eso1608is — Fréttatilkynning

Besta mynd sem náðst hefur af rykskífu í kringum gamla stjörnu

VLTI finnur rykskífu í kringum aldraða stjörnu svipaðar þeim sem sjást í kringum ungar stjörnur

9. mars 2016

Stjörnufræðingar hafa með hjálp Very Large Telescope Interferometer í Paranal stjörnustöð ESO í Chile náð skýrustu myndinni til þess af rykskífu umhverfis aldraða stjörnu. Í fyrsta sinn geta stjörnufræðingar borið slíkar skífur saman við skífur í kringum ungar stjörnur og reynast þær ótrúlega svipaðar. Ennfremur er hugsanlegt að skífa sem verður til við ævilok stjörnu geti líka getið af sér aðra kynslóð reikistjarna.

Þegar ævilok stjarna nálgast byrja þær að varpa efni út í geiminn með stjörnuvindum á rauða risaskeiði þeirra og mynda stöðugar gas- og rykskífur. Þessar rykskífur líkjast mjög þeim sem sjást í kringum ungar stjörnur og reikistjörnur verða til úr. Hingað til hafa stjörnufræðingar þó ekki getað borið saman skífur sem urðu til við upphaf og ævilok stjörnu.

Í nágrenni okkar eru margar ungar stjörnur sem hafa skífur sem við getum rannsakað ítarlega. Hið sama er ekki hægt að segja um gamlar stjörnur með samsvarandi skífur. Allar eru þær það langt í burtu að erfitt er að ná góðum myndum af þeim.

Nú hefur það hins vegar breyst. Hópur stjörnufræðinga undir forystu Michel Hillen og Hans Van Winckel við Institut voor Stternkunde í Lauven í Belgíu notaði Very Large Telescope Interferometer (VLTI) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile og PIONIER mælitækið auk nýja RAPID nemanum til að rannsaka forvitnilegt tvístirnakerfi.

Viðfangsefni þeirra var gamalt tvístirnakerfi, IRAS 08544-4431 [1], sem er í um 4000 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Seglinu. Þetta tvístirnakerfi samanstendur af rauðri riastjörnu sem hefur varpað frá sér efni í rykskífu og annarri stjörnu sem er skemmra á veg komin á þróunarbrautinni og er nálægt skífunni.

„Okkur tókst að ná ótrúlega skarpri mynd — mynd sem jafngildir því sem 150 metra breiður sjónauki sæi — með því að skeyta saman ljósi frá nokkrum sjónaukum Very Large Telescope víxlmælisins. Upplausnin er slík að hún jafnast á við það að greina lögun og mæla stærð á krónupeningi í tvö þúsund kílómetra fjarlægð,“ segir Jacques Kluska, meðlimur í rannsóknarhópnum við Exeterháskóla í Bretlandi.

Einstök greinigeta [2] Very Large Telescope víxlmælisins og ný tækni til ljósmyndunar gerði mönnum kleift að fjarlægja stjörnuna úr miðri myndinni sem gerði mönnum kleift að rannsaka ítarlega ýmsar myndanir í IRAS 08544-4431 kerfinu í fyrsta sinn.

Augljósasta myndunin er hringur. Innri brún rykhringsins, sem hér sést í fyrsta sinn, kemur heim og saman við það sem búast mætti við að við sæjum í rykskífum: Nálægt stjörnunni myndi rykið gufa upp vegna geislunar frá stjörnunni.

„Það kom okkur líka á óvart að nema daufari bjarma sem stafar líklega af ryki í kringum fylgistjörnuna. Við vissum að um væri að ræða tvístirni en við bjuggumst ekki við því á að sjá fylgistjörnuna beint en þökk sé aukinni getu nýja nemans í PIONIER mælitækinu getum við skoðað innri hluta þessa fjarlæga kerfis,“ segir Michel Hillen aðalhöfundur greinarinnar um rannsóknina.

Stjörnufræðingarnir komust að því að skífum í kringum ungar stjörnur svipar vissulega mjög til svipaðra frumsólkerfisskífa sem við sjáum í kringum ungar stjörnur. Enn á eftir að koma í ljós hvort önnur uppskera reikistjarna verði í kringum þessar gömlu stjörnur en í öllu falli er kerfið afar forvitnilegt.

„Mælingar okkar og líkön opna nýjan glugga fyrir rannsóknir á eðliseiginleikum þessara skífa, sem og þróun stjarna í tvístirnakerfum. Í fyrsta sinn getum við séð hið flókna samband sem ríkir milli þéttra tvístirna og rykugs umhverfis,“ segir Hans Van Winckel að lokum.

Skýringar

[1] Nafnið vísar til þess að um sé að ræða uppsprettu innrauðs ljóss sem IRAS gervitunglið nam og skrásetti upp úr 1980.

[2] Upplausn VLTI, notaður með hjálparsjónaukunum fjórum, var um ein millíbogasekúnda (1/1000 af 1/3600 hluta úr gráðu).

Frekari upplýsingar

Skýrt var frá rannsókninni í greininni „Imaging the dust sublimation front of a circumbinary disk”, eftir M. Hillen o.fl., sem birtist í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Í rannsóknarteyminu eru M. Hillen (Instituut voor Sterrenkunde, Leuven, Belgíu), J. Kluska (University of Exeter, Exeter, Bretlandii), J.-B. Le Bouquin (UJF-Grenoble 1/CNRS-INSU, Institut de Planétologie et d’Astrophysique de Grenoble, Frakklandi), H. Van Winckel (Instituut voor Sterrenkunde, Leuven, Belgíu), J.-P. Berger (ESO, Garching, Þýskalandi), D. Kamath (Instituut voor Sterrenkunde, Leuven, Belgíu) og V. Bujarrabal (Observatorio Astronómico Nacional, Alcalá de Henares, Spáni).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Reykjavík, Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Hans Van Winckel
Instituut voor Sterrenkunde
KU Leuven, Belgium
Sími: +32 16 32 70 32
Tölvupóstur: Hans.VanWinckel@ster.kuleuven.be

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1608.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1608is
Nafn:IRAS 08544-4431
Tegund:Milky Way : Star : Circumstellar Material : Disk
Facility:Very Large Telescope Interferometer
Instruments:PIONIER
Science data:2016A&A...588L...1H

Myndir

The dusty ring around the aging double star IRAS 08544-4431
The dusty ring around the aging double star IRAS 08544-4431
texti aðeins á ensku
The dusty ring around the aging double star IRAS 08544-4431
The dusty ring around the aging double star IRAS 08544-4431
texti aðeins á ensku
The aging double star IRAS 08544-4431 in the constellation of Vela (the sails)
The aging double star IRAS 08544-4431 in the constellation of Vela (the sails)
texti aðeins á ensku
The rich celestial landscape around the aging double star IRAS 08544-4431
The rich celestial landscape around the aging double star IRAS 08544-4431
texti aðeins á ensku

Myndskeið

Zooming in on aging double star IRAS 08544-4431
Zooming in on aging double star IRAS 08544-4431
texti aðeins á ensku