eso1541is — Fréttatilkynning

Forsætisráðherra Ítalíu heimsækir Paranal stjörnustöðina

26. október 2015

Hinn 24. október heimsótti Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, Paranal stjörnustöðina í Atacamaeyðimörkinni í norðurhluta Chile. Ráðherrann fékk leiðsögn um stjörnustöð ESO hjá prófessor Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóra ESO.

Ítalski forsætisráðherrann var í hópi varautanríkisráðherra Ítalíu, Mario Giro og sendiherra Ítalíu í Chile, Marco Ricco, sem og annarra embættismanna Ítalíu og Francesco Starace, forstjóra ítalska orkufyrirtækisins ENEL. Auk þeirra voru í hópnum Gloria Navarrete frá utanríkisráðuneyti Chile og sendiherra Chile á Ítalíu, Fernando Ayala.

Framkvæmdarstjóri ESO, Tim de Zeeuw, og Roberto Tarnai, verkefnisstjóri E-ELT, tóku á móti forsætisráðherranum og föruneyti hans og gaf þeim síðan leiðsögn um stjörnustöðina.

„Það gleður mig að bjóða Renzi forsætisráðherra velkominn í Paranal stjörnustöðina,“ sagði Tim de Zeeuw. „Ítalía hefur verið aðildarríki ESO í 33 ár og ítalskur iðnaður hefur lagt mikið af mörkum til samtakanna — VLT hvolfið sem við skoðuðum var smíðað á Ítalíu. Stjarnvísindasamfélagið á Ítalíu er sömuleiðis duglegt að nýta stjörnustöðvar ESO í rannsóknir sínar.“

Gestirnir fylgdust með þegar hvolf VLT sjónaukanna fjögurra voru opnuð og gerð klár fyrir mælingar. Þeir skoðuðu líka VLT Survey Telescope, sem var hannaður og smíðaður á Ítalíu og snæddu síðan kvöldverð í Residencai hótelinu á Paranal, skrifstofu- og gistiaðstöðu stjörnustöðvarinnar.

Ítalskir verkfræðingar og stjörnufræðingar taka einnig ríkan þátt í hönnun og smíði European Extremely Large Telescope (E-ELT), sem verður stærsti sjónauki heims fyrir innrautt og sýnilegt ljós. Verkefnisstjóri E-ELT, Robert Tarnai, er einnig ítalskur ríkisborgari. Forsætisráðherranum og föruneyti hans var sýnt hvar verið er að smíða E-ELT á Cerro Armazones, aðeins 20 km frá Paranal.

Tilkynnt var um fyrirhugaða heimsókn forsætisráðherrans í stjörnustöðina í júní 2015 í Milan á Expo Milano — heimssýningu sem meira en 140 lönd og tugir samtaka sóttu, þar á meðal ESO þar sem meðal annars voru sýnd ESO Ultra HD myndskeið af næturhimninum í Chile.

Paranal stjörnustöð ESO er um 130 kílómetra suður af Antofagasta í hjarta Atacama eyðimerkurinnar í Chile. Paranal er í 2635 metra hæð yfir sjávarmáli og einn besti staður heims til að stunda rannsóknir á alheiminum. Paranal er öflugasta stjörnustöð heims með fjóra 8,2 metra sjónauka og fjóra 1,8 metra hjálparsjónauka sem mynda Very Large Telescope (VLT) — þróuðustu stjörnustöð heims fyrir sýnilegt ljós — auk VISTA og VST kortlagningarsjónaukana.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1541.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1541is
Nafn:ESO Director General, Paranal, Site visit
Tegund:Unspecified : People
Facility:Very Large Telescope

Myndir

Italian Prime Minister visits ESO’s Paranal Observatory
Italian Prime Minister visits ESO’s Paranal Observatory
texti aðeins á ensku
Italian Prime Minister visits ESO’s Paranal Observatory
Italian Prime Minister visits ESO’s Paranal Observatory
texti aðeins á ensku
Italian Prime Minister visits ESO’s Paranal Observatory
Italian Prime Minister visits ESO’s Paranal Observatory
texti aðeins á ensku