hans og kallast þess vegna Messier 11.

Lausþypingar finnast alla jafna í örmum þyrilvetrarbrauta, eða í þéttari svæðum óreglulegra vetrarbrauta þar sem stjörnumyndun er enn algeng. Messier 11 inniheldur mjög margar stjörnur og er raunar en þéttasta lausþyping sem vitað er um, næstum 20 ljósár í þvermál og með nærri 3000 stjörnur. Lausþyrpingar eru ólíkar kúluþyrpingum sem eru gjarnan mjög þéttbundnar saman af þyngdarkraftinum og innihalda mörg hundruð þúsund ævafornra stjarna — sumar næstum jafngamlar alheiminum.

Að rannsaka lausþyrpingar er góð aðferð til að prófa kenningar um þróun stjarna, þar sem stjörnur úr sama gas- og rykskýi eru mjög svipaðar — allar nokkurn veginn jafngamlar og með svipaða efnasamsetningu. Stjörnurnar í þyrpingunni eru hins vegar misefnismiklar svo massameiri stjörnurnar þróast mun hraðar en efnisminni systurstjörnur þeirra, því þær klára vetnisbirgðir sínar mun fyrr.

Á þennan hátt er hægt að gera beinan samanburð milli mismunandi þróunarstiga í sömu þyrpingunni. Sem dæmi, þróast 10 milljón ára gömul stjarna af sama massa og sólin á mismunandi hátt miðað við aðra stjörnu á sama aldri sem er helmingi massaminni? Í þessum skilningi komast lausþyrpingar næst því að vera „tilraunastofur“ fyrir stjörnufræðinga.

Stjörnur í lausþyrpingum eru mjög lauslega bundnar saman, svo stakar stjörnur í þeim kastast gjarnan burt úr hópnum vegna þyngdartogs frá öðrum fyrirbærum í nágrenninu. NGC 6705 er að minnsta kosti 250 milljón ára gömul, svo eftir nokkrar milljónir ára mun oddaflug villiandanna leysast upp og stjörnurnar fljúga hver í sína áttina.

Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í norðurhluta Chile.

Skýringar

[1] Hitt nafnið á NGC 6705, Villiandarþyrpingin, sem er mun skemmtilegra, varð til á 19. öld. Þegar þyrpingin sást í gegnum lítinn sjónauka tóku menn eftir að björtustu stjörnurnar mynduðu opið þríhyrningslaga mynstur á himninum sem líktist fuglum á oddaflugi.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1430.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1430is
Nafn:M 11, Wild Duck Cluster
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The Wild Duck cluster
The Wild Duck cluster
texti aðeins á ensku
The open cluster Messier 11 in the constellation of Scutum
The open cluster Messier 11 in the constellation of Scutum
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the open cluster Messier 11
Zooming in on the open cluster Messier 11
texti aðeins á ensku
eso1430a-fulldome-pan
eso1430a-fulldome-pan
texti aðeins á ensku
Close-up view of the open cluster Messier 11
Close-up view of the open cluster Messier 11
texti aðeins á ensku