eso1441is — Fréttatilkynning

Heitu bláu stjörnurnar í Messier 47

17. desember 2014

Á þessari glæsilegu mynd sést stjörnuþyrpingin Messier 57 en hún var tekin með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Þessi unga þyrping geymir áberandi bjartar bláar stjörnur sem og nokkrar rauðar risastjörnur.

Messier 47 er í um það bil 1.600 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Skutinum (skuti skipsins goðsagnarkennda Argó). Einhvern tímann fyrir árið 1664 sá ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Batista Hodierna þyrpinguna fyrstur manna en síðar fann Charles Messier hana sjálfur, en honum var ókunnugt um uppgötvun Hodierna.

Þótt þyrpingin sé björt og auðsjáanleg er Messier 47 ein gisnasta lausþyrpingin á himninum. Á 12 ljósára breiðu svæði eru aðeins um 50 stjörnur sýnilegar en samskonar þyrpingar geta innihaldið mörg þúsund stjörnur.

Reyndar hefur ekki alltaf verið auðvelt að finna Messier 47 á himinhvolfinu. Um árabil var þyrpingin talin týnd, því Messier hafði misskráð hnit hennar. Þyrpingin fannst aftur síðar og fékk þá annað skráarheiti — NGC 2422. Það var ekki fyrr en árið 1959 sem kanadíski stjörnufræðingurinn T. F. Morris áttaði sig á raunverulegum mistökum Messiers og komst að þeirri niðurstöðu að Messier 47 og NGC 2422 væri eitt og sama fyrirbærið.

Litir stjarnanna segja til um hitastig þeirra, þar sem heitari stjörnur eru blárri en kaldari stjörnur rauðari. Sýna má tengslin milli litar, birtustigs og hitastigs með Plancks-grafi. Þegar litirnir eru skoðaðir betur með litrófsgreiningu má finna ýmislegt fleira út — þar á meðal hve hratt stjörnurnar snúast og efnasamsetningu þeirra. Á myndinni eru líka nokkrar bjartar, rauðar stjörnur — rauðar risastjörnur sem komnar eru lengra á skammri ævi sinni en massaminni og langlífari bláu stjörnurnar [1].

Fyrir tilviljun er Messier 47 skammt frá annarri stjörnuþyrpingu á himninum — Messier 46. Messier 47 er tiltölulega nálægt okkur í um það bil 1.500 ljósára fjarlgð, en Messier 46 er í kringum 5.500 ljósára fjarlægð og geymir mun fleiri stjörnur, að minnsta kosti 500. Þrátt fyrir að hafa fleiri stjörnur virðist hún mun daufari sökum meiri fjarlægðar.

Segja má að Messier 46 sé eldri systir Messier 47, þar sem sú fyrrnefnda er næstum 300 milljón ára en sú síðarnefnda um 78 milljón ára. Fyrir vikið hafa margar af massamestu og skærustu stjörnunum í Messier 46 þegar lifað skamma ævi sína á enda og því horfnar af sjónarsviðinu, svo flestar stjörnur innan þessarar eldri þyrpingar virðast rauðari og kaldari.

Þessi mynd af Messier 47 var sett saman fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Skýringar

[1] Ævilengd stjörnu veltur að langmestu leyti á massa hennar. Massamestu stjörnurnar, sem innihalda margfalt meira efni en sólin, lifa í nokkrar milljónir ára. Massaminni stjörnur geta hins vegar skinið skært í marga milljarða ára. Í þyrpingu eru allar stjörnurnar jafngamlar og hafa sömu efnasamsetningu í upphafi. Skærustu og massamestu stjörnurnar þróast því hraðast, verða rauðir risar fyrr og enda ævina fyrstar, en massaminni og kaldari stjörnurnar lifa mun lengur.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1441.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1441is
Nafn:M 47
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The star cluster Messier 47
The star cluster Messier 47
texti aðeins á ensku
The bright star clusters Messier 47 and Messier 46 in the constellation of Puppis
The bright star clusters Messier 47 and Messier 46 in the constellation of Puppis
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the bright star clusters Messier 47 and Messier 46
Wide-field view of the bright star clusters Messier 47 and Messier 46
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the star cluster Messier 47
Zooming in on the star cluster Messier 47
texti aðeins á ensku
Close up view of the bright star cluster Messier 47
Close up view of the bright star cluster Messier 47
texti aðeins á ensku