eso1501is — Fréttatilkynning

Hvað varð um allar stjörnurnar?

Dökkt rykský hylur mörg hundruð stjörnur

7. janúar 2015

Á þessari nýju mynd frá ESO er sem margar stjörnur vanti. Dökka geilin í glitrandi stjörnumergðinni er þó ekki geil heldur svæði í geimnum sem uppfullt er af gasi og ryki. Skýið dimma er kallað LDN 483 sem stendur fyrir Lynds Dark Nebula 483. Ský sem þessi eru fæðingarstaðir stjarna. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO í Chile.

LDN 483 [1] er í um 700 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Höggorminum. Skýið inniheldur nægilega mikið ryk til að hylja sýnilegt ljós frá stjörnum í bakgrunni. Sérstaklega þétt sameindaský eins og LDN 483 flokkast sem skuggaþokur vegna þess hve vel þær skyggja á bakgrunninn. Ætla mætti að stjörnusnautt eðli LDN 483 og sambærilegra þoka benti til þess að þær væru ekki beinlínis staðir þar sem stjörnur gætu skotið rótum og vaxið en í raun er því öfugt farið: Skuggaþokur eru frjósömustu staðirnir fyrir myndun nýrra stjarna.

Stjörnufræðingar sem rannsaka myndun stjarna í LDN 483 hafa fundið mörg mjög ung stjörnufóstur í LDN 483. Segja má að þau séu enn í móðurlífinu og hafa ekki enn fæðst sem fullgerðar en þó óþroskaðar stjörnur.

Á þessu fyrsta þróunarstigi stjörnunnar er verðandi stjarna aðeins kökkur úr gasi og ryki sem dregst saman vegna þyngdakraftsins í sameindaskýinu í kring. Frumstjarnan er enn fremur köld — um –250 gráður á Celsíus — og gefur aðeins frá sér hálfsmillímetrageislun [2]. Engu að síður fara bæði hitastig og þrýstingur vaxandi í kjarna stjörnufóstursins.

Þetta upphafsskeið í vexti stjörnu stendur aðeins yfir í nokkur þúsund ár, óhemju skamman tíma á stjarnfræðilegan mælikvarða því stjörnur endast venjulega í milljónir eða milljarða ára. Á næstu stigum, sem standa yfir milljónir ára, hitnar frumstjarnan og þéttist. Geislun frá henni eykst samhliða því svo hún fer að gefa frá sér fjar-innrautt ljós, þá nær-innrautt og loks sýnilegt ljós. Daufa frumstjarnan er þá orðin að skínandi bjartri stjörnu.

Þegar sífellt fleiri stjörnur koma fram úr kolsvörtu hyldýpi LDN 483 mun skuggaþokan dreifast frekar og glata ógegnsæi sínu. Týndu stjörnurnar í bakgrunni, sem nú eru huldar, birtast eftir milljónir ára en þá munu nýju stjörnurnar sem fæddust úr skýinu skína miklu skærar [3].

Skýringar

[1] Bandaríski stjörnufræðingurinn Beverly Turner Lynds tók saman og birti Lynds Dark Nebula skrána árið 1962. Skuggaþokurnar fundust við skoðun á ljósmyndaplötum Palomar Sky Survey.

[2] Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), sem ESO starfrækir meðal annarra, mælir hálfsmillímetra- og millímetra geislun og er því kjörinn til að rannsaka mjög ungar stjörnur í sameindaskýjum.

[3] Hér er dæmi um unga lausþyrpingu stjarna en hér er önnur eldri.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1501.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1501is
Nafn:LDN 483
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Dark
Facility:MPG/ESO 2.2-metre telescope
Instruments:WFI

Myndir

The dark nebula LDN 483
The dark nebula LDN 483
texti aðeins á ensku
LDN 483 in the constellation of Serpens
LDN 483 in the constellation of Serpens
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around the dark nebula LDN 483
Wide-field view of the sky around the dark nebula LDN 483
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the dark nebula LDN 483
Zooming in on the dark nebula LDN 483
texti aðeins á ensku
Close-up view of the dark nebula LDN 483
Close-up view of the dark nebula LDN 483
texti aðeins á ensku