eso1520is — Fréttatilkynning

Óttaleg fegurð Medúsu

20. maí 2015

Stjörnufræðingar hafa náð bestu myndinni til þess af Medúsuþokunni með hjálp Very Large Telescope ESO í Chile. Þessi litríka þoka varð til þegar stjarna í hjarta hennar var í andarslitrunum og varpaði frá sér ytri efnislögum sínum út í geiminn. Sólin okkar endar sem samskonar fyrirbæri svo myndin er um leið svipmynd af örlögum sólarinnar.

Þessi fallega hringþoka er nefnd eftir ófreskju úr grískri goðafræði — Gorgónanum Medúsu. Þokan gengur líka undir nafninu Sharpless 2-274 og er að finna í stjörnumerkinu Tvíburunum. Medúsuþokan er um fjögur ljósár á breidd en í um 1500 ljósára fjarlægð frá okkur. Þrátt fyrir stærð er hún afar dauf og illsjáanleg.

Medúsa var hið mesta flagð, forljót ófreskja með snáka í stað hárs. Í þokunni eru snákarnir glóandi gasþræðir. Rauði bjarminn stafar af vetni en græni liturinn, sem er öllu daufari, kemur frá súrefnisgasi sem liggur út fyrir myndina og er sigðarlaga á himninum. Stjarna á þessu þróunarstigi varpar frá sér efni slitrótt og getur það leitt til heillandi myndana í hringþokunni.

Kjarnar stjarnanna sem mynda hringþokur eru umluktir glæsilegum og litríkum gasskýjum sem þessum í tugþúsundir ára [1]. Með tíð og tíma dreifist gasið um geiminn. Þetta markar seinasta stigið í umbreytingu stjarna á borð við sólina sem enda ævina sem hvítir dvergar. Hringþokustigið í ævi stjörnu eru örstutt, sambærilegt við það augnablik sem það tekur barn að blása upp sápukúlu og sjá hana reka burt miðað við mannsævina.

Öflugt útfjólublátt ljós frá heitri stjörnuleifinni í miðju þokunnar veldur því að atóm í gasinu glata rafeind svo úr verður jónað gas. Einkennislitir þessa glóandi gass má nota til að varpa ljósi á eðli fyrirbærisins. Grænn litur frá tvíjónuðu súrefni ([O III]) er til að mynda notaður til að finna hringþokur. Með viðeigandi ljóssíum geta stjörnufræðingar einangrað geislun frá glóandi gasinu og dregið fram daufan bjarma þokunnar miðað við dekkri bakgrunninn.

Þegar græna [O III] geislunin sást fyrst töldu stjörnufræðingar sig hafa uppgötvað nýtt frumefni og nefndu það nebúlíum. Síðar varð þeim ljóst að um var að ræða sjaldgæfa bylgjulengd ljóss [2] frá jónuðu súrefni.

Geimþokan er líka kölluð Abell 21 (og PN A66 21) eftir bandaríska stjörnufræðingnum George O. Abell sem fann hana árið 1955. Um tíma deildu vísindamenn um hvort skýið væri leifar sprengistjörnu. Upp úr 1970 gátu stjörnufræðingar hins vegar mælt hreyfingu og aðra eiginleika efnisins í skýinu og komust þá að því að um hringþoku var að ræða [3].

Myndin er sett saman úr gögnum sem aflað var með FOcal Reducer and low dispersion Spectrograph (FORS) mælitækinu á VLT fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið [4].

Skýringar

[1] Öfugt við það sem ætla mætti er stjörnuleifin í Medúsuþokunni ekki bjarta stjarnan á miðri myndinni — sú stjarna er í forgrunni og kallast TYC 776-1339-1. Stjarnan í miðju Medúsuþokunnar er daufari bláleitari stjarna rétt fyrir utan miðju sigðarinnar á hægri helmingi myndarinnar.

[2] Geislun af þessu tagi er sjaldgæf vegna þess að hún er mynduð fyrir tilverknað bannað ferlis — rafeindastökk sem er bönnuð samkvæmt skammtareglum en getur samt átt sér stað þótt sáralitlar líkur séu á því. Skráningin [O III] merkir að um er að ræða bannaða (hornklofinn) geislun frá tvíjónuðu (III hlutinn í nafninu) súrefni (O).

[3] Útþensluhraði skýsins reyndist um 50 kílómetrar á sekúndu — mun lægri en í tilviki sprengistjörnuleifa.

[4] ESO Cosmic Gems verkefnið snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1520.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1520is
Nafn:Medusa Nebula, Sh 2-274
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Planetary
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2

Myndir

ESO’s Very Large Telescope images the Medusa Nebula
ESO’s Very Large Telescope images the Medusa Nebula
texti aðeins á ensku
The Medusa Nebula in the constellation of Gemini
The Medusa Nebula in the constellation of Gemini
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the sky around the Medusa Nebula
Wide-field view of the sky around the Medusa Nebula
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the Medusa
Zooming in on the Medusa
texti aðeins á ensku
Close-up pan video showing the Medusa Nebula
Close-up pan video showing the Medusa Nebula
texti aðeins á ensku