eso1603is — Fréttatilkynning

Hreini og fíni nágranni Vetrarbrautarinnar

27. janúar 2016

Margar vetrarbrautir eru mjög rykugar á meðan í öðrum eru stöku rykslæður innan um gas og stjörnur. Viðfangsefnið sem hér sést á mynd frá OmegaCAM myndavélinni á VLT Survey Telescope ESO í Chile er hins vegar óvenjulegt. Þessi litla vetrarbraut, kölluð IC 1613, er óvenju hrein og fín! IC 1613 inniheldur afar lítið geimryk og gerir það stjörnufræðingum kleift að rannsaka hana í smáatriðum. Útlitið skiptir samt ekki öllu máli því hreinleiki vetrarbrautarinnar kennir okkur ýmislegt um alheiminn í kringum okkur.

IC 1613 er dvergvetrarbraut í stjörnumerkinu Hvalnum. Þessi ljósmynd frá VST [1] sýnir óvenjulega fegurð hennar, stjörnuskara og bleikglóandi gasský, í smáatriðum.

Þýski stjörnufræðingurinn Max Wolf uppgötvaði IC 1613 árið 1906. Árið 1928 notaði landi hans Walter Baade 2,5 metra sjónaukann á Wilsonfjalli í Kaliforníu til að rannsaka stjörnurnar í henni. Þá komust stjörnufræðingar að því að vetrarbrautin hlyti að vera nokkuð nálægt Vetrarbrautinni okkar, þar sem aðeins er hægt að greina stakar stjörnur í nálægustu vetrarbrautunum við okkur.

Stjörnufræðingar hafa síðan þá staðfest að IC 1613 tilheyrir Grenndarhópnum, safni yfir 50 vetrarbrauta sem inniheldur líka Vetrarbrautina okkar. IC 1613 er í um 2,3 milljóna ljósára fjarlægð frá okkur. Búið er að rannsaka hana nokkuð vel sökum nálægðar. Hún er óregluleg dvergvetrarbraut sem skortir mörg einkenni sambærilegra vetrarbrauta, til dæmis skífu.

IC 1613 bætir þetta hins vegar upp með hreinleika sínum. Einmitt vegna þess hve lítið ryk hún inniheldur þekkjum við fjarlægðina til IC 1613 mjög nákvæmlega, en það hjálpar líka til að mjög lítið ryk er milli okkar og hennar. Það gerir stjörnufræðingum kleift að sjá hana miklu betur en ella [2].

Önnur ástæða þess að við þekkjum fjarlægðina til IC 1613 svo nákvæmlega er sú að vetrarbrautin inniheldur fjölda stjarna af tveimur sérstökum gerðum: Sveiflustjörnur af gerð Sefíta og RR Hörpustjörnur [3]. Báðar gerðir breyta birtu sinni lotubundið (eso1311).

Eins og við þekkjum í daglegu lífi okkar hér á Jörðinni sýnast ljósgjafar eins og ljósaperur eða kertalogar daufari því lengra í burtu sem þeir eru frá okkur. Stjörnufræðingar nota sömu hugmynd til þess að finna út fjarlægðir fyrirbæra í geimnum — að því gefnu að þeir viti hversu björt þau eru í raun og veru og þekki það sem kallast reyndarbirta stjarnanna.

Sefítar og RR Hörpustjörnur hafa sérstaka eiginleika sem gerir það að verkum að birtuaukning og birtudofnun þeirra tengist reyndarbirtunni beint. Með því að mæla hversu hratt birtan sveiflast geta stjörnufræðingar fundið út reyndarbirtuna. Síðan geta þeir borið saman þessi gildi við mælda sýndarbirtu og fundið út hversu langt í burtu stjörnurnar hljóta að vera til að sýnast jafn daufar og þær sýnast á himinhvolfinu.

Stjörnur með þekkta reyndarbirtu virka eins og staðalkert, það er að segja eins og kerti með tiltekna birtu myndi virka sem góður mælikvarði á fjarlægðir byggt á mældu birtuflökti kertalogans.

Með hjálp staðalkerta eins og breytistjörnunum í IC 1613 og sprengistjörnum af gerð Ia, sem sjást úr mikilli fjarlægð í geimnum, hafa stjörnufræðingar smíðað fjarlægðarstiga sem nær lengra og lengra út í geiminn.

Fyrir nokkrum áratugum hjálpaði IC 1613 stjörnufræðingum að finna út hvernig hægt er að nota breytistjörnur til að kortleggja víðáttur alheimsins. Ekki slæmt fyrir litla vetrarbraut.

Skýringar

[1] OmegaCAM er 32 CCD myndflaga og 256 milljón pixla myndavél á 2,6 metra VLT Survey Telescope í Paranal stjörnustöðinni í Chile. Hér eru fleiri myndir frá OmegaCAM.

[2] Geimryk er úr ýmsum þungum frumefnum, eins og kolefni og járni, sem og stærri sameindum. Rykið byrgir ekki aðeins sýn heldur dreifir líka bláu ljósi sem veldur því að stjörnur á bak við rykslæður sýnast rauðari en þær eru í raun og veru. Stjörnufræðingar gera ráð fyrir þessari geimroðnun í mælingum sínum. Samt sem áður er raunin sú að því minni sem geimroðnunin er, þeim mun nákvæmari verða mælingarnar.

[3] Fyrir utan Magellansskýin tvö er IC 1613 eina óreglulega dvergvetrarbrautin í Grenndarhópnum þar sem fundist hafa sveiflustjörnur af gerð RR Hörpustjarna.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslands
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1603.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1603is
Nafn:IC 1613
Tegund:Local Universe : Galaxy : Size : Dwarf
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM

Myndir

The dwarf galaxy IC 1613
The dwarf galaxy IC 1613
texti aðeins á ensku
The dwarf galaxy IC 1613 in the constellation of Cetus
The dwarf galaxy IC 1613 in the constellation of Cetus
texti aðeins á ensku
The sky around the dwarf galaxy IC 1613
The sky around the dwarf galaxy IC 1613
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on the dwarf galaxy IC 1613
Zooming in on the dwarf galaxy IC 1613
texti aðeins á ensku
A close look at the dwarf galaxy IC 1613
A close look at the dwarf galaxy IC 1613
texti aðeins á ensku
IC1613 fulldome flythrough
IC1613 fulldome flythrough
texti aðeins á ensku