eso1532is — Fréttatilkynning

Draugur deyjandi stjörnu

5. ágúst 2015

Þessi glæsilega gasbóla, sem skín draugalega í myrkviðum himingeimsins, virðist eflaust framandi og dularfull en er í raun kunnuglegt fyrirbæri: Hringþoka, leifar deyjandi stjörnu. Þetta er besta myndin sem tekin hefur verið af þessu fremur óþekkta fyrirbæri, ESO 378-1, en myndin var tekin með Very Large Telescope ESO í Chile.

Þessi himneska gasbóla er um það bil fjögurra ljósára breið hringþoka sem gengur stundum undir nafninu Syðri-Ugluþokan. Það heiti vísar til frænku hennar á norðurhveli himins, Ugluþokunnar. ESO 378-1 [1], sem einnig gengur undir skráarheitunum PN K 1-22 og PN G283.6+25.3 er í stjörnumerkinu Lagarorminum.

ESO 378-1 er, líkt og allar hringþokur, tiltölulega skammlíft fyrirbæri sem endist í aðeins nokkra tugi þúsunda ára, en til samanburðar er dæmigerður líftími stjarna nokkrir milljarðar ára [2].

Hringþokur verða til þegar stjörnur í andarslitrunum varpa frá sér efni. Þótt þær séu skærar á fyrstu myndunarstigum sínum, dofna þær hratt þegar gasið í þeim þenst út og þynnist um leið og leifar stjörnunnar í miðjunni dofna.

Stjörnur sem eru innan við átta sinnum efnismeiri en sólin enda ævina sem hringþokur. Stærri stjörnur enda ævina á mun tilþrifameiri hátt eða sem sprengistjörnur.

Þegar efnisminni stjörnur eldast byrja þær að glata ytri gaslögum sínum með öflugum stjörnuvindum. Þegar þessi ytri lög hafa dreifst um geiminn í kringum stjörnuna birtist kjarni stjörnunnar í miðjunni. Frá honum stafar útfjólublátt ljós sem jónar gasskelina svo hún glóir.

Eftir að hringþokan er horfin sjónum okkar skín leif stjörnunnar í meira en milljarð ára í viðbót á meðan hún klárar að fullu eldsneyti sitt. Eftir það verður leifin af litlum, heitum og mjög þéttum hvítum dverg sem kólnar í milljarði ára. Sólin myndar hringþoku eftir nokkra milljarða ára og enda síðan ævina sem hvítur dvergur.

Hringþokur hafa leikið lykilhlutverk´i þróun alheimsins með því að auðga hann af efnum. Þær skila til baka út í geiminn efni sem þær urðu til úr, nýjum efnum eins og kolefni og nitri og nokkrum öðrum þyngri frumefnum. Úr þessum efnum verða að lokum til nýjar stjörnur, reikistjörnur og hugsanlega líf. Þess vegna sagði stjörnufræðingurinn Carl Sagan: „Við erum úr stjörnuryki.“

Þessi mynd var tekin fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið sem snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Skýringar

[1] ESO hlutinn í nafni fyrirbærisins vísar til skráar sem tekin var saman upp úr 1970 og 1980 eftir ljósmyndum sem teknar voru með 1 metra Schmidt-sjónauka ESO í La Silla.

[2] Líftími hringþoku er brotabrot af líftíma stjörnu eða um það bil sami og líftími sápukúlu í samanburði við barn sem blæs hana.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO education and Public Outreach Department
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1532.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1532is
Nafn:PN K1-22
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Planetary
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2

Myndir

The planetary nebula ESO 378-1
The planetary nebula ESO 378-1
texti aðeins á ensku
The location of the planetary nebula ESO 378-1
The location of the planetary nebula ESO 378-1
texti aðeins á ensku
The sky around the location of the planetary nebula ESO 378-1
The sky around the location of the planetary nebula ESO 378-1
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the planetary nebula ESO 378-1
Zooming in on the planetary nebula ESO 378-1
texti aðeins á ensku
Panning across the planetary nebula ESO 378-1
Panning across the planetary nebula ESO 378-1
texti aðeins á ensku