eso1606is — Fréttatilkynning
ATLASGAL kortlagningunni á Vetrarbrautinni lokið
24. febrúar 2016
Stjörnufræðingar hafa birt nýja og stórglæsileg mynd af Vetrarbrautinni okkar sem leiðir til lykta APEX Telescope Large Area Survey of the Galaxy (ATLASGAL) kortlagningarinnar. Undanfarin ár hefur APEX sjónaukinn í Chile kortlagt í fyrsta sinn allan flöt Vetrarbrautarinnar sem sést frá suðurhveli Jarðar á hálfsmillímetra bylgjulengdum — milli innrauðs ljóss og útvarpsbylgna — í mun meiri smáatriðum en önnur kortlagningarverkefni. APEX sjónaukinn er 12 metra breiður og gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka köldustu kima himingeimsins: Gas og ryk sem er aðeins nokkra tugi gráða yfir alkuli.
APEX, Atacama Pathfinder EXperiment sjónaukinn, er í 5100 metra hæð yfir sjávarmáli á Chajnantor hásléttunni í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Við ATLASGAL kortlagningarverkefnið voru einstakir eiginleikar sjónaukans nýttir til hins ítrasta svo útbúa mætti nákvæma mynd af dreifingu kaldra og þéttra gasskýja meðfram fleti Vetrarbrautarinnar [1]. Á nýju myndinni sjást flest þau stjörnumyndunarsvæði sem eru í suðurhelmingi Vetrarbrautarinnar [2].
Nýja ATLASGAL kortið nær yfir svæði á himinhvolfinu sem er 140 gráður að lengd og 3 gráður á breidd, meira en fjórum sinnum stærra en fyrsta ATLASGAL kortið [3]. Nýja kortið er ennfremur mun ítarlegra og nákvæmara enda hafa sum svæðin verið kortlögð ítrekað til að ná betri og samfelldari upplýsingum.
ATLASGAL kortlagningin er árangursríkasta stóra verkefni APEX. Hingað til hafa nærri 70 ritrýndar vísindagreinar verið birtar með gögnum úr verkefninu en nú þegar gögnin eru orðin aðgengileg stjörnufræðingum um allan heim er ljóst að arfleið hennar verður enn meiri [4].
Í hjarta APEX eru einstaklega næm mælitæki og var eitt þeirra, LABOCA (LArge BOlometer Camera) notuð í ATLASGAL kortlagninguna. LABOCA mælir örlitla hitastigsbreytingu sem verður í mælitækinu þegar geislun berst inn í það og getur tækið mælt útgeislun frá köldum rykskýjum sem skyggir á ljós frá fjarlægari stjörnum.
Nýja ATLASGAL kortið betrumbætir mælingar sem Planck gervitungl ESA hefur gert [5]. Samblanda gagna frá Planck og APEX gera stjörnufræðingum kleift að mæla útgeislun sem dreifist yfir stór svæði á himninum og áætla út frá því hve mikið er af þéttu gasi í innri hlutum Vetrarbrautarinnar. ATLASGAL gögnin voru líka notuð í nýja rannsókn á köldum og massamiklum skýjum þar sem nýjar kynslóðir stjarna eru að fæðast.
„ATLASGAL gefur okkur spennandi innsýn í hvar næstu kynslóðir hámassastjarna og þyrpinga myndast. Með því að blanda mælingunum saman við athuganir frá Planck getum við núna fundið tengsl við stórgerð risasameindaskýja,“ segir Timea Csengeri við Max Planck Institute for Radio Astronomy (MPIfR) í Bonn í Þýskalandi sem hafði umsjón með vinnunni við samblöndun gagnanna frá APEX og Planck.
Fyrir skemmstu var tíu ára rannsóknarafmæli APEX sjónaukans fagnað. Sjónaukinn gegnir enda mikilvægu hlutverki, ekki aðeins sem frumgerð hálfsmillímetrasjónauka, heldur líka sem viðbót við ALMA, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array, sem einnig er á Chajnantor hásléttunni. APEX er frumgerð loftnetanna sem smíðuð voru fyrir ALMA verkefnið og hefur fundið mörg viðfangsefni sem ALMA getur rannsakað betur.
„ATLASGAL hefur gert okkur kleift að fá nýja og miklu betri mynd af þéttum geimskýjum í Vetrarbrautinni okkar. Nýja kortið veitir stjörnufræðingum þann möguleika að finna nýjar uppgötvanir í gagnasafninu. Margir hópar vísindamanna eru þegar byrjaðir að nota gögnin frá ATLASGAL til að undirbúa nánari rannsóknir með ALMA,“ segir Leonardo Testi hjá ESO, sem er meðlimur í ATLASGAL teyminu og verkefnisstjóri ALMA verkefnisins.
Skýringar
[1] Kortið var sett saman úr mælingum APEX á ljósi með 870 míkrómetra bylgjulengd (0,87 millímetrar).
[2] Norðurhluti Vetrarbrautarinnar hafði þegar verið kortlagður með James Clerk Maxwell (JCMT) sjónaukanum og öðrum sjónaukum. Suðurhimininn er hins vegar sérstaklega mikilvægur því þar er miðja Vetrarbrautarinnar og auk þess getur ALMA fylgt mælingunum eftir.
[3] Fyrsta gagnabirtingin þakti 95 fergráðu svæði, mjög langa og mjóa rák meðfram fleti vetrarbrautarinnar sem var tveggja gráðu breið og 40 gráðu löng. Nýja kortið nær yfir 420 fergráður, meira en fjórfalt stærra svæði.
[4] Gögnin eru aðgengileg í gagnasafni ESO.
[5] Gögn Planck sjónaukans ná yfir allan himininn en upplausnin er ekki ýkja góð. ATLASGAL gögnin ná aðeins yfir flöt Vetrarbrautarinnar en eru í mun meiri upplausn. Samblanda beggja gagna gefur mjög gott styrksvið.
Frekari upplýsingar
ATLASGAL er samstarfsverkefni Max Planck Institute for Radio Astronomy (MPIfR), Max Planck Institute for Astronomy (MPIA), ESO og Chile háskóla.
APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu.
ALMA er samvinnuverkefni ESO (fyrir hönd aðildarríkja sinna), NSF (Bandaríkin) og NINS (Japan), auk NRC (Kanada), NSC og ASIAA (Taívan) og KASI (Suður Kórea), í samstarfi við Chile. Joint ALMA Observatory er í umsjá ESO, AUI/NRAO og NAOJ.
ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.
Tenglar
- Max-Planck-Institute for Radio Astronomy (MPIfR)
- Onsala Space Observatory (OSO)
- Upplýsingar um ATLASGAL hjá MPIfR
- Grein Csengeri o.fl. frá 2016 um samblönduna við gögn Planck gervitunglsins
- Greinar um ATLASGAL í ESO Telescope Bibliography
Tengiliðir
Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org
Carlos De Breuck
ESO APEX Programme Scientist
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6613
Tölvupóstur: cdebreuc@eso.org
Frederic Schuller
ATLASGAL Principal Investigator - Max Planck Institute for Radio Astronomy
Bonn, Germany
Tölvupóstur: fschulle@apex-telescope.org
Friedrich Wyrowski
APEX Project Scientist – Max Planck Institute for Radio Astronomy
Bonn, Germany
Sími: +49 228 525 383
Tölvupóstur: fwyrowski@mpifr-bonn.mpg.de
Norbert Junkes
Press and Public Outreach – Max Planck Institute for Radio Astronomy
Bonn, Germany
Sími: +49 228 525 399
Tölvupóstur: njunkes@mpifr-bonn.mpg.de
Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org
Um fréttatilkynninguna
Fréttatilkynning nr.: | eso1606is |
Nafn: | Milky Way |
Tegund: | Milky Way |
Facility: | Atacama Pathfinder Experiment |
Instruments: | LABOCA |
texti aðeins á ensku