eso1510is — Fréttatilkynning

Stórsýning nýrra stjarna

11. mars 2015

Þetta glæsilega svæði í stjörnumerkinu Altarinu er sannkölluð fjársjóðskista af stjarnfræðilegum fyrirbærum. Þarna er að finna stjörnuþyrpingar, ljómþokur og virk stjörnumyndunarsvæði í um 4000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Myndin sem hér sést er glæný og sú besta sem tekin hefur verið af þessum hluta himinsins til þess en hún var tekin með VLT Survey Telescope í Paranal stjörnustöð ESO í Chile.

Á miðri mynd er lausþyrpingin NGC 6193 sem inniheldur um þrjátíu bjartar stjörnur í hjarta Ara OB1 stjörnufélagsins. Tvær björtustu stjörnurnar eru mjög heitar risastjörnur. Saman gefa þær frá sér mestan hluta þeirrar geislunar sem lýsir upp nálæga ljómþoku, Barmþokuna, eða NGC 6188 sem sjá má hægra megin við þyrpinguna.

Stjörnufélag er stór hópur stjarna sem eru lauslega bundnar saman og hafa enn ekki rekið almennilega burt frá upphaflegum myndunarstað sínum. OB stjörnufélög samanstanda að mestu leyti af mjög ungum blá-hvítum stjörnum sem eru um 100.000 sinnum bjartari en sólin og 10-50 sinnum efnismeiri.

Barmþokan er áberandi veggur dökkra og ljósleitra skýja sem skilja á milli virka stjörnumyndunarsvæðisins RCW 108 og restinnar af hópnum [1]. Svæðið í kringum RCW 108 inniheldur að mestu leyti vetni — aðalhráefnið sem þarf til að mynda nýjar stjörnur. Svæði af þessu tagi eru líka kölluð röfuð vetnisský.

Útfjólublátt ljós og öflugir stjörnuvindar frá stjörnunum í kringum NGC 61983 knýja áfram myndun nýrra stjarna í gas- og rykskýjunum í kring. Þegar skýin falla saman hitna þau og mynda, að lokum, nýjar stjörnur.

Á sama tíma og nýjar stjörnur myndast í skýjunum verða þau fyrir rofi af völdum vinda og geislunnar frá öðrum stjörnum og öflugum sprengistjörnum. Af þeim sökum endast röfuð vetnisský í aðeins fáeinar milljónir ára. Stjörnumyndun er mjög afkastalítið ferli þar sem aðeins um 10% efnisins verður að stjörnum — afgangurinn fýkur út í geiminn.

Í Barmþokunni sjást líka merki um fyrstu stig „stöplamyndunar“ sem þýðir að í framtíðinni gæti þokan farið að líkjast öðrum frægari stjörnumyndunarsvæðum eins og Arnarþokunni (Messier 16 sem inniheldur hina frægu Stöpla sköpunarinnar) og Keiluþokunni (hluti af NGC 2264).

Þessi glæsilega mynd er í raun sett saman úr meira en 500 stökum ljósmyndum sem teknar voru í gegnum fjórar mismunandi litsíur með VLT Survey Telescope. Heildarlýsingartími nam 56 klukkustundum. Þetta er besta myndin sem tekin hefur verið af svæðinu til þessa.

Skýringar

[1] Þokan hefur líka öðlast örlitla frægð meðal stjörnufræðinga því eldri mynd af henni var notuð framan á DVD diska með stjörnufræðihugbúnaði sem ESO bjó til. Hugbúnaðurinn nefnist Scisoft, en nýjasta útgáfa hans var gefin út fyrir nokkrum vikum. Þess vegna er þokan líka þekkt sem Scisoft þokan.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO, Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1510.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1510is
Nafn:NGC 6188, NGC 6193
Tegund:Milky Way : Star : Grouping : Cluster : Open
Milky Way : Nebula : Appearance : Emission : H II Region
Milky Way : Nebula : Appearance : Dark
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM

Myndir

Star cluster NGC 6193 and nebula NGC 6188
Star cluster NGC 6193 and nebula NGC 6188
texti aðeins á ensku
The open star cluster NGC 6193 in the constellation of Ara
The open star cluster NGC 6193 in the constellation of Ara
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the star cluster NGC 6193 and nebula NGC 6188
Zooming in on the star cluster NGC 6193 and nebula NGC 6188
texti aðeins á ensku
Close-up view of the star cluster NGC 6193 and nebula NGC 6188
Close-up view of the star cluster NGC 6193 and nebula NGC 6188
texti aðeins á ensku