eso1518is — Fréttatilkynning

Stólpar sköpunarinnar í þrívídd

Ný rannsókn sýnir að heitið Stólpar eyðileggingarinnar ætti e.t.v. betur við

30. apríl 2015

Stjörnufræðingar sem notuðu MUSE mælitækið á Very Large Telescope (VLT) ESO hafa útbúið fyrstu þrívíðu myndina af Stólpum sköpunarinnar í Arnarþokunni, Messier 16. Athuganir sýna dreifingu þessara frægu stólpa um geiminn og mörg ný smáatriði í þeim, þar á meðal áður óséðan strók frá ungri stjörnu. Orkuríkt ljós og vindar frá skærum stjörnum í nálægri þyrpingu hafa mótað rykstólpana með tímanum og ættu að eyða þeim fyrir fullt og allt eftir um þrjár milljónir ára.

Fyrir tveimur áratugum tók Hubble geimsjónauki NASA og ESA sína fyrstu mynd af Stólpum sköpunarinnar og varð hún ein þekktasta mynd sjónaukans. Síðan hafa þessi gas- og rykský, sem eru nokkur ljósár að stærð [1], vakið undrun og forvitni bæði vísindamanna og almennings.

Stólparnir og nálæg stjörnuþyrping, NGC 6611, tilheyra stjörnumyndunarsvæði sem kallast Arnarþokan og er einnig þekkt sem Messier 16 eða M16. Þokan og fyrirbæri sem henni tengjast eru í um 7000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Höggorminum.

Stólpar sköpunarinnar eru dæmi um myndanir sem til verða í stórum gas- og rykskýjum, fæðingarstöðum stjarna. Stólparnir eru myndaðir fyrir tilverknað ægibjartra, nýmyndaðra blá-hvítra O og B stjarna sem gefa frá sér orkuríkt útfjólublátt ljós og vinda sem blása þynnra efni burt úr umhverfinu.

Þéttari gas- og ryksvæði geta hins vegar staðið veðrunina af sér mun lengur. Á bak við slík svæði er efnið í skjóli fyrir eyðileggjandi birtu O og B stjarnanna. Hlífin myndar dökkleita „hala“ eða „fílsrana“ sem birtast okkur sem dökkleitir drangar eða stólpar sem vísa frá stjörnunum skæru.

MUSE mælitæki ESO á Very Large Telescope hefur nú hjálpað til við að varpa ljósi á uppgufunarferlið í Stólpum sköpunarinnar betur en nokkru sinni fyrr og sýnt afstöðu þeirra í geimnum.

Mælingar MUSE sýna að toppurinn á stólpnum vinstra megin snýr að okkur, ofan á stólpa sem er í raun á bak við NGC 6611, öfugt við hina stólpana. Þessi tindur verður fyrir mestri geislun frá stjörnunum í NGC 6611 og sýnist þess vegna bjartari en neðri stólpinn vinstra megin, sá í miðjunni og sá hægra megin, en toppar þeirra stefni allir frá okkur.

Stjörnufræðingar vonast til að skilja betur áhrifin sem O og B stjörnurnar í NGC 6611 hafa á myndun næstu kynslóða stjarna. Fjöldi rannsókna hafa leitt í ljós frumstjörnur í stólpunum, svo þeir eru vissulega skapandi. Nýja rannsóknin sýnir líka að tvær stjörnur eru í mótun í stólpunum vinstra megin og í miðjunni og strók frá ungri stjörnur sem hafði ekki sést fyrr en nú.

Myndun nýrra stjarna í umhverfi eins og Stólpum sköpunarinnar er kapphlaup við tímann, því öflug geislunin frá stjörnunum sem þegar eru farnar að skína er smám saman að eyða stólpunum.

Með því að mæla uppgufunarhraða Stólpa sköpunarinnar geta stjörnufræðingar fundið út hvenær þeir verða orðnir að engu. Á hverjum milljón árum hverfa um 70 sólmassar af efni úr þeim. Í dag innihalda stólparnir um 200 sinnum meira efni en sólin. Þeir munu því endast í um þrjár milljónir ára til viðbótar — augnablik á stjarnfræðilegan mælikvarða. Stólpar eyðileggingarinnar væri því jafn viðeigandi nafn á þessum frægu stólpum.

Skýringar

[1] Stólpinn vinstra megin, sem talinn er heill frá toppi og niður, er í kringum fjögur ljósár að lengd. Hann er lengsti stólpinn og um það bil tvisvar sinnum hærri en stólpinn hægra megin.

Frekari upplýsingar

Skýrt er frá rannsókninni í greininni „The Pillars of Creation revisited with MUSE: gas kinematics and high-mass stellar feedback traced by optical spectroscopy“ eftir A. F. McLeod o.fl., sem birtist í tímaritinu Monthly Notices of the Royal Astronomical Society hinn 26. febrúar 2015.

Í rannsóknarteyminu eru A. F. Mc Leod (ESO, Garching, Þýskalandi), J. E. Dale (Universitäts-Sternwarte München, München, Þýskalandi; Excellence Cluster Universe, Garching bei München, Þýskalandi), A. Ginsburg (ESO), B. Ercolano (Universitats-Sternwarte München,; Excellence Cluster Universe), M. Gritschneder (Universitats-Sternwarte München), S. Ramsay (ESO) og L. Testi (ESO; INAF/Osservatorio Astrofisico di Arcetri, Firenze, Ítalíu).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Anna Faye Mc Leod
ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6321
Tölvupóstur: amcleod@eso.org

Richard Hook
ESO, Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1518.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1518is
Nafn:M 16, Messier 16
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Very Large Telescope
Instruments:MUSE
Science data:2015MNRAS.450.1057M

Myndir

3D data visualisation of the Pillars of Creation
3D data visualisation of the Pillars of Creation
texti aðeins á ensku
Colour composite view of the Pillars of Creation from MUSE data
Colour composite view of the Pillars of Creation from MUSE data
texti aðeins á ensku
The three-dimensional view of the Pillars of Creation from MUSE
The three-dimensional view of the Pillars of Creation from MUSE
texti aðeins á ensku
Messier 16 in the constellation of Serpens Cauda (the tail of the serpent)
Messier 16 in the constellation of Serpens Cauda (the tail of the serpent)
texti aðeins á ensku
Digitized sky survey image of the Eagle Nebula
Digitized sky survey image of the Eagle Nebula
texti aðeins á ensku

Myndskeið

3D data visualisation of the Pillars of Creation
3D data visualisation of the Pillars of Creation
texti aðeins á ensku
3D data visualisation of the Pillars of Creation
3D data visualisation of the Pillars of Creation
texti aðeins á ensku