eso1503is — Fréttatilkynning

Í gini skepnunnar

VLT tekur mynd af halastjörnuhnoðranum CG4

28. janúar 2015

Á þessari nýju mynd frá Very Large Telescope ESO glóir halastjörnuhnoðrin CG4 dauflega og minnir um margt á gapandi munn risavaxinnar himneskrar veru. Þótt þokan virðist stór og björt á myndinni er hún í raun mjög dauf og erfið viðureignar fyrir stjörnuáhugafólk. Enn er ekki vitað hvers eðlis CG4 er raunverulega.

Árið 1976 fundust nokkur fyrirbæri á myndum sem teknar voru með breska Schmidt-sjónaukanum í Ástralíu og svipaði til halastjarna að útlit. Útlitsins vegna voru fyrirbærin nefnd halastjörnuhnoðrar, jafnvel þótt þau tengist halastjörnum ekki nokkuð. Öll fyrirbærin fundust á víðfemu svæði í glóandi gasskýi sem kallast Gum þokan. Þau hafa þétt, dökk og rykug höfuð og langan daufa hala sem vísa burt frá sprengistjörnuleifinni í Seglinu, sem er í Gum þokunni miðri. Þótt fyrirbærin séu tiltölulega nálæg fundust þau mjög seint vegna þess hve dauf þau eru.

Fyrirbærið sem hér sést, kallað CG4 og stundum Hönd Guðs, er einn halastjörnuhnoðranna. Hnoðrinn í um 1.300 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Skutinum.

Höfuð CG4, sá hluti sem sést á myndinni, minnir um margt á höfuð risavaxinnar skepnu og er 1,5 ljósár að þvermáli. Hali hnoðrans — sem stefnir niður og sést ekki á myndinni — er um átta ljósár að lengd. Skýið er því fremur lítið á stjarnfræðilegan mælikvarða.

Smæðin er einkennandi fyrir halastjörnuhnoðra. Allir halastjörnuhnoðrar sem fundist hafa í Vetrarbrautinni hingað til eru einangruð og fremur lítil ský úr óröfuðu gasi og ryki en umvafin heitu, jónuðu efni.

Höfuð CG4 er enda þykkt gas- og rykský sem sést einungis vegna þess að nálægar stjörnur lýsa það upp. Ljósið sem stafar af stjörnunum er smám saman að eyða höfði hnoðrans og sverfa burt agnirnar örsmáu sem dreifa ljósi stjarnanna. Í CG4 er þó svo mikið ryk að það dygði í nokkrar stjörnur á stærð við sólina. Í CG4 eru enda nýjar stjörnur að myndast, hugsanlega vegna þess að geislun frá nálægum stjörnum í Gum þokunni hratt því ferli af stað.

Stjörnufræðingar greinir enn á um hvers vegna CG4 og aðrir halastjörnuhnoðrar eru svona útlits. Tvær tilgátur hafa verið settar fram. Sumir stjörnufræðingar telja að halastjörnuhnoðrar eins og CG4 gætu hafa verið kúlulaga í upphafi en afmynduðust síðar vegna áhrifa frá nálægum sprengistjörnum. Aðrir stjörnufræðingar líta svo á að stjörnuvindar og jónandi geislun frá heitum og efnismiklum OB stjörnum móti halastjörnuhnoðrana. Í fyrstu gætu áhrifin frá þeim leitt til sérkennilega (en viðeigandi!) nefndra myndana sem kallast fílsranar og verða síðar að halastjörnuhnoðrum.

Til að átta sig betur á því þurfa stjörnufræðingar að mæla massa, þéttleika, hitastig og hraða efnisins í hnoðrunum. Allt þetta má ákvarða með því að mæla litróf frá sameindum í skýinu og það er auðveldast að gera á millímetra bylgjulengdum — bylgjulengdum eins og þeim sem Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) mælir.

Þessi mynd var sett saman fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið sem snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1503.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1503is
Nafn:CG4
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS1

Myndir

VLT image of the cometary globule CG4
VLT image of the cometary globule CG4
texti aðeins á ensku
The cometary globule CG4 in the constellation of Puppis
The cometary globule CG4 in the constellation of Puppis
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around the cometary globule CG4
Wide-field view of the sky around the cometary globule CG4
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the cometary globule CG4
Zooming in on the cometary globule CG4
texti aðeins á ensku
Panning over a VLT image of the cometary globule CG4
Panning over a VLT image of the cometary globule CG4
texti aðeins á ensku